miðvikudagur, september 29, 2004

Notaði mér í fyrsta sinn í dag hið stórsniðuga fyrirbæri hér í borg, bysikkel. Osló borg hefur semsagt tekið upp á því að setja upp hjólastanda víðsvegar um borgina og með þar til gerðu korti getur maður tekið hjól úr einum þessa standa og notað í þrjá tíma. Fékk mér semsagt hjól í dag og hjólaði niður Karl Johan. Ég er reyndar ekki góð að hjóla meðal fjölda gangandi fólks þannig ég fór hægt en það kemur sjálfsagt með æfingunni. Hjólin eru reynar svoldið skondin, lítil dekk en hnakkurinn og stýrið eru hátt uppi, sjálfsagt gert svo fólk af öllum stærðum og gerðum geti notað hjólin góðu.

þriðjudagur, september 28, 2004

Biðst afskökunnar á síðustu færslu því þar er ákveðin rangfærsla. Ég meinti Olsen-gengið ekki Olsen bræðurnir. Hið danska Olsen-gengi voru þrír misheppnaðir þjófar en myndirnar um þá þóttu mjög fyndnir á mínu heimili. En hundar í óskilum eru náttúrulega betri en hinir dönsku Olsen-bræður.

laugardagur, september 25, 2004

Það er til norsk útgáfa af Olsen-bræðrum. Ekki eins skemmtilegir og mér fannst frumútgáfan á sínum tíma.

fimmtudagur, september 23, 2004

Meðleigjandi minn tók það upp hjá sjálfum sér að setja auglýsingu í sínu eigin nafni um mig á einhverskonar einkamal.is síðu hér í Norge. Hann fær svo viðbrögðin send til sín og hefur forwardað þeim á mig. Mér finnst þetta bara duldið spes þótt þetta sé náttúrulega vel meint. Jú, jú, ég vil alveg kynnast fleira fólki en það síðasta sem ég vill væri að eignast einhvern kærasta eða eitthvað þannig sem myndi bara flækja málin þegar ég fer heim í desember. Ég veit svosem að fólk notar svona þjónustu líka til þess að kynnast bara fólki almennt en samt... Hann sagði að það væri engin pressa því mér væri náttúrulega alveg í sjálfsvald sett hvort ég svaraði þeim eitthvað. Finnst þetta bara ekki vera alveg ég...

Annars er svaka gott veður, sól, logn og 16 stiga hiti. Ég og Hulda ætlum líklegast að kíkja í hina svokölluðu akersgöngu í kvöld. Það er einhver kvöldganga meðfram ánni hérna í Osló sem alltaf er farin á haustjafndægrum.

þriðjudagur, september 21, 2004

Allt að gerast greinilega í skandinavísku kóngafjölskyldunum, Alexandra að skilja við glaumgosann Jóakim Danaprins og Marta Lovísa Noregsprinsessa á von á öðru barni sínu. Annars ku Mette-Marit Noregsprinsessa, kona ríkisarfans, hafa orðið svo miður sín yfir þessum skilnaði að hún treysti sér ekki í eitthvað blátt brúðkaup á Spáni. Já, já, segiði svo að maður fylgist ekki með.

Annars er ég hálfómöguleg í dag sökum hælsæris. Gekk í vinnuna í nýju skónum mínum í morgun og heim aftur og vitaskuld er ég komin með blöðrur á hæla og einhverjar tær. Ég þoli ekki að klæðast nýjum skóm þótt vissulega sé gaman að kaupa þá. Ætla að byrgja mig upp af plástrum á morgun og reyna síðan kannski aftur við skónna á hinn daginn. Ég gefst ekki alveg strax upp á þeim.

mánudagur, september 20, 2004

Hver er það sem skírir/nefnir fellibyli? Ætli það sé einhver veðurfræðingur eða fræðingar þarna á svæðinu? Mér finnst að við ættum að fara að nefna náttúruhamfarir. Jarðskjálftinn Gísli eða Ásmundur til dæmis.

sunnudagur, september 19, 2004

Sá á blogginu hennar Auðar að Bjarkey er búin að eignast litla stúlku. Henni hefur legið greinilega aðeins á í heiminn. Svo átti Ásgeir litla stelpu líka núna fyrir stuttu. Kynjahlutfall g-barnanna er því næstum orðið jafnt en áður en þessar tvær telpur fæddust voru komnir þrír strákar. Til hamingju elskurnar.
Helgin að verða búin, guði sé lof eiginlega. Það er nefnilega takmarkað hversu mikið er hægt að horfa á sjónvarp. Og þar að auki er dagskráin ekkert sérstaklega góð. Fór þó í gær út í rigninguna og keypti mér regnhlíf og skó. Varð hreinlega að gera þetta því götuskórnir mínir eru eiginlega bara ónýtir. Þyrfti eiginlega líka að kaupa mér skó til þess að vera í vinnunni, geri það kannski um næstu helgi.
Í morgun fékk ég líka svo svakalega í magann, það var nú reyndar eiginlega hápunktur dagsins. Æi, þetta er hálf sorglegt. En ég kann þetta allavega núna. Í þetta skipti hætti ég ekki næstum að borða og missi svefn yfir því að vera ein í útlandinu. Þetta tekur bara sinn tíma.

fimmtudagur, september 16, 2004

Margt að sjá á Karl Johan í dag. Þarna var maður með svona keilur sem kveikt var að leika listir sínar, maður með strengjabrúðu og svo líka kona með strengjabrúðu. Og svo náttúrlega allir betlandi rónarnir, ég er farin að vita nokkurn veginn hvar má eiga von á þeim blessuðum.

Fór áðan í snemmbúinn dinner með Huldu og henni Guðrúnu sem er nýr yfirmaður mannréttindastofunnar heima. Afskaplega næs, skemmtilegt að tala við tvær svona powerkonur. Svo er helgin að koma. Er búin að vera að fresta því að þvo svo ég hafi allavega eitthvað að gera um helgina. Já, það er alltaf svoldið að sad að þekkja eiginlega engan í nýju landi.

miðvikudagur, september 15, 2004

Mér finnst gaman í vinnunni. Ég held ég hafi aldrei getað sagt þetta áður. Að vísu var oft ágætt hjá Símanum en maður gerði oft eitthvað leiðinlegt í sjálfri vinnunni. Hingað til hef ég ekki gert neitt sem mér finnst leiðinlegt í sendiráðinu. Ég hef meira segja verið lengur flesta dagana og ég sem er meira segja kauplaus. En þetta er líka hluti af náminu og þótt þetta sé vissulega vinnustaður finnst mér ég oft vera bara að læra. Eðlilega kannski.

Ég var skrítin áðan. Gekk niður Karl Johan og var ein af fáum sem ekki var með regnhlíf. Þarf að fara að fá mér regnhlíf. Rigndi helling í dag, heyrði meira að segja drunur í þrumu. Norsku Jannicke og þýsku Rebekku fannst skrítið að ég gæti virkilega talið þau skipti sem ég hefði heyrt í þrumu á fingrum annarrar handar. Ekki minnkaði undrunin þegar ég og Hulda kváðumst vera vanari jarðskjálftum en þrumum.

Norðmenn eru samgönguóðir. Það eru strætóar, sporgvagnar og neðanjarðarlestar í borginni. Ég hef reyndar ekki reynt neitt þessara samgöngutækja enn sem komið er þar sem sú stefna hefur verið tekin að ganga í vinnuna mér til ánægju og heilsubótar. Það hefur líka glatt mig að Norðmenn virðast ekki jafn múrsteinaóðir og frændur þeirra Danir. Húsin eru meira svona normal.

laugardagur, september 11, 2004

Búin að gera afskaplega lítið í dag nema liggja upp í rúmi og dorma. Fór reyndar aðeins út áðan og er nú búin að sjá báðar matvörubúðirnar í götunni. Það er allt til alls hérna. Ef ég þyrfti ekki að fara í vinnuna þá gæti ég bara verið hér í þessari litlu götu, Smalgangen. Hér er hægt að kaupa mat, bæði tilbúin og ekki, föt, snyrtivörur, barnavagna svo eitthvað sé nefnt og svo eru pöbar og vidjóleiga og þarf maður fleira í lífinu spyr ég.

Fréttirnar hér eru fullar af minningarathöfnum, annars vegar í US vegna þess að þrjú ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum og eitt ár frá því að Anna Lindh utanríkisráðherra Svía var drepin. Ætli það sé enn þannig að fólk hiki við að fljúga þennan dag? Ég myndi allavega ekki gera það.

Er að lesa hreint út frábæra bók sem ég keypti í fríhöfninni, Da Vinci lykilinn. Afskaplega spennandi bók sem vekur mann líka til umhugsunar. Birna systir var líka afar hrifin af henni síðasta vetur þegar hún var að lesa hana og nú skil ég hvers vegna. Ein af þessum bókum sem erfitt er að leggja frá sér.

Skrítið að það sé helgi og ég í útlandinu í námi og hafa ekkert að gera. Ég þarf ekkert að lesa heima eða neitt. Ég ætla reyndar að fara vera dugleg og lesa samt því ég þarf að gera verkefni í janúar sem á að tengjast því sem er að gera núna í internshipinu.

föstudagur, september 10, 2004

Fyrsti vinnudagurinn liðinn. Var bara mjög fínn myndi ég segja. Rosalega vel tekið á móti mér og svona. Ég á ábyggilega eftir að læra alveg fáranlega mikið á þessu. Sakna samt svoldið allra heima, langar að sýna þeim þetta allt hérna. Fæ virkilega mikla svona "útlandaborgartilfinningu" sem er alltaf dáldið gaman.

fimmtudagur, september 09, 2004

Arrrrrrg, þetta helvítis drasl virkar ekki sem skyldi. Fínn dagur í dag, göngutúr um Osló með Lisu kærastu Kamrans, skoðaði Munch á listasafninu og fengum okkur öl að lokum á barnum þar sem hún vinnur. Nenni ekki að reyna að skrifa aftur ef mér tekst ekki að birta þetta.
jasdjsdafjsadfjsd
Náði ekki að setja inn blogg í gær svo ég nennti ekki að skrifa fyrr en ég vissi að þetta virkaði. Lisa, kærasta meðleigjandans míns Kamrans, sýndi mér sentral Osló í dag. Við löbbuðum í vinnuna mína svo ég rati nú á morgun. Svo kíktum við aðeins á listasafnið þar sem ég sá meðal annars hin frægu verk Munchs en einhverjum eintökum af þeim var stolið um daginn. Eftir stoppuðum við á barnum þar sem hún vinnur og fengum okkur öl. Ölið er svosem ekki ódýrt en þó ekki alveg jafn dýrt og heima enda víst frekar ódýr bjór þarna víst. Norðmennirnir sem ég hef hitt hafa verið mjög næs. Þeir spyrja mikið um Íslandið og hafa að því virðist sérstaklega mikinn áhuga á álfatrú okkar. Svo Noregsvistin byrjar bara vel.
Jæja, virkar þetta núna?

miðvikudagur, september 08, 2004

Komin til Osló. Svaf ekkert í nótt svo ég er orðin viðbjóðslega þreytt og nenni ekki að skrifa neitt að viti.
Mætt í Osló. Nýji meðleigjandinn minn tók á móti mér á aðallestarstöðinni en íbúðin er bara rétt hjá henni. Mér líst bara ágætlega á þetta, íbúðin er á góðum stað í göngugötu þar sem mér sýnist vera þónokkuð líf. Mér líst líka ágætlega á meðleigjandann en hann er ættaður frá Pakistan. Virðist vera bara mjög almennilegur en hann er greinilega múhameðstrúar því hann bað mig um að nota ekki áhöldin hans í eldhúsinu ef ég væri að elda einhverskonar svínakjöt. Ætti að geta lifað við það held ég. Annars er ég ógeðslega þreytt því ég svaf ekki neitt í nótt og meina það bókstaflega. Sef oft lítið þegar ég veit ég þarf að vakna um miðja nótt aftur til að gera eitthvað. En allavega só far só gúd.
Komin til Osló. Hinn Pakistanættaði norski nýji meðleigjandi minn Kamran tók á móti mér á aðallestarstöðinni. Íbúðin er bara ágæt sýnist mér, alveg í miðbænum víst, á fjórðu hæð við göngugötu sem heitir Smalgangen. Maður fær svoldinn svona suðrænan fíling við að fara hérna út á svalir, fólk situr úti á svona litlum pöbum. En annars á ég reyndar eftir að skoða þetta betur. Er að verða alveg viðbjóðslega þreytt því ég svaf ekkert í nótt og ég meina það bókstaflega. Ég er því að verða búin að vaka um 30 tíma. Þess vegna tek ég því bara ósköp rólega í dag, fer tímanlega í rúmið og vakna síðan hress á morgun og fer að skoða mig eitthvað um.

mánudagur, september 06, 2004

Nú er að koma svoldið stress í kerlu. Á morgun fer ég suður og flýg svo út á miðvikudaginn og á föstudaginn byrja ég svo að vinna. Þetta verður erfitt en fjandakornið ekki eins og í fyrra því nú er maður í það minnsta reynslunni ríkari. En það er samt alltaf jafn erfitt að kveðja alla og ekki bætir það nú úr skák þegar maður er jafn mikil grenjuskjóða og ég. Svona er bara lífið.

Hver setti annars inn kommentið við síðustu færslu?

laugardagur, september 04, 2004

Það eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að gera að sjónvarpsefni. Í gær sáum við Begga þáttinn the Swan á hinni dönsku TV3. Þetta er einhverskonar fegurðarsamkeppni meðal hóps "ljótra" kvenna sem fara í fegrunaraðgerðir til þess að verða "fallegar". Að vísu æfa þær eitthvað og svona en aðalmálið eru hinar ýmsar fegrunaraðgerðir sem þær gangast undir sem breyta bæði andliti og líkama. Þetta var bara skelfilegt. Einhverjar venjulegar konur, alls ekkert yfirgengilega ljótar fannst okkur, svo sannfærðar um eigin ljótleika að þær gangast undir stórar aðgerðir til þess að breyta sér. Þær voru þarna allar krampúleraðar og vafðar inn í sárabindi að drepast úr verkjum bara til þess að falla aðeins betur að fegurðarstaðlinum. Ferlið tekur um þrjá mánuði og svo er metið hvor þeirra tveggja í þeirri lotu fær inngöngu inn í keppnina. Það fór eitthvað eftir því hversu áhugsamar og duglegar þær voru við að "accept this complete transformation". Þær ganga inn í sal þar sem læknaliðið og kynnirinn tekur á móti þeim og fá svo að sjá sjálfa sig í spegli. Þessu fylgdi náttúrulega mikill grátur og andköf og upphrópanir eins og "I am finally beautifull". Maki þeirra sem "tapaði" þarna í gær kom svo til að dást að henni og jós á henni hrósi um hversu falleg og glæsileg hún væri. Spurning hvað hann hefur sagt við hana fyrir aðgerðirnar.

Mér fannst þetta bara ömulegt. Maður er nú búin að ná sér af hneyksluninni á öllum asnalegu date-þáttunum en þetta er mun verra. Þessi þáttur sendir út mjög svo brengluð skilaboð um að útlit skipti öllu máli og að við þurfum nú helst öll að vera eins. Allt er á sig leggjandi fyrir "fegurðina" meira að segja að fara í aðgerð sem í sjálfu sér hefur alltaf einhverja hættu í för með sér. Það að hafa svo lítið sjálfsálit að vilja virkilega láta breyta andlitinu á sér verulega án þess þó að vera með einhver veruleg lýti finnst mér líka mjög sorglegt. Þessar konur ættu frekar að fá einhvers konar meðferð til þess að laga þetta lélega sjáfstraust. Ég veit allavega að seint myndi ég láta breyta andlitinu á mér, ekki einu sinni til að slétta úr hrukkunum sem eru að byrja að láta á sér kræla. Samt lít ég nú þannig út að mér yrði seint boðin þátttaka í fegurðarsamkeppnum. Kannski er ég bara eitthvað skrítin en ekki þessar konur í þættinum í gær.