fimmtudagur, febrúar 27, 2003

Mér er hálf bumbult núna, nýbúin að troða mig út af vöflum. Ég hef aldrei verið hrifin af þeim en með bræddu suðusúkkulaði og rjóma er þetta algjört lostæti.
Sál mín er loksins heimt úr helju, Skítamórall er kominn aftur fram á sjónarsviðið.
Búin að vera í smá nostalgíufílingi í morgun. Fór inn á vef MA þar sem er margt að skoða. Skoðaði m.a. myndir frá Gamla skóla og Hólum. Gamli skóli hefur lítið breyst skv. venju en ég sá að búið er að mála í kvosinni á Hólum og bæta við listaverkum. Ég sá líka að það eru að mestu sömu kennarar við skólann og voru fyrir fimm árum síðan. Það verður skondið að koma þarna aftur á stúdentsafmælinu í vor.

miðvikudagur, febrúar 26, 2003

Greinilegt er að samsæri er gegn mér hér í vinnunni. Tvær skemmtanir eru í bígerð, partý hjá deildinni í mars og árshátið hjá fyrirtækinu öllu í apríl. Ég verð á næturvakt í bæði skiptin og ég er ekki á næturvakt nema 2-3 nætur í mánuði. Ég er greinilega hvorki vinsæl meðal starfsfélagana hér né innan fyrirtækisins yfirleitt. Grátur og gnístan tanna.

þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Í gærnótt horfði ég á myndina The Matrix. Ég hafði að vísu séð hana áður en tók hana sem gamla mynd. Oft er leiðinlegt að horfa á myndir aftur en það átti ekki við um þessa. Ég mundi að vísu sumt en það var ekkert verra, ég náði myndinni bara betur en ella. Ágæt tilbreyting frá hinum venjulegu auðgleymanlegu afþreyjingum, mynd sem lætur mann hugsa.
Ég var að lesa bloggið hennar Auðar áðan og þar minntist hún á brúðkaupið hennar Margrétar vinkonu sinnar sem verður næsta sumar að mér skilst. En ég kannast aðeins við Margréti frá því að ég var fyrir norðan í MA. Ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta hér eru viðbrögð mín þegar ég frétti af því að einhverjir sem ég kannast við ætli að gifta sig. Ég hugsa alltaf það sama: Í alvörunni, hvað er fólk að pæla, þau eru svo ung, afhverju ættu þau að gera þetta? o.s.frv. Svo kemur koma aðrar hugsanir: Þóra mín, það er ekki eins og fólkið sé ekki orðið fullorðið, það veit nú alveg hvað það er að gera, það er alveg eðlilegt að gifta sig um 25 ára aldurinn.
En þrátt fyrir allt get ég ekki varist þessum hugsunum, hvað er fólk að pæla? Og það virðist ekkert tengjast því hverjir eru að fara að ganga í það heilaga, það er alveg sama. Vandamálið hlýtur því að vera ég, mér finnst brúðkaup og hjónabönd á einhvern hátt ógnvekjandi. Kannski er þetta ekki óeðlilegt með tilliti til þess að ég hef aðeins verið viðstödd eitt brúðkaup um ævina og það var síðasta sumar. Og helstu fyrirmyndir mínar í lífinu, foreldrar mínir, hafa aldrei séð ástæðu til þess að gifta sig.
Þannig að ég gifti mig sjálfsagt seint, ef einhvern tímann. Eitthvað er það, kærasti, börn og sambúð eru hætt að valda miklum öndunarerfiðleikum en það er eitthvað við brúðkaup og/eða hjónaband sem gerir það. En gangi ykkur öllum, Margréti og öllum hinum, allt í haginn þegar þið takið stóra stökkið.

laugardagur, febrúar 22, 2003

Sökum þess hve lítið er að gera og mér var farið að leiðast verulega að spila vitlausa tölvuleiki, ákvað ég að skoða Íslendingabók aðeins nánar. Ég tók fyrir bekkina mína tvo þ.e. grunnskólabekkinn minn sem taldi lengst af um 18 manns og menntaskólabekkin gjéið en við vorum 15 í lok 4. bekkjar. Tilgangurinn var náttúrulega að finna þann sem skyldastur væri mér.

Ekki kom á óvart að bekkjarfélagar mínir úr grunnskóla eru almennt skyldari mér en bekkjarfélagarnir úr menntaskóla. En Húnvetningar eru mjög margir í bæði móður- og föðurættinni minni. Það voru því nokkrir bekkjarfélagar mínir úr grunnskóla sem eru skyldari mér en almennt gerist þ.e. nær en í 8. lið en sömu sögu er ekki að segja um menntaskólafélagana. Aðeins einn bekkjarfélagi minn er skyldari mér en "eðlilegt" er.

Sigurður nokkur Berndsen er mest skyldur mér af þeim sem voru með mér í bekk í grunnskóla. Hann og pabbi eru fjórmenningar, við erum komin af heiðurshjónunum Gísla Gíslasyni og Ingibjörgu Sigurðardóttur. Þetta kom mér lítið á óvart því ég hef alltaf vitað að værum slatti skyld. Við höfum líka eiginlega alltaf þekkst, ég bjó í Bankastræti 6 en hann í 9.

Ása Arnfríður er sú eina í gamla gjéinu sem getur mögulega talist eitthvað skyld mér. Ekki er það nú samt mikill skyldleiki, við erum sexmenningar. Skyldleikinn er í gegnum móðurfjölskyldur okkar nánar tiltekið þá bræður Jóhannes og Þorstein. Þeir voru synir hjónanna Þorsteins Magnússonar og Guðrúnar Helgadóttur sem bjuggu í S-Þingeyjasýslu.

Já, þar höfum við það. Þetta var nú svei mér áhugavert. En þetta stytti vaktina og nú eru bara um 10 mín eftir.
Ég er að fara í afmæli í kvöld til Ásu vinkonu. Þetta er stórafmæli, hún varð 25 ára í gær. Þess vegna þarf ég að stelast úr vinnunni í ríkið á eftir, það er náttúrulega ómögulegt að hafa ekki bokku með sér. Annars er ég ekki alveg að nenna, ég er í meira svona nammi+vidjó stuði heldur en teiti+áfengi stuði en ég læt mig hafa það.

föstudagur, febrúar 21, 2003

Var að gera mér grein fyrir þeirri staðreynd að Begga er í gufu með bjór í hendi en ég er í vinnunni að tala við misskemmtilegt fólk. Þessi staðreynd gerir mig enn fúlli en ég var áður yfir hlutskipti mínu og ekki var á það bætandi. Vinnuleiðinn er að hellast yfir mig af fullum þunga aftur eftir smá hvíld. En ég veit að ekki dugar að tuða því maður er víst sinnar eigin gæfu smiður. Ég ætla að smíða gæfu þegar líður á sumar.
Ég var veik á mánudag og þriðjudag en það er í annað skipti sem ég verð veik á þessu ári. Það er fáranlegt þar sem ég verð aldrei veik eða varð aldrei veik. Þyrfti sjálfsagt að fá mér einhver vítamín eða eitthvað. Eftir síðustu pest er ég líka hálfhrædd við mat. Ég fékk nefnilega þá verstu magapest sem ég hef nokkurn tímann fengið á ævinni, ég lá inni á klósetti bróðurpart nætur. Svo nú met ég það afar mikils að líða vel í maganum og geri sem allra minnst til þess að storka þvi.
Það er gjörsamlega óþolandi færð úti!!! Ég labbaði í vinnuna og varð blaut í fæturna. Og notabene þá var ég ekki í einhverjum fáranlegum skóm heldur bara venjulegum flatbotna. Blauta, ógeðslega Reykjavík fær mínus í kladdann.

sunnudagur, febrúar 16, 2003

Ég horfði eins og svo margir aðrir á júróvísjón í gærkvöldi. Mér finnst þetta framtak hjá sjónvarpinu ágætt, poppa þetta aðeins upp. Það er svo spurning hvort ekki hefði verið nóg að hafa þetta 10 lög eins og í gamla daga, mér fannst keppnin í það lengsta. Nánast óþarft er að minnast á þá félaga Gísla Martein og Loga, afspyrnuleiðinlegt par. Og þeir virtust á stundum vera par, voru stundum að klappa hverjum öðrum á lærið. Það eina sem náði aðeins að kitla hláturtaugarnar var þegar þeir fóru í gömlu búningana.

Að lokum vann svo auðvitað púskurinn, a.k.a. Birgitta Haukdal, bjóst einhver í alvöru við öðru? Ég er viss um að 90% atkvæðanna sem hún fékk komu frá frelsisnúmerum og á næstu dögum á hluti þessara frelsiseigenda eftir að hringja og kvarta yfir því að 300 kall hafi bara "horfið" allt í einu út af númerinu.

fimmtudagur, febrúar 13, 2003

Alltaf hressandi í lok vinnuviku að taka eitt rifrildi eða svo. Var bara að ljúka einu 12 mínútna um innanhúsloftnetslagnir. Það verður þá bara enn skemmtilegra að fara heim.
Ég verð í fríi á morgun og á laugardaginn. Á morgun ætla ég að heimsækja góðan vin og láta smyrja bílinn minn loksins. Á laugardaginn stefni ég á það að fara í mat til afa og ömmu. Ég verð að fara að drífa mig til þeirra, amma er búin að hringja x2 til ítrekunar. Róleg og þægileg helgi.
Ég er orðin fullorðin. Vandamál mín og minna eru ekki öll léttvæg og auðleysanleg. Lífið er bara stundum ekki sanngjarnt við fólk sem á það fyllilega skilið.

miðvikudagur, febrúar 12, 2003

Ég gerði ljótt áðan. Ekki þó skemmtilega ljótt heldur bara ljótt. Ég fékk mér kók og langloku og er núna í kók og fitu sjokki. Ekki það að ég sé svo hollustuóð en ég er aðeins að reyna að bæta mig. Þegar maður hefur ekki drukkið kók í nokkra daga þá verður maður alltaf hissa hversu ógeðslega sætur þessi drykkur er. Svo...ég verð að fara að hreyfa mig meira.

þriðjudagur, febrúar 11, 2003

Fuglar syngja og sól er í heiði. Þetta er ekki lýsing á veðrinu í dag heldur andlegri líðan minni. Ég vaknaði meira að segja "snemma" í morgun ekki á síðustu stundu eins og venjulega. Þess vegna hafði ég nógan tíma til þess að fara í sturtu, lesa blaðið, labba í vinnuna og hafði samt nógan tíma til þess að fá mér morgunmat þegar í vinnuna var komið. Ég spjallaði líka duldið við annan sambýling minn í morgunsárið sem frétt til næsta bæjar eins og þeir sem þekkja mig vita. Venjulega er ég ekki samræðuhæf fyrsta klukkutímann eftir að ég vakna. Mikið er allt indælt.

mánudagur, febrúar 10, 2003

Ég held að Davíð hafi ekki verið svona vel klipptur árum saman. Hann reyndar að verða dálítið grár. Verst hvað maður sér mikið af eyrunum á honum núna.
Dagurinn verður sífellt bjartari. Var að komast að því að ég á um 10 auka sumarfrísdaga. Þannig að ég er að sjálfsögðu farin að plana hin ýmsu frí áður en kemur að hinu eiginlega sumarfríi í ágúst. Þvílíkur lúxus.
Stelpan í Íslandi í bítið er alveg skemmtilega leiðinleg.
Lífið lítur mun betur út í dag, mánudegi, en í gær á sunnudegi. Góður nætursvefn gerir nefnilega gæfumuninn en ég rumskaði ekki fyrr en klukkan hringdi um 9 leytið. Rokið virðist hafa góð áhrif á mig, minnir mig á heimaslóðir. Asnalegt samt að roki fylgi rigning í stað snjókomu.

sunnudagur, febrúar 09, 2003

Nei annars, þetta er hátindurinn. Ég er loksins að fara heim.
Hátindur dagsins, Newcastle jafnaði gegn Arsenal.
David Beckham er kominn með duldið mikinn lubba.
Stefnir allt í erfiðan sunnudag. Ég er lítt sofin því þrátt fyrir fögur fyrirheit um að sofa vel og vandlega í gærnótt. En þegar ég kom heim fór ég að horfa á vídjó síðan fóru djammararnir að týnast heim rúmlega 4 og þeir verða seint þekktir fyrir að vera hljóðlátir. Á endanum svaf ég með fjandans eyrnatappana. Reyndar var myndin sem ég horfði á ekki svo slæm. Suddenly naked held ég að hún hafið heitið og fjallaði um fertuga konu sem verður ástfangin af tvítugum strák. Ekki skemmdi fyrir að leikstjórinn er kanadískur en ekki kanskur. Allavega myndin kom mér í gott skap.

laugardagur, febrúar 08, 2003

Hið árlega þorrablót heimilisins var haldið í gærkvöldi. Það var reyndar óvenju fámennt en mjög góðmennt. Þegar búið var að úða í sig gömlum skemmdum mat fórum við á djammið. Það tókst vel og ég hitti margt skemmtilegt fólk, þangað til alveg í blálokin þegar jakkanum mínum var stolið. Mikið svakalega varð ég pirruð. Leiðinlega óheiðarlega fólk. Þegar heim var komið um 5 leytið fékk ég mér svo aukaskammt af harðfisk og hákarli og fór síðan að sofa. Nema ég sofnaði ekki. Í alvöru ég sofnaði eeeekki og var vakandi þegar stelpurnar vöknuðu á hádegi. Eftir hádegi náði ég þó að sofna aðeins. Þetta var alveg fáranlegt og þar að auki skelfilega leiðinlegt. Svefnvenjur mínar eru að verða áhyggjuefni.

miðvikudagur, febrúar 05, 2003

Jæja þá er ég loksins komin á nokkuð eðlilegan tíma eftir góðan nætursvefn í nótt. Námskeiðið í gær var leiðinlegt skv. venju, isdn tengingar, hversu áhugavert getur það verið. Ég vissi líka mest af því sem kerlingin þuldi upp af glærunum á fyrri hluta námskeiðsins enda var ég með mesta starfsreynslu af nemendunum. Meira var reyndar að græða á karlinum á símstöðvadeild sem talaði svo. Hann kom líka með einn "hnytinn" brandara, notaði skammstöfunina VGS sem ég hafði aldrei séð áður. Skammstöfunin stóð svo fyrir "venjulegan gamlan síma" sagði hann grafalvarlegur. Ég vona allavega að þetta hafi verið brandari.

Ég er loksins búin að fá aðganginn minn að Íslendingabók og er búin að vera að dunda mér við það í kvöld að fletta fólki upp. Það virðist sem ég eigi ekki svo mörg skyldmenni. Allir eru skyldir mér í 7. eða 8. ættlið en það er víst erfitt að finna Íslendinga sem eru minna skyldir en það. Annars kemur bara upp error núna hjá þeim, ég er greinilega búin að fletta upp of mörgum.

Takk Auður. Það er gott að vera saknað.

þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Hef ekki verið í bloggstuði undanfarið enda lítið verið í vinnunni. Ég var veik alla síðustu viku, fékk leiðinda kvefpest með tilheyrandi hálsbólgu og hósta. Vinnan mín býður ekki upp á annað en að maður sé orðin sæmilega hraustur þegar mætt er aftur til vinnu. Það er ekki gott að brjótast út í hósta í miðju símtali eða sníta sér. Í þessu veikindum náði ég að komast á áður óþekkt stig, ég er orðin hundleið á sjónvarpi og vídjói.

Þegar maður er svona lengi frá vinnu er það óhjákvæmilegt að eitthvað hefur breyst þegar maður kemur aftur til starfa. Að þessu sinni voru breytingarnar nokkuð drastískar, búið að breyta vaktaplaninu og ég komin með nýjan vaktafélaga.
Þetta er þriðja næturvaktinn mín í röð og líka eins gott því ég er gjörsamlega búin að snúa sólarhringnum við. Oft hefur hann verið nokkuð á skjön en aldrei svona. Þegar ég fór að sofa í morgun (eða í gærmorgun þetta verður allt svoldið flókið) var ég ekkert sérstaklega þreytt enda sofið til 18 daginn áður. Ég sofnaði því ekki fyrr en um 10 og vaknaði um kl. 20. Strax eftir þessa vakt kl 9 þarf ég svo að fara á námskeið niðri í landsímahúsi til 12. Þannig að ég fer ekki að sofa fyrr en um kl. 13. Svo að á morgun (réttara sagt í dag þriðjudag) má ég bara sofa nokkra tíma því ég stefni að því að fara svo að sofa á venjulegum tíma um kvöldið.
Þetta er óttalegt tuð en það er ótrúlegt hvað þetta hefur mikil áhrif á mann. Dagsbirta er til dæmis skemmtilegt fyrirbrigði og líka að vita hvaða dagur er án þess að þurfa að hugsa sig virkilega um.

Aha fyrsta syrpan af Friends að byrja á Stöð 2. Nei ég er ekki orðin það leið á sjónvarpi. Best ég nái mér í teppi.