miðvikudagur, september 15, 2004

Mér finnst gaman í vinnunni. Ég held ég hafi aldrei getað sagt þetta áður. Að vísu var oft ágætt hjá Símanum en maður gerði oft eitthvað leiðinlegt í sjálfri vinnunni. Hingað til hef ég ekki gert neitt sem mér finnst leiðinlegt í sendiráðinu. Ég hef meira segja verið lengur flesta dagana og ég sem er meira segja kauplaus. En þetta er líka hluti af náminu og þótt þetta sé vissulega vinnustaður finnst mér ég oft vera bara að læra. Eðlilega kannski.

Ég var skrítin áðan. Gekk niður Karl Johan og var ein af fáum sem ekki var með regnhlíf. Þarf að fara að fá mér regnhlíf. Rigndi helling í dag, heyrði meira að segja drunur í þrumu. Norsku Jannicke og þýsku Rebekku fannst skrítið að ég gæti virkilega talið þau skipti sem ég hefði heyrt í þrumu á fingrum annarrar handar. Ekki minnkaði undrunin þegar ég og Hulda kváðumst vera vanari jarðskjálftum en þrumum.

Norðmenn eru samgönguóðir. Það eru strætóar, sporgvagnar og neðanjarðarlestar í borginni. Ég hef reyndar ekki reynt neitt þessara samgöngutækja enn sem komið er þar sem sú stefna hefur verið tekin að ganga í vinnuna mér til ánægju og heilsubótar. Það hefur líka glatt mig að Norðmenn virðast ekki jafn múrsteinaóðir og frændur þeirra Danir. Húsin eru meira svona normal.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home