fimmtudagur, mars 31, 2005

Er komin á gamlar slóðir. Sit á þjóðarbókhlöðunni og mikil heimildaleit stendur fyrir dyrum. Er loksins búin að fá smá comment frá supernum, honum líst ekkert of illa á þetta hjá mér nema að ég ætli að vera hér heima. Segir það vera pirrandi og leiðinlegt að leiðbeina fólki sem er langt í burtu og ætlar víst að reyna að útvega mér nýjan super. Vitleysan virðist því engan endi ætla að taka. Ég reyni samt að fara að ráðum Hildar vinkonu og hætta að pirra mig á þessu. Áðan sendi ég honum mail þar sem ég sagði honum einfaldlega að ég ætlaði að vera hér út maí vegna þess að hér eru heimildirnar en svo kæmi ég til Danmerkurinnar í júní. Hvað kemur út úr því svo verður bara að koma í ljós.

Kom annars í borg óttans í gær og gisti í góðu yfirlæti hjá Hildi og hennar ektamanni. Veit ekki alveg hvað ég ætla að vera lengi, fer heim einhvern tímann í næstu viku. Nú er bara að koma sér í lestrargírinn.

sunnudagur, mars 27, 2005

Komin heim á ströndina. Ferðalagið gekk bara vel en var eins og venjulega ansi löng, vakti í næstum 40 tíma með smá dósi í vélinni. Fleiri voru þó vakandi þessa nótt og höfðu svo sannarlega engan tíma til þess að láta sér leiðast en Þóra frænka í Horsens eignaðist lítinn strák á miðvikudagsmorguninn.

Páskarnir hafa verið afskaplega ljúfir. Birna, Sindri og Tanja eru hérna og svo er ég náttúrulega búin að fá og sjá og klappa og knúsa tilvonandi guðsyni mínum svoldið. Annars hef ég bara verið mest í því að éta og sofa á milli þess sem maður spókar sig úti í góða veðrinu. Það er reyndar ekki 15 stiga hiti hérna eins og í Danmörkunni en alveg um 10 stiga hiti, sól og blankalogn sem er bara ásættanlegt og rúmlega það.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Allt orðið klárt. Tilbúin fyrir brottför, á bara eftir að pakka tölvunni og símanum. Mundi meira segja eftir því að taka skærin úr snyrtitöskunni svo ég lendi ekki aftur í því að vera stoppuð í vopnaleitinni.
Var að lesa að um fjórði hver Dani telur að kona sem er nauðgað beri oft á tíðum einhverja sök á því sjálf. Er of tælandi klædd eða eitthvað álíka. Þetta hlutfall er víst líka hærra meðal kvenna en karla. Það er náttúrulega bara eitthvað að, ótrúlegt að halda slíku fram. Málið er ósköp einfalt, ekkert afsakar þetta athæfi frekar en aðra alvarlega glæpi og allra síst eitthvað sem fórnarlamb glæpsins gerir eða gerir ekki. Ætli þetta sé ekki eitthvað svipað heima.
Búin að skúra og næstum allt komið ofan í tösku. Nú er bara að bíða...

mánudagur, mars 21, 2005

Einhver beygur í mér. Skrítið að vera að fara heim en vera bara svona la, la spennt yfir því. Held að það sé þetta langa ferðalag, sérstaklega lestarferðin og biðin á Kastrup. Ekki bætir það heldur að vera ein á ferð. En þetta er jú mitt val og það verður frábært að hitta alla heima. Málið er bara að ég er svo fjandi leiðinleg finnst mér þegar ég er búin að vaka í meira en sólarhring. Það er nú samt mikil bót í máli að Begga kemur og sækir mig í Keflavík. Hún og stubburinn koma nefnilega suður til að ná í pabbann sem einmitt kemur frá Ameríkunni eldsnemma á miðvikudagsmorgunn. Þessi elska ætlar staldra við eftir mér svo ég geti fengið far á ströndina.

Rétt drullaðist á bókasafnið í morgunn til að skila öllum bókunum sem ég var búin að sanka að mér. Fór ekki af stað fyrr en rúmlega 11 þegar ég var búin að fullvissa mig um að það væri engin leið til þess að fresta þessu til morgundagsins. Verst að það er ekki hægt að taka master í leti og ómennsku.

sunnudagur, mars 20, 2005

Jæja, ætli maður fari ekki að leggja sig. Er búin að blaðra mikið á msn og hlusta á hellings tónlist. Það er held ég alveg runnið af mér og komin þreyta í liðið. Ætla að slökkva á tölvunni og láta mér dreyma um ástina mína.
Meira ædol í kvöld. Fór síðan í götuna með Þórunni, Helga og Mikael. Allir voru svo þreyttir eða þurftu að vakna snemma í fyrramálið svo þetta var nú bara stutt. Var því komin heim fyrir hálf tvö. Ég hefði svosem alveg verið til í að vera lengur og þjóra meira enda svaf ég í nokkra tíma í dag en svona er þetta. Logan bjargar mér alveg á msn, er á næturvakt og hefur nógan tíma til þess að tala við mig.

Annars fylgja því ákaflega blendnar tilfinningar að vera að fara heim. Hlakka vissulega til en ég veit ekki. Svipað því og þegar ég var að fara frá Osló. Þetta er svo allt öðruvísi en í fyrra þegar ég gat ekki beðið eftir því að koma heim. Núna er ég ekki bara að fara heim til alls þess sem er þar heldur líka að yfirgefa allt sem er hér. Hef eignast til að mynda afskaplega góða vini hérna, vini fyrir lífstíð svei mér þá. Það er því með vilja sem ég held herberginu, það þýðir að ég þarf að koma aftur og tæma. Geri það örugglega í júní ásamt því að skólast aðeins. Er hálf sad bara eða eins og pabbi sagði alltaf: "ertu svoldið dom Þóra mín?"

laugardagur, mars 19, 2005

Er búin að kaupa miða heim i næstu viku. Fékk mail frá supernum og hann getur ekki hitt mig fyrr einhvern tímann eftir páska. Þannig að ég ætla bara að drífa mig heim og treysta á það hægt verði að gera þetta í gegnum netið og síma.

Fór í bæinn með Þórunni i gær, keypti ekki neitt nema hamborgara og einn öl í eftirmiðdaginn. Svo var ædol um kvöldið.

Vaknaði hálfsex í nótt eftir um þriggja tíma svefn við nágranna minn hann Sören. Í þetta skipti var hann þó ekki að gera ljótt enda kærastan farin til Litháen, heldur var einhvers konar eftirpartý í gangi. Engin voðaleg læti en nóg til að halda mér vakandi. Þegar hann og félagarnir fóru svo að horfa á einhvern danskan gamanþátt sem greinilega var mjög fyndinn gafst ég upp og brúkaði eyrnatappa það sem eftir var nætur. Mér finnst ekki gaman að sofa með tappa.

Jæja, best að hætt að þessu slóri, þarf að sinna skyldum mínum í eldhúsinu. Eldhúsvaktin er nefnilega mín þessa vikuna.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Undur og stórmerki, var að fá póst og er búin að fá super. Heiðurinn fær leiðbeinandinn minn síðustu tvær annir Poul Madsen. Já, og þetta tók þá virkilega einhverjar þrjár vikur allt í allt. Daninn lætur sko ekki að sér hæða. Ég sendi honum náttúrlega í snarhasti póst og óskaði eftir fundi en á ekki von á svari fyrr en á morgun. Madsen má eiga það að hann svarar póstum yfirleitt mjög skjótt en að sama skapi eru svör hans yfirleitt mjög þurr og stuttaraleg. En voandi fer þetta nú að ganga eitthvað.
Fékk borgað í dag frá LÍN loksins sem þýðir að ég get borgað leiguna um mánaðarmótin og auk þess kannski keypt mér eitthvað fallegt. Það er gott. Hef ekkert heyrt í þessum fúlu kennurum í skólanum mínum, sendi mail í dag til áréttingar enda komin næstum vika síðan ég minnti á mig síðast. Heimferð fyrir páska verður því æ óraunhæfari. Það er ekki eins gott.

Hef komist að því að þegar maður eldar eða yfirleitt kaupir inn bara fyrir eina manneskju verður maður eiginlega að hafa svona þema. Ef maður á mikið úrval af matvælum eyðileggst yfirleitt helmingurinn af þeim allavega. Ég hef því tekið upp á því að kaupa lítið í einu og borða það þangað til uppurið að mestu. Í síðustu viku var "kínverskur kjúklingur og hrísgrjón" þema og nú er eggja þema. Já í gær var aðalrétturinn eggjahræra með dönsku fleski, sveppum og papriku og í dag voru það spæld egg á glóðuðu brauði ásamt danskri skinku að sjálfsögðu. Uppistaðan í öðrum máltíðum dagsins er svo mest kornflex og hrökkbrauð sem skemmist nefnilega ekki svo glatt. Spurning hvað næsta þema verður? Búin með pasta þemað, "tilbúnar pizzur" þemað. Og ef heldur áfram sem horfir hvað ætti páska þemað að vera?

mánudagur, mars 14, 2005

Komin mánudagur eftir fína helgi. Djamm á föstudagskvöld, þynnka, einn bjór og pool á laugardagskvöld og bíltúr, kakó og pönnukökur, dinner og vídjógláp í gær. Allt þetta var gert í góðum félagsskap Þórunnar og Helga og stundum bættust fleiri skemmtilegir í hópinn. Það var annars sérdeilis gott að komast aðeins út úr borginni, í danska náttúru. Já, hún er til þrátt fyrir allt. Fórum í smá gönguferð í skógi með alvöru háum trjám og á gula, fallega en skítkalda strönd. Næs.

Er annars búin að komast að því, ef ég vissi það ekki fyrir, að það er hægt að horfa of mikið á sjónvarp.

Veit sem sagt enn ekki neitt. Þetta er náttúrulega bara eins og hin versta andlega pyntingaraðferð. Ég þarf að gera plön, að minnsta kosti ár fram í tímann....og nú veit ég ekki einu sinni í hvaða landi ég verð eftir næstu helgi.

Arrrrg....

föstudagur, mars 11, 2005

Smá ættfræði svona á föstudegi. Var að skoða föðurfjölskyldu mína, nánar til tekið systkini ömmu Þóru. Ég þekki það fólk sáralítið og ekki neitt miðað við Melapakkið allavega. Þau voru níu systkinin með ömmmu og foreldrar þeirra hétu Ágúst Frímann Jakobsson og Helga Jónsdóttir. Af þessum níu systkinum nefndu sjö þeirra börn sín eftir öðru þeirra eða báðum. Ágúst fékk semsagt fjóra Ágústa, þar af þrjá sem heita Ágúst Frímann og einn þeirra er alnafni hans. Helga gerir betur, fær sjö Helgur, þar af eina sem heitir Helga seinna nafni og tvær alnöfnur.
Hvað segir þetta mér? Það er í góðu lagi að nefna barn sitt eftir einhverjum jafnvel þótt það hafi verið gert ítrekað áður. Það er annars merkilegt eftir því sem aldurinn færist yfir hvað maður verður íhaldssamur og "leiðinlegur" í þessum efnum. Skítt með öll frumlegheit eða tískusveiflur, börnin mín munu fá nöfn sem hafa einhverja merkingu. Yrði ekki hissa ef enn einn Ágúst eða Helga eða eitthvað álíka liti dagsins ljós einhvern daginn. Einhvern tímann í mjög svo fjarlægri framtíð.

Jamm...það lítur annars út fyrir djamm í kvöld. Planið er að fá sér bjór og kíkja aðeins í götuna.

Eins gott að það komist einhver hreyfing á ritgerðina í næstu viku. Annars er ég vís með að fara að blogga jafnvel enn meira um enn tilgangslausari hluti.
Var algjörlega út á þekju áðan, tók vitlausan strætó. Tók 12-una í stað tvistsins sem þýddi það að ég varð bara að fara alla leið niður í bæ og taka tvistinn þar. Ég var því um 35 mín. alls í strætó í staðinn fyrir rétt um 5 mín.
Fór nefnilega í skólann til þess að fá útskrift af einkunnunum mínum fyrir lánasjóðinn því nú geta þeir loksins farið að borga mér. Orðin ágætlega blönk alveg enda ekki fengið greiðslu frá LÍN síðan í júní og ekki hafði ég heldur miklar tekjur í sumar. Dropaði líka við hjá Plashcke kallinum vegna ritgerðarinnar. Ég er á to-do listanum hans eða öllu heldur leiðbeinanda mál mín svo maður forðist nú allan misskilning. Hann meira að segja sýndi mér þennan fína lista þessu til staðfestingar. Svo ég verð bara að bíða róleg. Þolinmæði er víst dyggð. Er nú reyndar farin að efast um að ég komist heim á klakann fyrir páska. En það er ekki útséð með það og þá fer ég bara fljótlega eftir hátíðina.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Er að hlusta á nýja U2 diskinn í fyrsta skipti eða réttara sagt í fyrsta skipti edrú. Ágætis diskur heyrist mér eins og mig minnti. Þetta hljómaði ekki vel, það er eins og ég sé alltaf drukkin. Einhverra hluta vegna hlusta ég eiginlega bara á tónlist þegar ég kem heim vel hífuð, pissfull semsagt, úr bænum. Leggst upp í rúm með tölvuna og hlusta á eitthvað gott jafnvel í nokkra tíma. Þægilegt að sofna þannig finnst mér. Verra þegar maður fer að kjafta við einhvern á msn í þessu ástandi.
En ef út í það er farið þá hef ég ekki innbyrt jafn mikið magn áfengi á tveimur mánuðum síðan ég var svona ca. tvítug eða í einhver fimm ár. Þetta hefur reyndar verið mjög gaman fyrir utan kannski stöku mistök varðandi hitt kynið eða réttara sagt ein ákveðin mistök. En maður lærir bara af mistökum og ég hef alveg örugglega lært eitthvað í þetta skiptið.

Ætla að hætta þessu áður en ég verð alltof persónuleg. Skrítið annars hvað fólk og þar á meðal ég bloggar um misjafna hluti. Sumir virðast geta sagt allt en aðrir næstum ekki neitt. Allir halda samt einhverju eftir, það er bara misjafnt hvað það er. Ég tala ekki um stráka. Þetta hér að ofan er held ég það næsta sem ég hef komist því. Hins vegar get ég talað um margt annað sem er ekkert minna persónulegt eins og stress, kvíða og vanlíðan hvers konar. Skrítið.

mánudagur, mars 07, 2005

Einhver depurð í gangi í kvöld. Passar ekki alveg þar sem allt gekk vel í dag en svona er þetta nú stundum samt. Ákvað því að taka strætó niður í bæ, fór á Block Buster og tók myndina "Evigt solskin i et pletfrit sind" eller "Eternal sunshine of the spotless mind" på engelsk. Þetta er víst einhver óvenjuleg, dapurleg ástarsaga sem á einkar vel við sinnið mitt núna. En fyrst ætla ég að horfa á Lost á TV Danmark. Ég fer þá bara seint að sofa. Ég veit hvort eð er ekki hvað ég ætla að gera á morgun.
Vörnin búin og gekk bara vel. Eftir að ég fékk einkunnina talaði supervisorinn aðeins um masters verkefnið og ég fékk það svona á tilfinninguna að honum líki ekkert of vel við tillöguna mína. En þetta kemur allt saman í ljós þegar ég fæ endanlega super fyrir ritgerðina og hitti hann. Þá ætti það líka að skýrast hvenær ég fer heim, hvenær ég þarf að koma aftur o.s.frv. Semsagt allt voðalega óljóst núna en ætti að skýrast á allra næstu dögum.

Vonandi...

föstudagur, mars 04, 2005

Ohhhh, mér leiðist. Held bara að þetta séu fráhvarfseinkenni, hef farið eitthvað út eða gert allavega eitthvað skemmtilegt hverja helgi held ég síðan ég kom út hingað út. En þessi helgi er engin bjór, engin gleði bara lærdómur enda próf á mánudaginn. Það er ekki einu sinni neitt skemmtilegt í sjónvarpinu til þess að dreifa huganum. Sem minnir mig á að ég hef ekki tekið vidjó síðan ég var heima um jólin. Tók einu sinni vídjó meðan ég var í Norge og virðist ætla að slá það met. Ágætt reyndar, á þá eftir að sjá margar myndir þegar ég kem heim á ströndina og það er nú helsta afþreyingin þar. Allavega verður ekki mikið um djamm og bjórdrykkju þar er ég hrædd um.
Gvuuð, þessi bloggfærsla ber greinileg merki um meintan leiða. Best ég hætti þessu og snúi mér frekar að Temptation Island á TV Danmark og appelsínunni minni.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Er búin að vera að rifja upp í dag, lesa um EES, fisk, Noreg og landbúnað svo eitthvað sé nefnt. Las líka verkefnið einu sinni yfir. Virðist ekkert vera svo slæmt, sá engar hryllilegar, afgerandi villur. Helsti veikleikinn er örugglega sá að ég tala lítið um kenningar og mismunandi kenningalegar nálganir. En lítið við því svosem að gera núna.

Get nú svo ekki annað en að minnast á snillinginn hana systur mína. Er gjörsamlega brillera í lögfræðinni fyrir norðan, var að fá 9 í kúrsinum hjá Sigga Lín. Já, litla skoffínið getur sko lært, ekki það að ég hafi nokkurn tímann efast um það.

Matur í kvöld hjá Þórunni og Helga, þau bregðast ekki frekar en fyrri daginn. Gott að komast út úr húsi.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Dauði og djöfull, hvað er eiginlega málið með þetta veður??? Ég mótmæli harðlega. Hér hefur verið hvítt yfir í einhverjar tvær vikur og í dag er slydduógeð og stöku skafrenningur. Eins og þetta sé ekki nóg þá sýnist mér ég vera að fylgja í fótspor Þórunnar og sé að fá einhverja pest. En til að drukkna ekki alveg í neikvæðninni hérna þá las ég slatta í dag og er held ég komin með efni fyrir presentation. Það get ég þakkað Dóra og félugum í Framsókn sem héldu flokksþing sitt um síðustu helgi.