fimmtudagur, október 07, 2004

Ég hef tekið upp fornan sið hér í Norge, sjónvarpslaus fimmtudagskvöld. Ekki það að það sé ekki eitthvað í imbanum heldur virðast NRK 1 og 2 og allar hinar stöðvarnar hafa ákveðið að hafa alveg sérdeilis leiðinlega dagskrá eitt kvöld vikunnar. Svo skemmtilega vill til að þetta eru fimmtudagskvöld. Sem betur fer hef ég þroskast ögn á síðustu 20 árum eða svo þannig að þetta fer ekki eins mikið í taugarnar á mér og það gerði þá. Það skýrist líka af því að nú hef ég tölvu sem hægt er að nota sem nokkurs konar sjónvarp því ég fengi náttúrulega bara svakaleg fráhvarfseinkenni ef ég hyrfi alfarið frá skjánum eitt kvöld í viku. Kvöldinu hefur því verið varið í að vafra um netið og svo horfði ég á Silfrið síðan á sunnudaginn á netinu svo að ég horfði á sjónvarp án þess að horfa á sjónvarp, eða þannig.

Annars er ég meira inn í því sem er að gerast í pólitíkinni heima heldur en oftast þegar ég er stödd á landinu. Í vinnunni renni ég nefnilega í gegnum bæði moggann og fréttablaðið á hverjum morgni og hlusta á rás 2 meira og minna allan daginn, missi helst ekki af hádegisfréttum. Um daginn þegar kviknaði í á Blönduósi, sagði ég mömmu frá því að uppi væri sterkur grunur um íkveikju. Þetta vissi ég verandi út í Noregi en ekki hún heima á Ströndinni. Fréttagenin frá pabba og afa eru greinilega farin að láta á sér kræla. Bráðum verð ég sjálfsagt eins og pabbi farin að heimta að horfa á fréttirnar á bæði stöð 2 og ríkinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home