mánudagur, maí 30, 2005

Er komin heim eftir suðurferðina. Fór í tvær veislur í föðurfjölskyldunni á föstudag og laugardag, hitti því flesta í Melafjölskyldunni allavega einu sinni þessa helgi. Þetta er undarleg fjölskylda, Melafjölskyldan, kannski ekkert undarlegri en margar aðrar en undarleg samt. Hún samanstendur af þremur bræðrum, Jóni, Jónasi og Sigurði sem allir ólust upp á Melum og ákváðu síðan allir að gerast bændur á þessum títtnefnda stað Melum. Þar ólu þeir síðan upp sín börn með sínum konum, alls 16 stykki. Þessir krakkar sem nú eru flest hver á fimmtugs- og sextugsaldri ólust upp saman og hafa alltaf haldið sambandi, mismiklu auðvitað, en það hefur þó minnkað mikið eftir að þeir bræður hættu búskap einn af öðrum. Ég er svo af þriðju kynslóðinni sem fékk nasaþefinn af þessu öllu í gegnum heimsóknir að Melum.

Það er mikið drama tengt Melum og fjölskyldunni þar í mínum huga í það minnsta. Að hluta til er þetta saga 20. aldarinnar í hnotskurn, flutningar frá dreifbýli í þéttbýli, upplausn gamla sveitasamfélagsins sem hafði staðið nær óbreytt í hundruði ára. Á Melum vildi enginn taka við ættaróðalinu sem hefur verið í eigu ættarinnar síðan ca. 1700. Þetta er líka saga fjölskylduerja, spennu og ósamkomulags. Menn eru tengdir nánum böndum en talast þó ekki við jafnvel svo árum skipti. Hvað nákvæmlega veldur hverju sinni vita fáir eða engir, það er eitthvað gamalt og eitthvað nýtt, eitthvað frá fyrri kynslóðum eða eitthvað vegna þeirra seinni. Ég er líka alltaf að komast að einhverju nýju, eitthvað sem bætir nýju púsli í heildarmyndina en ég veit líka að ég á aldrei eftir að vita alla söguna.

En nú ætla ég að hætta þessari dramatík hér. Það var umfram allt gaman að hitta allt þetta lið núna um helgina, suma hafði ég ekki séð í einhver 10 ár. Ég hegðaði mér líka með eindæmum vel, var góða barnið og lék bílstjóra.

"Kláraði" annars theory kaflann í dag. Á morgun hefst ég handa við problem formulation. Þarf líka að fara panta far til Danmerkurinnar.

sunnudagur, maí 22, 2005

Fínni helgi að verða lokið. Hef dvalið í góðu yfirlæti hjá systur minni, mági og Tanusnum auðvitað. Í gærkvöldi var kíkt aðeins á djammið, hef ekki gert það síðan í Danmörkunni. Það rifjaðist vel og vandlega upp hvað ölið er dýrt á Íslandi. Lítið var því um þynnku í morgun sökum nísku og nirfilsháttar míns. En þetta var fínt þó ég hafi á stundum fundið svoldið til hins ört hækkandi aldurs míns.
Á morgun fer ég síðan heim en stoppa stutt því leiðin liggur svo suður á miðvikudaginn.

Hver leiðrétti mig í sambandi við Hulle Hubba lagið góða???

laugardagur, maí 21, 2005

Ég hef aldrei verið sérstakur Júróvisjónaðdáandi. Sérstaklega fór áhuginn niður úr öllu valdi á unglingsárunum svona 1990-1995. Nokkur móment úr keppninni eru mér þó minnistæð. Fyrsta keppnin sem ég man eftir var árið 1985, árið áður en Gleðibankinn tók þátt. Þá var ég að verða sjö ára skvísa og eldheitur aðdáandi ""Bobbysocks" frá Noregi. Þær voru æðislegar, í búningum í skærum litum, hárið spreyjað upp í loft skv. nýjustu tísku og svo var lagið bara frábært. La det svinga hét það (er ekki alveg viss á stafsetningunni)afskaplega hresst lag á norsku með afar grípandi viðlagi. Ég held að júróvisjón áhugi minn hafi aldrei aftur komist í slíkar hæðir og þarna árið '85.

Árið eftir ef ég man rétt, vann hún Sandra Kim frá Belgíu með lag á frönsku. Hún Sandra var held ég bara 14-15 ára og hún var í bleikum "jakkafötum" sem íslenski kynnirinn sagði örugglega að hún hefði fengið á tombólu. Næstu áramót var ég svo dressuð upp í svipuð "jakkaföt", afskaplega gul á lit, sem mamma saumaði. Ég var alsæl og ekki skemmdi fyrir að Heiðrún frænka átti svona blá "jakkaföt" sem tryggði það að þetta væri örugglega í tísku. Sandra Kim var duldið svöl.

Svo man ég eftir einu lagi einhvern tímann fljótlega eftir þetta sem vakti sérlega hrifningu hjá mér. Þetta voru tveir kallar sem sungu afar skemmtilegt lag eða "hubba-hulle lagið". Viðlagið var eitthvað á þessa leið "hubba-hubba-hubba-hulle-hubba-hubba-hubba-hulle-hubbe-hulle-hulle-hubb-ba-ba..." bara æðislegt. Ég held að þeir hafi verið frá Belgíu eins og Sandra.

Síðan þetta hefur leiðin bara legið niður á við.

föstudagur, maí 20, 2005

"Hrútar eru vondar kindur". Svona skilgreindi Tanja systurdóttir mín hrút núna áðan. Hún er að fara í sveitaferð með leikskólanum á morgun. Betra að vera vel undirbúin, vita hvað ber að varast.

fimmtudagur, maí 19, 2005

Hvur þremillinn... Selma úti og hinn slóvenski Ómar líka. Held bara með Norge á laugardagskvöldið og kannski hvað sem hann heitir frá Danmörku. Er reyndar ekkert voðalega hrifin af þessum fjónska kennara. En það er þó bót í máli að írski óskapnaðurinn komst ekki áfram.
Eurovision í ár er einkennist af miklum búiningum og trommum og trumbuleikurnum hvers konar. Ég held með Slóveníu. Hann Ómar er einn á sviðinu, syngur á móðurmálinu og lagið er svo alveg ágætt. Jamm, nú krossar maður bara fingur fyrir honum Ómari... og Selmu auðvitað... og ekki má gleyma glysrokkurunum frá Norge.

Og eitt, skrifaði víst Blönduós vitlaust í síðastu færslu. Biðst forláts Blönduósingar nær og fjær.
Er ekki alveg að nenna þessu í dag. Er búin að skrifa 13 bls. af púra kenningum núna síðustu vikuna og á bara smá eftir. Er farin að sjá að ég klára þetta alveg í tíma. Bauðst til að passa Ingólf eftir hádegi og svo þarf ég að fara með pabba inn á Blöndós með bílana í skoðun. Seinni partinn er stefnt á að bruna til Akureyrensis.

Já, og það býr víst norsk kona í elliíbúðunum sem skýrir norksa fánann í fyrra dag. Finnst það alltaf jafn sérstakt þegar fólk flytur hingað í ellini í þessar íbúðir eða á elliheimilið. Hefur kannski aldrei komið hingað áður. Það væri eins og ég flyti á Patrekesfjörð í ellinni vegna þess að fyrrverandi maður tengdadóttur systurdóttur minnar ætti heima þar eða eitthvað álíka.

Verð að fara að fara á Patró.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Í dag fagna allir góðir menn því í dag er 17. maí þjóðhátíðardagur Norðmanna. Ekki nóg með það heldur fagna þeir líka í ár að 100 ár eru liðin frá því að þeir fengu sjálfstæði frá Svíum. En þeir voru undir Svíum í rúm 90 ár sem fengu þá frá Dönum árið 1814 sem vinning í einhverju stríði. Svíar hljóta að dauðsjá eftir því að hafa látið þá frá sér, öll olían og það. Sá að norskum fána var flaggað á einum stað í bænum í morgun ekki veit ég hverju það sætir.

sunnudagur, maí 15, 2005

Er búin með dagskammtinn, er byrjuð að skrifa og dagskammturinn er settur á þrjár síður. Vaknaði rúmlega átta í morgun og gat ómögulega sofnað aftur, varð bara að fara niður í námstofu. Kúgaðist svo á leiðinni niður eftir. Jamms, skriftar og verkefnis heilkennið er ekki bundið við Danmörku.
Annars er svoldið skondið hvað vatnsdrykkja mín eykst alltaf gífurlega við skriftir. Þetta tengist þó ekki þorsta mikið eða hollustu. Aðalástæðan er sú að "vatnspása" er alltaf góð afsökun fyrir pásu frá skriftum. Hvort sem það er til þess að fá sér vatn eða losa sig við það.

Ég er farin heim.

föstudagur, maí 13, 2005

Sit hér á nýju "skrifstofunni" minni. Hef semsagt fengið sér herbergi í námsstofunni hér á ströndinni. Hér hef ég fína aðstöðu, stórt skrifborð, góðan stól og þráðlaust net. Þetta virðist þegar hafa haft jákvæð áhrif, sit hér sem fastast kl. hálf sex á föstudegi og ætla að halda áfram eftir þessa pásu. Jamm, þetta verður vinnuhelgi mikil, verð að fara að koma þessu á blað áður en kenningarnar taka að flæða út úr hausnum á mér.

Birna og Tanja fóru heim í gær, Tanja eftir vikudvöl. Alveg merkilegt hvað ég sakna hennar alltaf þegar hún fer þó hún geti oft verið erfið eins og öll börn. Þetta sannfærir mig um það að einn góðan veðurdag fari sú löngun að eignast börn að láta á sér kræla.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Hum, hver kallar mig ræfil á opinberum vettvangi? Ég bara spyr. Það eru náttúrulega bara aumingjar og dusilmenni sem skrifa ekki nafn sitt undir svona yfirlýsingar.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Allt og ekkert að gerast. Stefni hraðbyri í stresskast, hef alltof mikið að gera einhvern veginn annað enn að læra. En stressið rekur mann til þess að taka sig taki. Semsagt allt í góðum gír. Eitt skyggir þó á, fékk slæmar fréttir frá vinum mínum í Danmörku en miðað við síðustu fréttir horfir það til betri vegar.
Jæja, verð að fara. Það er smá rúntur með Birnu systur.