föstudagur, janúar 30, 2004

Þessa síðustu færslu tek ég til mín :) Merkilegt að símtölin hafa ekkert styst, þeim hefur bara fækkað aðeins. Ég held að Ameríku reisa sé bara möst á nýju ári þrátt fyrir hið eilífa peningaleysi.
Afskaplega lítið að gerast núna, aðallega legið í leti. En það fer nú að breytast því það styttist óðum í Danmörkuna. Þetta er allt annað en í tvö síðustu skipti því nú er ég hvorki að fara út í óvissuna né í hræðilegt munnlegt próf. Í þetta skipti er ég bara að fara til Danmerkur í skólann, aftur inn í daglegu rútínuna. Og það er svo margt sem ég ætla að gera strax í fyrstu vikunni. Til dæmis ætla ég að skrá mig á dönskunámskeið hjá kommúnunni. Annars verður mun minni íslenska töluð en á síðustu önn því núna verð ég eftir þvís sem ég best veit eini Íslendingurinn í kúrsunum.

sunnudagur, janúar 25, 2004

Fór í skírn í gær í snjókomu og skafrenningi. Athöfnin og veislan á eftir voru sérstaklega ánægjuleg ekki síst vegna þess að foreldrarnir ákváðu að gifta sig bara líka öllum að óvörum. Ekki einu sinni foreldrar þeirra vissu um þetta. Presturinn var mjög fínn, gerði þetta persónulegt og blandaði smá húmor í hátíðleikann. Svo söng uppáhalds idol-stjarna brúðarinnar, Ardís Ólöf, tvö lög. Annað var eitthvað svona sæt giftingar ástarlag sem ég man ekki hvernig var og svo var hitt í tilefni skírnarinnar þitt fyrsta bros sem mig minnir að Pálmi Gunnars hafi sungið. Þetta var allt bara mjög fallegt og ég táraðist auðvitað eins og mín er von og vísa.

En að öðru og mun heimskulegra. Það er alveg ótrúlegt hvað sumir eru með ljót nef. Ég var að horfa eitthvað á sjónvarpið áðan og sá þá þetta ofboðslega ljóta nef á annars alveg myndarlegum dreng. Kannski er ég bara farin að taka meira eftir nefum en áður.

föstudagur, janúar 23, 2004

cara
You're a Caramel!! You are known for your
sweetness. You are comfortable with yourself,
and help others feel the same way about
themselves. You are generally friendly to
everyone, and believe in second chances.


Which kind of candy are you?
brought to you by Quizilla
Annars er merkisdagur í dag, 25 ár síðan ég var skírð held ég. Man þetta ekki svo vel.
Datt kylliflöt á bakið á skaflinum hérna fyrir utan húsið í dag. Skaflinn var orðinn ansi háll enda búinn að þiðna og frjósa til skiptis. Þetta var bara dropinn sem fyllti mælinn því allir heimilismenn hafa verið að blóta skaflinum hála í sand og ösku. Það er því svo komið að Gummi frændi er að brjótast í gegnum skaflinn á gröfunni þótt það sé spáð smá gusu á morgun. Við verðum bara að vona að allt fyllist ekki aftur allavega var þetta ekki hægt lengur.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Mamma mín elskuleg á afmæli í dag, er 53 ára kerlingin. Annars gengur lífið bara sinn vanagang, sjónvarpsgláp og svefn. Er alveg að fara að byrja á CV-inu mínu sem ég þarf að gera til þess að geta sótt um internship fyrir næsta haust.

Druslaðist þó á lappir úr sófanum og fór í klukkutíma gönguferð með Tönju. Komst að því að tveggja og hálfs árs gömul börn eiga ekkert sérlega auðvelt með að fóta sig í hálku. Hún er líka að verða sannur dreifari í sjávarbyggð, tjáði mér að hún hefði keypt bátinn á rólónum á þúsund kall og hún ætti hann sko alein. Það hefur greinilega engin kvóti fylgt með þessum bát.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Helvíti er hrært skyr með mjólk og smá rjómaslettu gott. Var búin að sannfæra mig um að rjóminn væri algjör óþarfi en það er nú öðru nær.
Dreymdi ferlega asnalegan draum í nótt. Ég var að leita mér að vinnu hér á ströndinni og það eina sem mér bauðst var vinna í sláturhúsi (það er reyndar ekkert sláturhús hér og hefur ekki verið í minni tíð). Þar var viðbjóðsleg lykt og vinnuaðstaðan og vinnan sjálf var viðurstyggileg, sjálfsagt yrði þessu sláturhúsi lokað í snarhasti af hollustuvernd væri það til í veruleikanum. En allavega ég gat ekki hugsað mér að vinna þarna og neitaði boðinu. Ég var með hálfgert samviskubit yfir því samt, það væri komið eitthvert fjandans menntasnobb í mig. Ég ætti nú að geta unnið hvaða vinnu sem væri þrátt fyrir 4 ára háskólanám.
Fyrir hverju ætli þetta sé? Að ég óttist það að fá enga vinnu eftir þetta nám? Ég verð víst að leita mér að alvöru vinnu þarnæsta sumar þar sem ég er búin að sverja þess dýran eið að fara ekki í meira nám strax. Ekki meira flakk í bili takk fyrir. Mig langar í mína eigin veggi og veggir eru dýrir. Þetta getur líka einfaldlega haft eitthvað með það að gera að ég veit ekkert hvað ég ætla að vinna við eða gera í sumar.

Fórum áðan heim til Guðnýjar og Halla og ég fékk að halda á nýjasta fjölskyldumeðliminum. Ótrúlegt hvað maður er óöruggur að halda á svona litlum krílum. Þetta var bara eins og þegar ég gerði það fyrst þótt að ég hafi haldið á þeim ófáum og passað á síðustu árum. En allavega, hann er alveg ljómandi vel heppnaður í alla staði og var bara nokkuð sáttur við mig. Það verður spennandi að sjá hvaða nafn honum verður gefið á laugardaginn kemur. Nú sameinast öll fjölskyldan á bæn til almættisins því það spáir norðan átt og snjókomu á laugardaginn og ekki veit það á gott. En við vonum bara það besta.

þriðjudagur, janúar 20, 2004

Gröfumaðurinn er bara mættur aftur á svæðið. Ég held bara að þetta sé að verða að þráhyggju hjá honum. Skal takast að moka þessa fjandans götu. Vona bara að kappið verði ekki of mikið svo að hann valti ekki yfir bílinn hans Himma nágranna míns sem enn er að hálfu undir snjó. Reyndar er þetta drusla sem ætti best heima á haugunum.
Skagstrendingar virðast vera mokstursóðir því í dag var hafist handa við það að ryðja götuna mína. Jarðýtan er búin að vera hérna fyrir utan í svona 3-4 tíma og er ekki enn búin að ná niður á götuna hérna fyrir framan húsið en tekið skal fram að húsið er það fyrsta þegar komið er upp götuna. Mér sýnist ýtukarlinn nú vera bara farinn núna og skilur eftir sig nýjar og fallegar snjóhæðir.

mánudagur, janúar 19, 2004

Komin heim í snjóakistuna. Það er rosalegt að sjá þetta, þorpið er gjörsamlega á kafi. Fólk er að fullu að moka sig út og bílarnir koma undan snjónum í ansi misjöfnu ásigkomulagi. Ég labbaði héna um áðan og tók myndir af ósköpunum og fór m.a. upp á þak en það er hægt að ganga beint upp á það.
Ég eyddi helginni í Reykjavíkinni hjá Hildi og Friðriki. Það var mjög fínt, kíkt í Kringluna og Smárann, fékk svakalega góðan mat og svo var aðeins kíkt á djammið.
Núna er planið að fara og horfa á hina sívinsælu Stubba og skipta um bleyju á Pó því Tanja segir hann hafa kúkað á sig.

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Ástand heima þykir mér. Tveir bátar sokknir í höfninni og enn verið að reyna að bjarga öðrum tveimur. Eins og mamma sagði hún man varla eftir því verra veðri þarna. Úffff
Þá er prófið loksins prófið búið. Ég er ánægð með einkunnina sem verkefnið fékk, hærri en ég bjóst við en ekki eins ánægð með eigin frammistöðu. Framsagan mín var alls ekki nógu góð svo að ég fékk lægri einkunn en verkefnið almennt. Vissi ekki að þessi fimm mínútna framsaga hefði svona mikið að segja í heildarniðurstöðuna. En svona er það bara að vera í nýjum skóla í nýju námi. En jæja ég náði þó og meðaleinkunnin mín er fín og ég hef lært meira á þessari önn hér heldur en í öllu háskólanáminu heima held ég bara. Maður hefur afskaplega gott að því að koma í nýtt umhverfi og þurfa að takast á við það að gera hlutina öðruvísi en áður. Núna á eftir er ég að fara og borða með hópnum mínum sáluga og svo verður fengið sér bjór. Svo er það bara lestin til Köben og á morgun flýg ég heim.

þriðjudagur, janúar 13, 2004

Jæja það er komið í lag.
Af hverju lætur bloggið svona??? Who cares.
Ástand á mér og mínum þykir mér. Prófið mikla er á morgun, tveggja klukkutíma vörn fyrir verkefnið kl. 12 á morgun. Ég er reyndar ekkert voðalega stressuð þannig, ég held að það sé bara búið. Er búin að gera allt sem ég get gert og núna er bara að reyna að standa sig á morgun.

Heima á Skagaströnd er brjálað veður og þá meina ég brjálað. Ekki hundi út sigandi þannig að þau hafa öll setið heima í dag. Það verður semsagt snjór heima þegar ég kem aftur. Langt síðan ég hef séð skafla sem ná upp á þak á húsinu heima.

laugardagur, janúar 10, 2004

Þreyta og stress. Takk Bergþóra, fjarlægðin skiptir engu máli hjá bestu vinum.

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Jæja þá fer Danmerkurreisan að bresta á, fer suður á morgun. Þessi jól eru búin að vera alveg ægileg, lengsta jólafrí fyrr og síðar og í raun er það ekki búið því ég kem aftur heim. Ég er búin að éta og sofa viðurstyggilega mikið, ég held ég sé bráðum að verða búin að ná á mig öllum kílóunum sem ég missti úti vegna stress og minnkaðrar kókneyslu. Það er sérdeilis ánægjulegt eða þannig. Mér hefur líka tekist að fá ógeð á stubbunum sem njóta mikilla vinsælda hér á bæ og um daginn fór ég í sjoppuna á náttbuxunum. Í raun getur þetta ekki gengið svona mikið lengur

mánudagur, janúar 05, 2004

Lítið um blogg enda gerist ekki mikið þegar maður liggur bara í leti heilu dagana. Reyndar er Danmerkurferðin farin að nálgast ískyggilega og er ég farin að kvíða aðeins fyrir. Þetta verður engin skemmtireisa, rúta suður, rúta í Leifsstöð um miðja nótt, flug til Köben og svo lest til Álaborgar. Á miðvikudaginn eftir viku er svo vörnin sem ég hlakka ekki beinlínis til. En þegar það verður búið liggur leiðin heim aftur, ég verð bara tæpa viku í Danmörku. Aðra helgi á svo að skemmta sér á gömlum vígstöðvum í borg óttans.