miðvikudagur, júní 28, 2006

Lítið um blogg þessa dagana enda sumarið loksins komið. Fínt veður síðustu daga og í daga er sól og rjómablíða. Ég er nú bara í hálfgerðu sumarfríi finnst mér, er í þægilegri innivinnu hérna í bankanum, byrja að vinna kl. 9, fæ klukkutíma í mat og er yfirleitt komin heim fyrir kl. 17. Svo eru líka peningar einfaldari en unglingar svo ég þarf ekkert að hugsa um vinnuna eftir að ég kem heim á kvöldin. Afskaplega ljúft semsagt.

Næstu helgi er svo stefnan að fara á landsmót hestamanna á Vindheimamelum, já ég sagði hestamannamót. Svona er maður nú orðin sveitalegur. Verð á vakt fyrir slysavarnafélagið á sunnudeginum en á laugardagskvöldinu er ætlunin að vera óbreyttur mótsgestur. Birna og Sindri ætla og systir mín tjáði mér að þetta væri afskaplega skemmtileg samkunda og maður þyrfti engan áhuga að hafa á hestum til að fara. Sem er eins gott því ég hef takmarkaðan áhuga á hestum sem og öðrum ferfætlingum.

Ég ætla í sólbað eftir vinnu.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Hið ljúfa líf ræður ríkjum í dag. Ég svaf út í morgun og plön dagsins felast í því að hefja kynni við nýja, fína Ipodinn minn frá Ameríkunni og klára hina stórkostlegu bók Draumalandið eftir Andra Snæ sem ég keypti í fríhöfninni á leiðinni út. Las 170 fyrstu blaðsíðurnar í fluginu á leiðinni út en lítill tími gafst til lesturs í Ameríkunni. Segi kannski meira þegar ég hef lokið lestrinum.

Semsagt með ljúfari dögum.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Síðasti dagurinn í skólanum í dag. Skrifborðið mitt er loks orðið tómt og bara smá tölvudútl eftir. Hinum stutta og snarpa kennsluferli mínum er næstum lokið.

Boston var ágæt. Við heimsóttum nokkra skóla sem var mjög áhugavert og ég verslaði þónokkuð, mikið á minn mælikvarða en lítið á mælikvarða flestra ferðafélaga minna. Veðrið hefði mátt vera betra, sólin skein bara einn dag en hina dagana rigndi þótt droparnir væru misstórir og mismargir. En þetta var fínt.

Greinilegt að sumarið kom þessa viku sem ég var úti í Boston. Gras og tré orðin eiginlega sjúklega græn allt í einu. Sé þetta líka á dagatalinu, er komin með einhver plön fyrir hverja einstu helgi fram til 20. júli. Maður er svo "bisí" á sumrin.

föstudagur, júní 02, 2006

Vitlaust að gera þessa dagana, er búin að vera heima eitt kvöld í vikunni. En það sér fyrir endann á þessu, skólaslit í dag, Boston á morgun. Hitti krakkana mína í umsjónarbekknum í gærkvöldi og við áttum notalega stund saman eins og sumir segja. Þau eru svo skemmtilega hreinskilin og opin.

En semsagt minn stutti kennaraferill hefur brátt runnið sitt skeið og við tekur enn styttri ferill sem bankastarfsmaður. Hvað tekur svo við á eftir að koma í ljós.