fimmtudagur, júlí 31, 2003

Jæja þá er ég orðin heimilislaus. Yfirgaf Nýlendugötuna í síðasta sinn í morgun. Ég verð að viðurkenna að smá tregi fylgdi þessu. Mér hefur liðið mjög vel í gamla kofanum og er búin að búa þarna í rúm tvö ár. Þetta varð nefnilega heimili en ekki bara einhvers staður sem maður er á um tíma. Ég held að ég sé líka að gera mér meira grein fyrir því hversu drastískar breytingar verða á lífi mínu næstu vikur og mánuði. En nóg af dramatík, bara tveir dagar eftir í vinnu og á morgun fer ég heim í heiðardalinn í nokkura vikna frí. Ahh það verður gott.

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Búin að ná í samnorræna flutningsvottorðið mitt svo að nú get ég labbað beint inn dönsku velferðina. Skil ekki hvers vegna Blönduós þarf að koma fram á öllum svona plöggum sem fæðingarstaður minn. Hvaða máli skiptir bæjarfélagið sem maður fæðist í?
Næstum allt orðið hreint og fínt í húsinu okkar, bara eftir að skúra gólfið og bera út dótið. Í kvöld fer rúmið mitt og í fyrramálið yfirgefum við húsið fyrir fullt og allt. Síðan verð ég á vergangi í rúman sólarhring, enda sjálfsagt með því að hanga með rónunum á Austurvelli. Sef bara í bílnum eins og sannur róni.

þriðjudagur, júlí 29, 2003

Láki og Svana tóku þvottvélina og ísskápinn í gær svo að nú er ekki mikið eftir. Þau komu líka með kjúkling á grillið og tilheyrandi svo úr varð úrvalsmáltíð. Takk fyrir mig. Á eftir á svo að deila snæðingi með öðru gæðapari, Hildi og Frikka. Nú er nefnilega hver að verða síðastur að koma í heimsókn á okkar fyrrum fagra heimili.
Annars er dauði og djöfull hérna í vinnunni núna, verið að malbika fyrir utan, svo við erum að drepast vegna fnyks, hávaða og hita. Því til að minnka lyktina og hávaðann lokum við gluggum sem aftur orsakar hitann. Nóg var nú áreitið fyrir þó þetta bætist ekki við.
Three days to go.

mánudagur, júlí 28, 2003

Eftir mánuð verð ég í flugvél á leið til Danmerkur, sjálfsagt skjálfandi á beinunum. Helgin fór í það að flytja og þrífa. Við erum nú ekki alveg fluttar út en allt dótið mitt nema rúmið er farið. Sjónvarpið fór á laugardaginn, fyndið hvað maður er háður því. Ekki beint því að horfa á það heldur bara hafa það í gangi. Við komumst líka að þvi að við eigum ekki einu sinni útvarp. Það eru geislaspilarar í tölvunum okkar en þær eru báðar farnar heim. Við höfum semsagt ekki aðgang að neinum fjölmiðlum nema þeim prentmiðlum sem berast inn um lúguna. Meira segja bækurnar mínar eru farnar heim. Í gærkvöldi fórum við því í bíó og sáum myndina Basic. Strákar voru í meirihluta í salnum enda er þetta svona hermynd. Ég hef nú samt alltaf verið frekar hrifin af svona hermyndum, þær eru tiltölulega lausar við væmni. En myndin var ágæt, gott plott.

laugardagur, júlí 26, 2003

Fór í bandaríska sendiráðið í gær. Þar þurfti ég að fara í gegnum málmleitartæki en hingað til hef ég einungis gert það á flugvöllum. Konan sem við töluðum við var svo inn í litlum klefa og við töluðum saman í gegnum gler og stungum blöðum í gegnum lúgu. Ég myndi ekki vilja vinna inn í klefa bakvið málmleitartæki. Það er ábyggilega leiðinlegt að vera svona hræddur.

föstudagur, júlí 25, 2003

Fékk þetta í hotmailið mitt. Áður hefur mér borist mikið magn af klámi, auglýsingar um tippastækkanir og ódýr og góð doktorspróf. Nú er semsagt verið að reyna að vekja áhuga minn á því að fá mér rússneska konu.

American women can have attitudes that are difficult to deal with. They are often demanding and hard to please. Russian women on the other hand are so unspoiled. In many less-developed countries, like countries of the former Soviet Union, women have a much lower social status than men. Russian men are often abusive and disrespectful toward women. This is what Russian women are used to. Compared to that, the life you can give her will make her so happy and grateful. Russian women tend to be devoted adoring wives.

Ekki spurning, þær eru ómögulegar þessar könsku konur.

Svo ekki sé minnst á þetta:
According to the United States National Institutes of Health (NIH) , just over half of American women are overweight or obese. The findings of a 1998 study are that 25.7% of American women over 20 years of age are overweight and an additional 25% are obese.

Russian women in contrast are rarely overweight. They seem more concerned with their appearance. Russians do not have a lot of the high-fat convenience foods we have. They tend to eat more whole foods, whole grain breads and in general lower-fat diets. Most Russians cannot afford cars and must walk most places they go. Very attractive women are common in countries of the Former Soviet Union.

Ef ég væri feitur kani þá myndi ég svo sannarlega ekki giftast öðrum feitum kana heldur fá mér rússneska mjónu. Verst að ég er ekki kani.
Loksins farin að lesa eitthvað að viti í bókunum góðu. Las tvo kafla í gærnótt og í nótt. Byrjaði líka að pakka í gær. Er í mestu vandræðum með að ákveða hvað ég ætla að hafa með mér til Danmerkurinnar. Á líka alltof mikið af bókum, bæði námsbókum og öðrum. Mér finnst leiðinlegt að pakka og flytja en það finnst sjálfsagt flestum. Í dag er líka akúrat vika þar til ég flyt ég úr borginni en ég hef búið hérna nær óslitið í á fimmta ár. Skrítið, prítið.

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Svaf út í morgun og horfði síðan á Friends, klæddi mig ekki fyrr en um kl. 15. Afskaplega kósý. Verð annars að fara lesa eitthvað í þessum bókum fyrir skólann, er ekki að nenna þessu frekar en fyrri daginn. Á eftir að lesa 3 bækur áður en ég fer út og er ekki einu sinni hálfnuð með þá fyrstu. Fjandans leti alltaf.

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Í dag er síðasta kvöldvaktin mín og dag tek ég líka síðustu aukavaktina mína. Þetta þýðir að ég kom hérna kl. 10 og verð til 23 í kvöld. Bara svona til þess að tryggja það að ég verði örugglega búin að fá upp í kok þegar ég hætti.

mánudagur, júlí 21, 2003

Leiðindi dagsins: Ég er á kvöldvakt til 23.
Ljósið í myrkrinu: Næstsíðasta kvölvaktin mín.
Var ógeðslega ómerkileg áðan. Sá gamlan bekkjarfélaga í búðinni en nennti ómögulega að heilsa honum þannig að ég hunsaði hann bara. Hann talar bara svo mikið greyið og ég var eiginlega að flýta mér. Maður á nú samt ekki að gera svona. Skamm, skamm.
Komst aðeins út í sólina áður en hún kvaddi. Fékk að fara snemma heim úr vinnunni á laugardaginn og skellti mér í sólarhringsútilegu með Beggu, Sigrúnu og Óðni litla. Við fórum í Laugarás sem er svona fjölskyldutjaldstæði á suðurlandinu. Það var fáranlega heitt svo að það var bara erfitt að tjalda en það var æðislegt að liggja og bráðna hreinlega í hitanum. Í gær var sólin farin af svæðinu en við fórum samt í húsdýragarðinn í Slakka sem er þarna rétt hjá svona til þess að sýna rétt rúmlega eins árs barninu dýrin. Ég hef nú aldrei litið á mig sem sérstakan dýravin en mér fannst þetta nú hálfleiðinlegt fyrir dýrin. Svo var líka ógeðslega vond lykt þarna sumstaðar svo að borgarbarnið ég tjái sig nú. Svo skildust leiðir, Sigrún fór með barnið heim og ég og Begga keyrðum lengra og skoðuðum þjóðveldisbæinn að Stöng. Áhugavert fyrir "sagnfræðinginn" mig. Semsagt fín helgi.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Ferlega lítið að frétta. Er alveg að fara heim þar sem ég ætla að elda okkur kjúklingabringur í tikka masala. Nammi namm.

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Fáranlega gott veður úti, vissi ekki að það gæti orðið svona gott hér í borg. Allir virðast vera úti í sólinni því hér er lítið að gera. Fólk hringir frekar í rigningu. Fór niður í bæ áðan vegna bankavesenisins. Ég var duldið skrítin þar sem ég var ekki erlendur túristi (60%), kona með lítið barn (20%) eða starfsmaður fyrirtækis í miðbænum (15%). Ég var í hópnum aðrir (5%). Nenni ómögulega að vera hér til 23 í kvöld en svona er lífið.
Bankavesenið leystist ekki eins auðveldlega og ég hafði átt von á. Endaði á því að ég fór á pósthúsið upp á Grensás en ein bankakonan sagði mér að þeir væru einu sem gætu gert þetta fyrir mig skv. þessum blessaða danska gíróseðli. Þetta vissi ég ekki fyrr en búið var að búa til einhvern svaka fínan tékka fyrir mig í bankanum. En allavega ég upp á Grensás og þar virtist fólk alveg vita hvað það ætti að gera og þetta tók varla 5 mínútur.
Hrós handa Íslandspósti og konunni hjá Landsbankanum sem var sú eina sem virtist vita eitthvað um þetta. Hinir starfsmenn Landsbankans sem ég talaði við fá ekkert klapp á bakið.
Komin inn á stúdentagarða í Danaríki!! Skrifaði undir leigusamning í dag og sendi hann niðureftir í snarhasti. Fór líka í bankann til þess að borga trygginguna og leigu fyrstu 2 vikurnar. Það gekk fínt en svo var hringt í mig 3 tímum síðar og bankakonan sagði mér að þetta hefði ekki gengið. Það er víst ekkert einfalt mál að millifæra peninga milli landa. Þannig að ég fer aftur í bankann á morgun.
Helgin var annars fín, engin útilega þó sökum veðurs. Ég nenni bara ómögulega að fara í útilegu í rigningu. Grill og teiti hjá Hildi vinkonu á laugardagskvöldið og svo var steðjað í bæinn. Grillaður skötuselur er ansi góður.

föstudagur, júlí 11, 2003

Vaknaði í öndvegis skapi í morgun og dagurinn hefur bara batnað eftir það. Sjálfsagt hefur það einhver áhrif að ég er að fara í helgarfrí og kem ekki aftur í vinnuna fyrr en seinnipartinn á þriðjudaginn. Annars er nú útlitið ekkert of bjart með þessa útilegu, eintóm rigningarspá. En hvað um það, það er hægt að liggja í leti eða djamma eða eitthvað.

fimmtudagur, júlí 10, 2003

Arg ég er að fá tremma. (Ég hef aldrei áður skrifað þetta orð tremma) Ég á bara eftir að vinna 3 vikur og svo er ég hætt. Ég vill auðvitað að þetta gerist annars væri ég nú ekki að þessu en tíminn mætti samt líða pínu hægar. Þetta er að verða ansi raunverulegt. Svo á ég náttúrulega eftir að sakna krakkana héðan alveg helling, ég held svei mér að ég fari bara að gráta þegar að því kemur. En ég hef nú svo sem grenjað út af ómerkilegri hlutum.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Stuð á Laugaveginum!!! Skrítið að vera allt í einu ekki öllu kunnugur eins og venjulega. En ef það er eitthvað sem ég kann þá er það að læra, búin að hafa það að aðalstarfi í mörg, mörg ár. Svo er það kynning í Ármúlanum um kvöldmatarleytið, eins gott að ég fái eitthvað að éta þar. Í kvöld ætla ég svo að halda áfram með Haítí verkefnið góða. Mikið, mikið að gera.
Útilega um helgina?

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Ég á að vera farin heim en ég er svo svakalega góð eins og þekkt er, að ég tók klukkutíma fyrir einn vinnufélaga minn og verð því hér til sjö. Annars er það skondið með orðið félagi. Ég nota það aldrei nema þá einmitt í orðinu vinnufélagi. Strákar nota þetta orð hinsvegar oft, það eru allir félagar þeirra. Þeir nota það virðist mér mun meira en orðið vinur þó að þeir noti það líka. Ég tala aftur á móti um vinkonur og svo bara stelpur sem ég þekki. Ég á engan/enga félaga.
Á morgun verð ég ekki að svara í símann eins og venjulega heldur fer ég í Símabúðina á Laugaveginum og fæ að kynnast því sem fram fer í verslunum Símans. Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og sjá aðra hlið a hlutunum.
Ég hef nú stundum verið kölluð femínisti og hef ég hingað til ekkert sérstaklega fundið til við það. En ég er ekki alveg nógu hrifin af öllu því sem þetta nýja félag þeirra stendur fyrir. Þetta hefur reyndar verið mikið í umræðunni í bloggheimum undanfarið en mér finnst þetta nú verið komið út í tóma vitleysu. Og er það ekki ólöglegt að setja sápu út í bjór hjá fólki?
Ég er bara ekki að nenna þessu.

mánudagur, júlí 07, 2003

Alveg einstaklega róleg og letileg helgi. Nokkur atriði bera ótvírætt merki um þetta. Ég hreyfði bílinn minn ekkert í þrjá daga, ég lagði honum við heimkomuna á fimmtudaginn og kom ekki nálægt honum aftur fyrr en við brottför á sunnudeginum. Ég fór ekkert á netið og skoðaði engan tölvupóst. Gemsinn var ekkert notaður fyrr en skömmu fyrir brottför í gær. Á laugardaginn fékk ég mér líka síðdegislúr og horfði á formúluna í gær. Semsagt leti dauðans. En reyndar þá las ég heila tvo kafla í stjórnmálafræðibókinni minni. Húrra fyrir mér.

fimmtudagur, júlí 03, 2003

Það er mikill og pirrandi ósiður hjá fólki að svara ekki í símann þegar hringt er. Fólkið sem ég þarf að ná í á bara að vera við símann.
Hef ekkert betra að gera þannig að ég geri bara svona vitleysis próf.

Ice!
ICE is your chinese symbol!


What Chinese Symbol Are You?
brought to you by Quizilla

Þetta kemur svo sem ekki á óvart. Ég hef samt ívið oftar verið kölluð vond en köld.
Búin að kaupa 120 stk. af birkiplöntum (þeim fjölgaði aðeins) og 1 stk. Sony Ericson T-310 gsm síma með myndavél. Með símanum fékk ég tvo miða á Englana hans Kalla og ætla bara að nota þá sjálf. Það er ekki eins og pabbi sé á leiðinni suður í bíó og ef svo væri færi hann örugglega ekki á þessa mynd. Ætli pabbi hafi ekki farið síðast í bíó þegar hann fór með mér á Sódómu Reykjavík í Félagsheimilinu á Blönduósi um árið. Ætli það séu ekki bráðum að verða 15 ár síðan.

miðvikudagur, júlí 02, 2003

Dagurinn í dag er bjartur þótt það sé rigning úti. Fyrir því eru margar ástæður. Ég fer heim annað kvöld eftir vinnu, ég fékk "boligtilbud" frá stúdendagörðunum áðan og ég er búin að redda mér fríi næstu helgi þ.e. 12. og 13. júlí.
Ég þarf náttúrulega að vesenast aðeins fyrir foreldra mína áður en ég fer heim á morgun. Fyrir mömmu þarf ég að kaupa 80 stk. af birkiplöntum sem hún ætlar að setja í nýja snjóvarnarhólinn. Svo er það gsm sími handa karli föður mínum. Honum er skyndilega farið að finnast ómögulegt að "fylgjast ekki með tækninni" eins og hann orðaði það. Þetta þýðir í raun að það séu ALLIR komnir gsm og því verði hann að fara fá sér einn slíkan. Svona er þetta reyndar með öll rafmagnstæki. Við fengum ekki vídjó fyrr en allur almenningur hafði glápt með aðstoð slíkra tækja í ca. 5 ár. Tækin verða að sanna notagildi sitt rækilega áður en fjárfest er eintaki. Frekar hefðu foreldrar mínir stokkið í sjóinn en að kaupa fótanuddstæki fótanuddstækjaárið mikla einhvern tímann á 9. áratugnum.

þriðjudagur, júlí 01, 2003

Mig langar í kók og snakk.
Mig langar til útlanda í langt og gott frí.
Mig langar að flytja til útlanda og fara í skóla.
Mig langar að vera alltaf fyrir norðan hjá fjölskyldunni minni.
Mig langar að vera svaka mjó og fín og falleg.
Mig langar að gifta mig, eignst börn og vera hin fullkomna heimavinnandi húsmóðir.
Mig langar að fá svaka góða vinnu og vera alltaf frjáls og óháð.
Mig langar að fara heim og hvíla mig.
Mig langar að búa í Reykjavík og halda áfram hinu áhyggjulausa, áreynslulausa lífi.
Mig langar að læra frönsku, spænsku, rússnesku, arabísku, kínversku...
Mig langar að verða ástfangin.
Mig langar að lesa helling af góðum bókum.
Mig langar í enn fleiri ilmvötn.

Verst að ég fæ ekki allt sem ég vil.