sunnudagur, október 31, 2004

Klukkan orðin 2 í annað skipti í nótt. Skrítin þessi venja að skipta á milli vetrar og sumartíma. Það verður þá ekki eins dimmt að vakna á mánudagsmorguninn en að sama skapi verður óvenju dimmt þegar ég fer heim úr vinnunni. Maður ætti nú að prófa að djamma einhvern tímann þessa nótt, extra klukkutími og allt það. Heba bauð mér reyndar í eitthvað teiti og sendi ítrekuð sms en ég nennti ekki. Fór út um síðustu helgi og ætla að vera dugleg að lesa á morgunn. Las reyndar alveg einhverjar 70 síður í dag.

Talaði við mömmu í dag á msninu. Birna og Tanusinn eru heima. Mamma var að segja mér frá því hvað hún er stillt og prúð blessunin. Ég er farin að sakna hennar dáldið mikið, mest allra held ég. Það er svo gaman að koma heim og sjá stökkið sem hún hefur tekið í þroska þessa mánuði sem ég hef verið í burtu. Er farin að hugsa um jólagjafir, hef fengið nokkrar góðar hugmyndir.

Nú fer ég að sofa.

miðvikudagur, október 27, 2004

Aðeins að stelast til að blogga í vinnunni. Var næstum dottinn á leiðinni í vinnuna í morgun. Komið næturfrost og hitinn var ansi nærri frostmarki í morgun svo það myndaðist ísing.

Allt að gerast í sambandinu góða, ESB. Horfði aðeins í hádeginu á beina útsendingu frá Evrópuþinginu þar sem Borroso fór fram á að aðtkvæðagreiðslu um nýja framkvæmdastjórn yrði frestað. Mönnum ekki vel við ítalska gæjann í nýju stjórninni. Fyndið samt hvað það voru mikil læti þarna, menn berjandi í borðið, grípandi fram í, klappandi og svona. Dóri Blö myndi sko ekki þola slíka hegðun.

Mér er sérdeilis illa við orðið bumbubúi. Margir virðast nota þetta almennt um ófædd börn í móðurkviði. Hef til dæmis séð þetta í jólakorti. Sjálfsagt ekkert verra orð en hvað annað en fer einhverra hluta vegna afskaplega í taugarnar á mér. Við Begga kölluðum Lindu Maríu dóttur Ásu vinkonu á sínum tíma Diddu Dendi. Hættum því svo um leið og hún fæddist enda átti það einhvern veginn ekki við lengur. Ása hefði getað skírt barnið þessu nafni en til allrar hamingju gerði hún það nú ekki.
Annars eru ný börn út um allar trissur þessa dagana. Nokkur komin á þessu ári hjá gömlum bekkjarfélugum úr grunnskóla og menntaskóla og nú er fólk farið að unga út barni númer 2. Í móðurfjölskyldunni eru komin 2 það sem af er árinu ef ég man rétt , von er á einu núna í desember og pabba megin er eitt á leiðinni á næsta ári.
Síðast en ekki síst er von á erfingja hjá einni bestu vinkonu minni í janúar. Það verður sérstaklega ánægjulegt þar sem ég ætla sjálfri mér nokkurs konar frænkuhlutverk þar. Ætlunin er að sækja um stöðu sem "sérlegur ráðgjafi í uppeldi og öllu öðru sem viðkemur Diaqua barninu". Á engilsaxnesku væri stöðuheitið "Honery main consultant in the upbringing of baby Diaqua". Vil ég þó taka fram að engin laun í peningum eða öðrum veraldlegum hlutum verða þegin fyrir þetta framlag mitt. Þótt vissulega ég búist við ríkulegri umbun að öðrum og langtum dýrmætari toga.
Og Begga, ég veit að ég skrifa nafnið ekki rétt, þú leiðréttir mig bara. Ég verð komin með það á hreint fyrir stóru stundina.

þriðjudagur, október 26, 2004

Kominn tími á smá nöldur. Í fyrsta skipti í dag var ekkert sérstaklega gaman í vinnunni, var eitthvað voða eirðarlaus og bara ekki að nenna þessu. Kom svo við á bókasafninu á leiðinni heim og villtist á leiðinni þaðan, kom að því að ég villtist í Osló. Þetta þýddi að ég var einhvern extra hálftíma allavega úti í rigningunni. Það var afskaplega gott að fara í heita sturtu áðan. Svo eru laufblöðin farin að falla af trjánum alveg í hrönnum. Smalgangen er þakin laufblöðum sem verða svo afskaplega hál í rigningunni. Alveg stórhættulegt náttúrulega.

Það er gott að tuða.

sunnudagur, október 24, 2004

Ákveðin angurværð yfir mér í kvöld. Slökkti bara á sjónvarpinu um átta leytið og er búin að vera að hlusta á tónlist og láta hugann reika síðan. Var reyndar sæmilega dugleg í dag eftir að ég vaknaði um hádegið, leitaði að lesefni í nokkra tíma og er núna komin með rúmar 900 bls. af þessum 1000. Þá á bara eftir að lesa þær. Verð víst að fara að byrja á þessu svo að ég nái að klára fyrir jól. Sigur rós á "fóninum", angurværðin verður held ég ekki öllu meiri. Hef annars ekki grátið og varla tárast núna í nokkrar vikur. Kann varla á þetta jafnvægi. En nóvember fer að renna upp sem löngum hefur reynst geðslagi mínu erfiður í skauti.

laugardagur, október 23, 2004

Frost og snjór heima skilst mér. Hér hefur hitinn hins vegar ekki enn farið undir 5 gráðurnar sem er gleðilegt.
Fór út með Kamran og Hebu í gærkvöldi. Við fórum á einhvern pöb og hittum Rauða kross samstarfsfélaga hennar Hebu. Það var tekið ágætlega á því, nokkuð af bjór og hvítvíni innbyrt og komið við á Kebab spesialisten á leiðinni heim. Þetta fer nú að verða skuggalegt, þriðja helgin í röð sem Bakkus er heiðraður. En það er nú reyndar sök séð með svo til trúlausa mótmælandann mig, verra er það með múslímana tvo sem bæði drekka og fornikeita og það á ramöddunni. Ég er svo yfir mig, yfir mig hneyksluð.
Annars reyndi einhver róni að espa Kamran upp með einhverju al-kaida tali í gær. Sem betur fer er hann þroskaðri en svo að láta það fara í sig. Rónanum var hins vegar afar vel við mig, Island, Island, hrópaði hann með stóru brosi. Fólk veit reynar ótrúlega mikið um Frónna hérna, meira en Baunarnir. Næstum allir sem ég hef hitt þekkja einhvern Íslending og í gær hitti ég hann Sven sem hafði átt íslenska kærustu, Þóru, fyrir 10 árum. Hún var víst svoldið wild að sögn stúlkan sú og fór frá sveininum fyrir strák frá Jamæka. Skiljanlega reyndar, maðurinn var óhemju pirrandi og ófrýnilegur mjög.

Noregur fer bara mjög vel með mig. Ég veit að það á eftir að fylgja því söknuður að fara héðan eftir tæpa tvo mánuði. Ég veit líka að ég á eftir að koma hingað aftur. Langar að heimsækja Osló um sumar. Í landsleik milli Dana og Norðmanna í fótbolta myndi ég halda með Norðmönnum. Það er ekki spurning. Kannski ég kaupi norskan fána og taki upp þann sið að flagga 17. maí og segja koseligt í hverri setningu þann daginn. Kannski ætti ég bara að gefa öllum norska peysu og brun ost í jólagjöf í ár. Held reyndar að það samræmist ekki alveg þyngd pyngju minnar og ákvæðum Flugleiða um yfirvigt. En Norge er málið.

sunnudagur, október 17, 2004

Tvö teiti í gærkvöldi. Fyrst var það farwell partý hjá Domenico vinnufélaga mínum sem er að fara aftur heim til Napólí núna í vikunni. Svo var það seinbúið afmælisteiti Kamrans hérna heima. Partýið hjá Kamrans var dulduð furðulegt eða öllu heldur gestirnir. Ég hugsa að meðalþyngd kvennanna hér í gærkvöldi hafi verið svona um 100 kíló. Það var held ég ein stelpa grennri en ég og ég er nú ágætlega í holdum og reyndar rúmlega það. En ég skemmti mér ágætlega og Kamran líka. Virtist ekkert vera að há honum að "kærastan" er í London. Ekki við eina fjölina felldur blessaður.

föstudagur, október 15, 2004

Ég er einn þeirra 6000 Íslendinga sem tekið hefur þátt í kosningu um þjóðarblómið, ó, sei, sei, já. Ég raðaði blómunum 6 samviskusamlega í röð eftir fegurð og fönguleika. Geldingahnappurinn fékk 1. sætið og Gleym-mér-ei er númer 2. Þetta er þó fyrst og fremst tilfinningalegt val þar sem þessi blóm vaxa í höfðanum heima sem er nota bene einn fallegasti staður á Íslandi ef ekki heiminum öllu svei mér þá.

Nei, nei, ég er alls ekkert uppfull af þjóðrembingi.

fimmtudagur, október 14, 2004

Kampavín og kökur í vinnunni í dag, "birthday celebrations" fyrir mig og hana Solveig. Duldið fyndið að láta fólk syngja fyrir sig norskan afmælissöng og skála fyrir sér í kampavíni. Ég verð annars að fara að læra fleiri tungumál, allavega læra þau betur sem ég kann eitthvað í. Í þessu litla teiti var töluð enska, norska, sænska, franska og þýska og við Hulda höfum sjálfsagt sagt eitthvað á íslenskunni. Ég skil norskuna svona að mestu og smá í þýsku en get ekki talað að neinu viti. Og ég skil ekki staf í frönsku. Þetta verður næsta verkefni eftir að þessum blessaða master er lokið.

Annars var ég hálfléleg í dag, fór meira að segja snemma heim úr vinnunni. Ég tek samt ekki í mál að verða veik núna, til þess er bara allof mikið að gera.

miðvikudagur, október 13, 2004

Mætti glerfín í vinnuna í morgun, lét mig meira að segja hafa það að fara í nælon. Um þrjú leytið var svo haldið af stað með T-baninu, lestinni semsagt, heim til sendiherrans. Þetta var agalega fínt, gamalt og stórt hús. Byggt víst um 1830 af einhverri skipasmíðafjölskyldu. Við fengum túr um hin mörgu herbergi á þremur hæðum hússins en ég var hrifnust af eldhúsinu því þar væri hægt að elda 10 saman og hafa aðra 10 í eldhúsinu líka. Sjálfur kokteillinn fór svo fram í "poolroominu". Ó, já, já þetta er svona herbergi þar sem hægt er að ýta á einhvern taka og þá lyftist gólfið og sundlaug birtist. Gólfið var reyndar á sínum stað núna. Þetta var semsagt allt voða fínt og flott en að sama skapi leiðinlegt. Ég og Hulda ákváðum því að stinga af við fyrsta tækifæri og fórum í annað boð heima hjá ísl. sendiherranum. Það var mun betra. Þar talaði fólk íslensku og átti góðan pinnamat og svona. Fékk meðal annars hrátt hangikjöt einhvers konar á heimabökuðu rúgbrauði. Alveg syndsamlega gott. Sendifulltrúinn hann Skafti keyrði okkur svo heim til Huldu (og fyrir þá sem til þekkja til þá er hann svona skáfrændi minnm, mágur pabba er mágur hans) og við Hulda tókum gott spjall. Á endanum klifraði ég svo upp á bysykkel og hjólaði heim. Það hefur verið sjón að sjá mig í pilsi, nælonsokkabuxum, fínum skóm og svo með trefil, húfu og vettlinga hjóla þetta. En maður verður að búa sig vel, hitinn að færast ískyggilega nálægt frostmarki hér í Osló.

Mér finnst bara mjög "koseligt" hér í Osló.

sunnudagur, október 10, 2004

Afmælisdeginum hefur að mestu verið varið í þynnku. Fór i teiti í gærkvöldi til Huldu og Max þar sem var kátt á hjalla frameftir öllu. Rauðvín og bjór var drukkið í ótæpilegu magni. Í gær gerðust líka undur og stórmerki, ég fór út og keypti mér föt og meira að segja heilar þrjár flíkur. Varð hreinlega að kaupa mér eitthvað fyrir boðið hjá sendiherranum á miðvikudaginn. Þýðir víst ekki að mæta þar í gallabuxum eða einhverju álíka. Kærastan hefur dekrað ótæpilega við mig í dag, fór sérstaka ferð á McDonalds til að ná í þynnkumat handa mér. Ég kann betur við þessa heldur en þá síðustu. Vonandi skiptir hann ekki þessari út fyrr en ég er farin. Úff, maður er eitthvað þreyttur og þvældur. Maður er örugglega bara að verða of gamall fyrir þetta brölt.

fimmtudagur, október 07, 2004

Ég hef tekið upp fornan sið hér í Norge, sjónvarpslaus fimmtudagskvöld. Ekki það að það sé ekki eitthvað í imbanum heldur virðast NRK 1 og 2 og allar hinar stöðvarnar hafa ákveðið að hafa alveg sérdeilis leiðinlega dagskrá eitt kvöld vikunnar. Svo skemmtilega vill til að þetta eru fimmtudagskvöld. Sem betur fer hef ég þroskast ögn á síðustu 20 árum eða svo þannig að þetta fer ekki eins mikið í taugarnar á mér og það gerði þá. Það skýrist líka af því að nú hef ég tölvu sem hægt er að nota sem nokkurs konar sjónvarp því ég fengi náttúrulega bara svakaleg fráhvarfseinkenni ef ég hyrfi alfarið frá skjánum eitt kvöld í viku. Kvöldinu hefur því verið varið í að vafra um netið og svo horfði ég á Silfrið síðan á sunnudaginn á netinu svo að ég horfði á sjónvarp án þess að horfa á sjónvarp, eða þannig.

Annars er ég meira inn í því sem er að gerast í pólitíkinni heima heldur en oftast þegar ég er stödd á landinu. Í vinnunni renni ég nefnilega í gegnum bæði moggann og fréttablaðið á hverjum morgni og hlusta á rás 2 meira og minna allan daginn, missi helst ekki af hádegisfréttum. Um daginn þegar kviknaði í á Blönduósi, sagði ég mömmu frá því að uppi væri sterkur grunur um íkveikju. Þetta vissi ég verandi út í Noregi en ekki hún heima á Ströndinni. Fréttagenin frá pabba og afa eru greinilega farin að láta á sér kræla. Bráðum verð ég sjálfsagt eins og pabbi farin að heimta að horfa á fréttirnar á bæði stöð 2 og ríkinu.

þriðjudagur, október 05, 2004

Nú hef ég komið til allra norrænu landanna nema Færeyja. Í kvöld fór ég nefnilega í teiti í finnska sendiráðið hér í borg sem tæknilega er á finnskri grundu. Finnsku traineearnir tóku það upp hjá sjálfum sér að senda mail á öll sendiráðin í Osló og bjóða liðinu í heimsókn til þess að kynnast aðeins og svona. Veitt var vel af víni og mat og að sjálfsögðu bauðst fólki að fara í sauna. Þetta var semsagt bara mjög fínt og gaman að hitta fólk sem er í sömu sporum og maður sjálfur.

Á bæði sunnudags- og mánudagskvöld var farið í bíó. Reyndar í seinna skiptið vegna þess að Hulda fékk frímiða á frumsýningu á myndina Wimbleton. Alveg ágætis feel good mynd bara. Á leiðinni heim benti hún mér á gleðikonurnar sem stóðu á götuhornunum en bíóið er víst við eina aðal götuna í þeim bisnes. Ég hefði aldrei fattað þetta sjálf enda bara saklaus sveitastúlka.

Í dag eru fimm ár síðan afi á Jaðri dó. Ég sakna hans stundum.

sunnudagur, október 03, 2004

Er að hlusta og horfa á tónleika með Sálinni sem ég keypti á dvd í fríhöfninni á leiðinni út. Einhverra hluta vegna kemur í fyrsta skipti yfir mig söknuður eftir Reykjavíkinni við þessa hlustun. Kannski ekkert skrítið, það er orðið rúmt ár síðan ég bjó í borginni og mér leið ósköp vel þar. Ég sakna daglega lífsins í borg sem maður þekkir vel, sem er svoldið heima. Göngutúrar um gamla vesturbæinn og þingholtin, fyrirdeiti á Nýlendugötunni, djamm á björtum sumarnóttum og jólaljósin. Jólaljósin já. Ég man í fyrra hvað ég hlakkaði til að fara heim og sjá alvöru jólasljós. Það verður fróðlegt að sjá hvort Norsarinn skreyti meira en Daninn.

föstudagur, október 01, 2004

Norge, eða öllu heldur Osló, er held ég bara hin fínasta borg. Fór á háskólabókasafnið í morgun og það er miklu flottara en bókasafnið í skólanum mínum í Álaborg. Norðmenn virðast vera líkari okkur í byggingamálum heldur en Dönum. Danirnir rumpa bara upp einhverjum ferköntuðum múrsteinavölundarhúsum á einni hæð meðan Norsararnir byggja margra hæða glerhýsi. Eitthvað verða þeir reyndar að eyða olíugróðanum í. Elska líka trjágöngin sem ég labba í gegnum á hverjum degi á leiðinni úr vinnunni, sérdeilis útlandalegt. Í dag sá ég líka að það er búið að setja upp svona kiljubúð rétt hjá vinnunni. Búðin selur semsagt ekkert nema kiljur á norsku og ensku. Til að mynda sá ég bækur eftir Dan Brown sem skrifaði Da Vinci lykilinn. Var næstum búin að kaupa eina en ákvað að bíða með það, þessa helgina á að lesa um fiskveiðstefnu Íslands versus ESB nefnilega.

Og elsku Blair, takk kærlega fyrir að láta mig vita. Ég fer strax í kvöld út á leigu og bið um þessa Malibu ræmu. Það væri ágætt ef þú létir mig framvegis vita þegar út koma nýjar myndir með þínu fagra fési, helst fyrirfram ef hægt væri.
Þinn aðdáandi númer 1, 2 og líka 3
mrs. Sherry Stringfield