þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Nú er ég afar hrifin af hverskonar íþróttum í sjónvarpi en skemmtanagildið felst fyrst og fremst í því að ég er að horfa á þá bestu. Hvort sem það er heimsmeistaramót í fótbolta, Ólympíuleikar eða einhvers konar Evrópumót, þá veit ég að ég er að horfa á rjómann, þá allra bestu á sínu sviði. En í gær var bikarleikur í fótbolta í sjónvarpi allra landsmanna á "prime-time" eins og það er kallað í Ameríkunni. Ég var ekki hrifin. Íslenskur fótbolti nær nefnilega ekki upp í rjóma-kategoríuna. Ég veit að þetta er alls ekki fótbolti á heimsmælikvarða þótt ég hafi svosem ekki mikið vit á íþróttinni. Til þess að nenna að horfa á þessa leiki þyrfti ég helst að eiga einhvern nákomin ættingja í öðru liðinu á vellinum en ættingjar mínir hafa nú ekki verið þekktir fyrir mikla fótbolta- eða íþróttaiðkun yfir höfuð.

En svo ég sýni nú vott af sanngirni þá eru sjálfsagt einhverjir þarna úti sem sitja límdir fyrir framan skjáinn og þetta er jú sjónvarp allra landsmanna, líka furðulegra minnihlutahópa. Verst er þó finnst mér að leiðindin halda áfram í kvöld því þetta var ekki einu sinni úrslitaleikurinn heldur undanúrslitaleikur. Eldhúsdagsumræður á Alþingi taka þó bara eitt kvöld.

föstudagur, ágúst 25, 2006

Skrapp til Reykjavíkur í fyrradag með pabba. Stoppaði í bænum í rétt þrjá tíma en þeim var vel varið. Boðaði nánustu vini mína til fundar við mig niðri í bæ, ég hvorki nennti né hafði tíma til þess að hendast eitthvert í heimsóknir. Fórum á Óliver og þar fékk ég eitt allra besta kjúklingasalat sem ég hef smakkað. Mæli eindregið með staðnum.

Er að hugsa um að skella mér norður á eftir og svo kannski í Mývatnssveitina á morgun. Þar verður nefnilega góða veðrið.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Kántrýdagarnir tókust með afbrigðum vel. Þægilega mikið eða lítið af fólki eftir því hvernig á það er litið, frábært veður og góð skemmtun. Ótrúleg heppni með veðrið, bestu dagar sumarsins frá fimmtudagi til sunnudags. Fór meira segja í gospel-messu í góða veðrinu í gær og ég er nú hvorki mikið fyrir messur né gospel. Enda fékk ég smá kjánahroll við að horfa á þá sem lifðu sig hvað mest inn sönginn en mikið svakalega hlýtur að vera gaman að vera svona sannfærður og trúa svona mikið.

mánudagur, ágúst 14, 2006

Leita á náðir ykkar, hinna fáu en alvitru lesenda minna. Þegar rafmagnslínur slakna og lafa því óvenju mikið, hvort gerist það í miklum hita eða kulda? Við systurnar rökræddum þetta á leiðnni niður Holtavörðuheiðina á laugardaginn og erum ekki sammála þó það verði að segjast að hennar rök hafi virst vísindalegri en mín. Rök mín fyrir slökum línum í frosti er eingöngu byggð á "tilfinningu", finnst ég hafa séð þetta.

Og alveg rétt Helga, það er ekkert komið haust, fínt veður á Melum um helgina. Það verður þó að segjast að veðrið er rustalegt svo ég segi ekki haustlegt á Ströndinni í dag. En það á eftir að batna eftir því sem kántrýdagarnir nálgast.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Verslunarmannahelgin búin og sumarið finnst manni eiginlega líka. Fór ekkert út úr bænumm,nennti ómögulega til Akureyrar þangað sem ég hef farið síðustu tvö ár. En til að sýna að maður er nú ekki dauður úr öllum æðum fórum við vinkonurnar á ball í Kántrý á sunnudagskvöldið og þar var sko tekið á því. Við skemmtum okkur afskaplega vel en vorum heldur rykugar á frídag verslunarmanna. Vil kenna æfingaleysi þar um.

Sumarið er nú samt ekki alveg búið. Kántrýdagar hér á Ströndinni aðra helgi, sömu helgi og menningin verður fyrir sunnan. Geri fastlega ráð fyrir miklu stuði.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

"Allir" nema í ég í stórafmæli fyrir norðan í frábæru veðri. Litli tanusinn orðin fimm vetra. Þrefalt húrra fyrir því.