þriðjudagur, desember 31, 2002

ble
Keypti mér freyðivínsflösku, á samt ekkert frekar von á því að drekka hana.
Ég hef verið afskaplega löt að blogga síðustu dagana þrátt fyrir að hafa verið ótæpilega mikið í vinnunni. En ef það er einhver dagur sem krefst skrifta þá er það dagurinn í dag. Einhvern veginn fer maður alltaf að hugsa árið sem er næstum liðið og næsta ár.

Jólin voru annars afskaplega ljúf. Allir í góðum gír, pabbi kom á óvart með stærsta jólatréi sem sést hefur heima og setti einnig met í ljósaskreytingum, fyrstu alvöru jólin hennar Tönju sem spókaði sig í gömlum jólakjól af mér, laufabrauðsbakstur á Þorláksmessukvöld í fyrsta skipti sem allir tóku þátt í og tókst vel, afskaplega góður matur, vel heppnaðar jólagjafir bæði til og frá, Trivial var spilað af miklum krafti, jólaboðið á jóladag var það skemmtilegasta í manna minnum.
Eftir þessa upptalningu verð ég að telja til hina fáu veiku punkta. Frekar köld sturta á aðfangadag vegna þess að ég var síðust í sturtu og það er ekki hitaveita heima, jóladagsmorgun en þá fékk ég svakalega í magann og ældi og spúði fram eftir degi. Annað var það ekki.

En svo þurfti ég að fara aftur hingað í borg óttans á annan í jólum. Það var ekkert sérstaklega ánægjulegt. Ég er ekki búin að gera neitt annað þessa daga en að vinna og aftur vinna. Ekki að það hafi verið svo erfitt, það er ekki búið að vera mikið að gera. En nú er að birta til aftur því á eftir fer ég aftur heim. Reyndar verða Birna og Sindri ekki heima um áramótin en ég hitti þau samt áður en ég fer aftur suður.

föstudagur, desember 20, 2002

Það eru allir hættir að blogga enda nálgast jólin og vonandi hefur fólk almennt eitthvað betra að gera þá. Nú fer ég að hætta þessu, vegna þess á morgun fer ég heim, heim, heim. Þá nenni ég alveg örugglega ekki að sitjast fyrir framan tölvuna og þvæla eitthvað.
Nú steypast yfir mann rafræn jólakort bæði frá fólki sem maður þekkir og öðrum sem ég þekki minna. Og ég á von á fleirum enda vinna víst um 1300 manns hjá fyrirtækinu.
Áætlunin mín hefur hingað til að mestu staðist. Reyndar á ég eftir að kaupa eina jólagjöf en það reddast. Allt annað sem ég ætlaði að vera búin að gera hef ég gert. Þess vegna ríkir eintóm gleði í dag, bara þessi vakt og svo heim í jólafrí.

fimmtudagur, desember 19, 2002

My%20ideal%20mate%20is%20Aragorn!%20
Who is your Ideal Lord of the Rings (male) Mate?

brought to you by Quizilla

Hum. kemur svosem ekki mikið á óvart. En mikið svakalega er ég orðin leið á þessu Lord of the Rings kjaftæði.
Úff, ég er afskaplega syfjuð í dag. Vakti til hálf þrjú í gærkvöldi. Ég er búin að vera afskaplega dugleg þessa tvo daga. Ég skipti loksins um dekk og keypti allar jólagjafir nema tvær. Það var reyndar óvenju mikið núna þar sem ég tók að mér að kaupa fyrir ömmu og afa jólagjafir handa foreldrum mínum, systur og mági. Einnig keypti ég gjöfina frá mömmu til pabba og sömuleiðis fyrir pabba.
Það verður því gríðarleg pressa á aðfangadagskvöld þar sem ég ber ágyrgð á óvenjumörgum gjöfum þetta árið.

Ég er því búin að fara í x2 í Kringluna, á Laugaveginn og meira segja einu sinni í Smáralindina. Það er ekki oft sem ég fer alla leið í annað sveitafélag til þess að versla. Þegar ég kom svo heim um sjö leytið í gær ákvað ég að taka því rólega og horfði á vídjó. En þegar það var búið fann ég mig knúna til þess að þvo eina vél og pakka inn nokkrum jólagjöfum. Ég varð eiginlega að gera það því ég er afskaplega léleg í því að pakka inn hlutum og það tekur mig afskaplega langan tíma. Ég varð því að byrja á þessu í dag svo að ég nái að fylgja hinni ströngu áætlun minni fram að heimferð. Því ég ætla að leggja af stað heim í birtingu á laugardaginn, svona um 11, og það verður að standast.

Hér kemur áætlunin:
19. des: 10-19 vinna. 19-21 fara einu sinni en í Kringluna og kaupa þessar tvær gjafir sem
eftir eru. 21-23 Pakka inn jólagjöfunum sem eftir eru. 23-24 afslöppun. 24-8 sofa.
20. des: 8-9 vakna í rólegheitum. 9-10 fara í Sorpu með marga poka af dósum og flöskum.
10-13 fara til ömmu með jólagjafirnar hennar og aðstoða við pökkun, snapa
hádegisverð. 13-14 frjáls tími. 14-23 vinna. 23-1 afslöppun. 1-8 svefn.
21. des. 8-10 vakna og pakka niður. 10-11 fara í lokabúðarferð, aðallega ætluð til
matvörukaupa. 11-14 Keyra heim í heiðardalinn. 14 Komið í mark. Game over.
Mér líður alltaf betur þegar ég er búin að búa til lista.

mánudagur, desember 16, 2002

Tveggja daga frí framundan, nú verða allar jólagjafir keyptar.
Ég hellti vatni yfir borðsímann minn vonandi skemmdist hann ekki.
Ég er félagsskítur, vil ekki sitja fyrir vegna almanaks Símans. Ég er nefnilega einn af elstu starsfmönnunum, búin að vinna hér í tvö og hálft ár. Mér finnst myndavélar leiðinlegar.
Greinilegt er að jólaandinn er farin að svífa yfir vötum. Meiri kurteisi virðist ríkja í heiminum í dag en aðra daga. Þetta merki ég á því að á leiðinni út í Nóatún stoppuðu tveir bílar fyrir mér, gangandi vegfarandanum. Í Nóatúni sá ég einnig sætan strák sem gerist ekki á hverjum degi. Þetta virðist bara ætla að verða góður dagur.
Þetta er mikill merkisdagur. Hildur vinkona á afmæli í dag, 24 ára. Siggi frændi á líka afmæli, hann er sextugur í dag. Einhverra hluta vegna man ég líka að hún Sigrún á Felli á líka afmæli í dag. Ég veit ekkert hvað hún er gömul og þekki hana voða lítið vann bara með henni í rækjunni heima. Hún er helst þekkt fyrir það að hafa eignast heil 12 börn um ævina og var yngsta dóttir hennar með mér í bekk í grunnskóla.
Til hamingju með afmælið öll.

sunnudagur, desember 15, 2002

Guðmundur Hálfdanar verður á Stöð 2 núna á eftir. Alltaf gaman þegar sagnfræðingar eru kallaðir til. Rætt verður um stækkun Evrópusambandsins og var Guðmundur kallaður sérfræðingur í hugsunarhætti Evrópumanna. Það er ekkert smá.
Annar sambýlingur minn á ákaflega erfitt með að vera einn. Þess vegna þegar hún vaknaði rétt fyrir hádegi í morgun kom hún og vakti mig og skreið síðan upp í til mín þegar ómögulegt reyndist að fá mig til þess að fara á fætur. Þetta var ekki mjög hentugt þar sem rúmið mitt er aðeins 90 cm breitt. Þannig að lokum fékkst ég til þess að fara á fætur og meira segja fara í gönguferð í bæinn til þess að losna við þynkuna. Það virkaði reyndar nokkuð vel, ferskt loft er greinilega allra meina bót.
Það var mjög gaman í afmælinu í gærkvöldi, svo gaman að ég finn enn fyrir eftirstöðvunum. Allt er því duldið erfiðara í dag en aðra daga. En ég þarf bara að vera hérna til 10 kvöld svo þetta er allt í lagi. Ég hlýt að ráða við fimm tíma og það eru bara fjórir eftir.

laugardagur, desember 14, 2002

Þetta endaði í 104 símtölum, látum það gott heita. Nú skal haldið heim og gleðskapur kvöldsins undirbúinn.

Find your inner Smurf!Auðvitað er ég besti og mesti strumpurinn.
Síðan klukkan 9 í morgun er ég búin að tala við 85 manns, í 30,5 sek við hvern að meðaltali.
Arg, ég nenni ekki að vera hér lengur. Það fer allt í taugarnar á mér, vinnufélagarnir, kúnnarnir, fótboltinn, allt. Ég vil fara heim því ég er að fara í afmæli í kvöld og það verður mun skemmtilegra en að hanga hérna.

Niðurstaða dagsins: Ég er búin að vinna hér of lengi.
Utanlandssambandið á netinu fór niður um stund en er nú komið aftur svo ég get haldið áfram að tuða.
Manchester United versus West Ham á Sýn, það gerist ekki miklu betra á laugardegi er það?
Morgunmatur á laugardegi: kók og langloka. Hollt og gott.
Músin mín er alveg ómöguleg, arg.
Jæja, versti partur dagsins er búinn. Það var afskaplega erfitt að fara á fætur í morgun en það tókst. Úr þessu getur dagurinn bara batnað.

föstudagur, desember 13, 2002

Heim
Gvöð ég er svo löt. Ég tók pásu, svaraði tveimur og nú er ég aftur búin að logga mig út. Ég er bara búin að vera alveg nógu lengi vinnunni í dag, verst að ég þarf samt að vera hér tvo tíma í viðbót.
Úff, ég er svo södd. Liðið í mötuneytinu er greinilega komið í jólaskap.
Ég fékk senda afskaplega sæta jólakveðju á maili frá Tönju systurdóttur minni í dag. Þar segir að hún hlakki til að fá mig heim í jólafrí. Ég veit svosem að hún kom ekkert nálægt þessari sendingu þar sem hún aðeins rúmlega eins árs en... Ég verð bara öll mjúk og væmin þegar ég er kölluð Þóra frænka eða Þóra móðirsystir í hennar nafni.
Þetta verður mikill gúrmei dagur. Fyrst er það jólahlaðborð í Landsímahúsinu í hádeginu. Í kvöldmat er það síðan kínverskur í þar sem sambýlingur minn var í síðasta prófinu sínu í dag.Ummmhhhh.

fimmtudagur, desember 12, 2002

Jæja, vaktin er að verða búin og ég ætla heim að horfa á Beðmálin sem sambýlingur minn elskulegur tók upp fyrir mig. Ágætis dagur alveg, ekkert geðveikt að gera og enginn búinn að vera vondur við mig.
Ææææææææ, Clinton og Georgina eru ekki lengur í paradís. Hann er víst algjör skúrkur að hennar sögn. Kom það eitthvað á óvart?? Karlar sem fara á einhverja eyju með helling að kerlingum til þess að tékka á því hvort þeim langi til þess að halda framhjá konunni sinni, eru nefnilega yfirleitt soddan öðlingar.
Temptation Island er vondur þáttur. Síðustu tvær þáttaraðir voru slæmar en þessi slær þær út. Nú er lopinn teygður og teygður og sömu atriðin oft sýnd tvisvar að því er virðist til þess að leggja áherslu á eitthvað. Ég tala nú ekki einu sinni um viðfangsefni þáttanna, óþarfi að eyða orðum á annað eins bull og vitleysu.
Black adder þættirnir eru alltaf duldið skemmtilegir, pínu sögulegir líka.
Ég fór ekki og keypti dekk í morgun eins og ég ætlaði að gera, það var bara alltof gott að sofa. Enda á maður ekki að gera eitthvað í dag sem hægt er að gera á morgun.

miðvikudagur, desember 11, 2002

Í dag eru 10 dagar þangað til ég fer heim í jólafrí. Ég þarf að vinna á morgun og föstudag, helgina og mánudag. Þá fer ég í tveggja daga frí sem ætlað er til jólagjafakaupa. Síðan mæti ég í vinnu í tvo daga, fimmtudag og föstudag, og fer heim á laugardaginn...vei, vei.
Þetta er annars merkilegt með veðrið. Það er kominn 11. desember og ég hef ekki séð snjó, næsta sem ég hef komist þvi eru hélaðar gangstéttir. Venjulega kemur fyrsti snjórinn í september, síðasta lagi október. Ekki það að ég vilji fá snjó, alls ekki. Í mínum heimahögum þýðir snjór að ekkert er hægt að gera sökum ófærðar og illviðris. Heima hjá mér snjóar nefnilega í skafla en ekki jafnt yfir allt eins og t.d. á Akureyri. Snjóleysið er því bara ágætt.
Ég verð þó að viðurkenna að það væri allt í lagi að fá smá akureyríska jafnfallna föl heima yfir hátíðirnar svona stemningarinnar vegna.

Fyrst ég er nú byrjuð að tala um snjó. Munurinn á snjónum á Akureyri og heima fellst aðallega í því hvernig hann leggst þ.e. hversu mikill vindur er og af hvaða átt þegar snjórinn fellur. Heima eru þetta heilmikil vísindi hvernig skaflarnir verði þetta árið. Þá er tekið mið af ríkjandi áttum og hvernig fyrirstaðan, t.d hús og girðingar, hefur breyst. En snjórinn sem slíkur er ósköp svipaður. Svo kom ég til höfuðborgarinnar og upplifði minn fyrsta vetur hér og snjórinn var allt öðruvísi. Hann er mun leiðinlegri en norðlenski snjórinn. Þetta er eiginlega ekki snjór heldur hvít rigning. Maður verður allur blautur og ógeðslegur, það er ekki hægt að bursta hann af sér með góðu móti. Þetta skýrist auðvitað að því að hér er rakara og hlýrra en heima.

En semsagt að lokum eftir allt þetta tuð um snjór, vonandi helst tíðin svona fram á vor!!!
Vetrardekk eru alltof dýr en svona er að vera aumingi utan af landi. Ef ég væri ættuð úr siðmenningunni gæti ég bara verið áfram á sumardekkjunum og haldið mig vestan Snorrabrautar. Ég geri það yfirleitt nema þegar ég fer norður.

þriðjudagur, desember 10, 2002

Í gær í leikfimi fór ég í bandý í fyrsta skipti í tæp fimm ár. Einhverra hluta vegna minnti mig að mér þætti þessi íþrótt skelfilega leiðinleg en ég hafði rangt fyrir mér. Mikil gleði og góð tilbreyting. Ég meira að segja datt einu sinni kylliflöt, slíkur var æsingurinn.
Two thumbs up!!!
Þessa dagana líður mér svoldið eins og ég sé utangarðs. Það eru allir í prófum nema ég. Auðvitað er ég ósköp fegin, ég er ekki búin að gleyma stressinu og leiðindunum sem fylgja, en það er samt ákveðin stemning sem fylgir prófum og próflestri. Sérstaklega sakna ég þó þess að eiga ekki eftir að upplifa feginleikann þegar þetta er loks búið.
Ég er ekki mjög trúuð eða kirkjurækin manneskja. En á sunnudaginn var, fór ég í kirkju. Fyrir aftan okkur í kirkjunni sátu þrjár gelgjur svona á fermingaraldrinum og þær gátu bara ekki látið gsm símana sína vera. Meðan presturinn var að predika sátu þær og sms-uðu á fullu, það heyriðst reyndar ekkert mjög mikið en eftir 10 mín af þessu stöðuga pikki var ég að verða brjáluð. Svo að ég, freka tíkin, snéri mér að þeim og sagði þeim að hætta þessu og þar sem ég er svo grimm og vond kona þorðu þær ekki öðru en að hætta þessu.
Mér finnst þetta alveg ótrúlegt virðingarleysi. Ef þú á annaðborð ferð í kirkju getur þú bara drullast til þess að haga þér, sitja kjurr og hlusta. En allavega það sem eftir var af messunni naut ég þess að hlusta án pirrandi truflana. Ég fékk meira segja að heyra lagið Helga nótt, afskaplega jóla- og hátíðlegt.
Ég er auli aldarinnar, það er búið að loka hjá mér símanum. Ertu búin að gleyma hvar þú vinnur?

laugardagur, desember 07, 2002

Það hlaut að vera, eitthvað fjandans jólablað frá Smáralind inn í blaðinu. Hættu að bölva svona.
Djöfull ógeðslega er Mogginn þykkur!
Þar sem ég er á næturvakt og hef lítið sem ekkert að gera og þetta virðist vera inn núna, ætla ég að gera svona lista eins og ég sá að Ása og fleiri hafa gert.

Byrja á ,,fræga" fólkinu:

1. Jónsi í Sigur rós. Gunna mamma hans og Dídí mamma mín eru æskuvinkonur. Einu sinni gistum við heima hjá þeim og ég man að ég laug að honum að ég kynni að lesa, verst að ég kunni bara að lesa í hljóði. Sannaði þetta með því að lesa Dodda-bók. Hann keypti þetta ekki.
2. Villi í Naglbítunum og @inu, var með mér í gjéinu í MA.
3. Fjölnir Þorgeirsson. Frægur fyrir hvað?? Hann abbaðist einu sinni eitthvað upp á strák sem ég var að dandalast með á djamminu.
4. Hallbjörn Hjartarson, öðru nafni kúreki norðursins. Hef hitt hann oftar og séð en ég kæri mig um að muna.
5. Vigdís forseti. Stóð beint fyrir aftan hana við gróðursetningu heima í forsetatíð hennar. Svo aftur á fyrirlestri í Odda eftir að Óli tók við.
6. Vilhjálmur Egilsson. Sá hann á Nasa og ávarpaði hann náttúrulega þar sem hann er þingmaður míns kjördæmis. Fór svo síðar á einhvern framboðsfund hjá honum fyrir hið magnþrungna prófkjör.
7. Þá er upptalningin bara búin. Nenni ekki að nefna þá fjölmörgu þjóðþekktu einstaklinga sem ég hef talað við sem bensíntittur í Brú í Hrútafirði, seljandi brauð í austurbæ Reykjavíkur eða svarandi í símann hjá Símanum. Enda hef ég ekkert hitt þá þannig.
8. Gvuuð, ég gleymdi næstum honum Kristni sem var í 4. sæti í fegurðarsamkeppni íslenskra karla (hljómar betur en Herra Ísland) og það sem meira er hann var líka valinn besta ljósmyndafyrirsætan eða eitthvað því um líkt. Hann er semsagt vinur vinkonu minnar og sambýlings og lætur því endrum og eins sjá sitt fagra fés í húsakynnum mínum.

Þetta er leim listi þykir mér. Ég hef ekki hitt einn einasta frægan útlending. Það næsta sem ég hef komist því var þegar ég fór í dagsferð til New York með nokkrum öðrum erlendum barnapíum. Fyrst fórum við á einhverja jólasýningu í Radio City Musichall og eftir það fóru allar stelpurnar nema í ég í Central Park. Ég vildi frekar hitta Beggu vinkonu mína og gera eitthvað með henni. Þegar ég hitti svo stelpurnar aftur héldu þær varla vatni því þær höfðu hitt Robert Redford í garðinum, sérstaklega voru ísraelsku stelpurnar spenntar. Mér, í hlutverki hins svala Íslendings, fannst þetta auðvitað ekkert merkilegt. En kannski hefði mér átt að finnast það því ekki hef ég hitt neinn svona frægan.

Jæja, ég veit ekki alveg af hverju þessi saga kom, þetta átti bara að vera smá listi. En þetta er búin að vera ágætis tímaeyðsla. Nú ætla ég að fara að lesa elsku Moggann.
Þegar ég verð stór og eignast börn ætla ég að eiga allt Astrid Lindgren safnið og gera það að skyldulesningu. Lestri á bókum Enid Blyton verður hins vegar stillt í hóf, ég las eina ævintýrabók fyrir nokkrum árum og fannst hún leiðinleg með afbrigðum. Þó verður að passa upp á það að börnin fái gersemar Lindgren í hendurnar á réttum tíma, það skiptir öllu máli. Ég fékk Ronju Ræningjadóttur í jólagjöf jólin 1986, þá 8 ára gömul. Ég man að ég sat í ruggustólnum allan jóladag og kláraði bókina, allar rúmu 200 blaðsíðurnar, þetta var mikið afrek. Bókin heillaði mig upp úr skónum og þetta var í fyrsta skipti sem ég upplifði það að festast yfir bók sem hefur svo gerst ítrekað síðan.

Svo eru það bækur sem ber að forðast með öllu, vondar bækur. Gott dæmi um þetta eru dagbækurnar svokölluðu eftir Kolbrúnu Aðalsteinsdóttur. Rusl.
Til Auðar vinkonu: (ef hún þá les bloggið mitt) Ég les bloggið þitt á hverjum degi Auður mín eða þá daga sem ég er í vinnunni. Þannig að því meira sem þú skrifar því betra. Gangi þér vel í prófunum og óléttukveðjur til systur þinnar. (Fáranlegt að skrifa skilaboð til einhvers á sitt eigið blogg en...)
Ég ætla að fara í messu á sunnudaginn í fyrsta skipti í næstum 2 ár. Ég fer aðallega af tveimur ástæðum, til þess að sýna vinkonu minni stuðning á erfiðum tímum og til þess að hlýða á jólalög og komast þannig í hátíðarskap. Ég hlakka bara til.
Myndin Thelma and Louise stendur fyrir sínu. Tvær kvensur sem gerast útlagar fyrir grágletni örlaganna. Núna eru þær að fara að svífa fram af brúninni á Grand Canyon. Gerist bara ekki mikið svalara!!

föstudagur, desember 06, 2002

Tommi og Jenni eru jafn skemmtilegir og mig minnti, þeir eru núna í morgunsjónvarpinu á Stöð 2. Skondnir maurarnir sem ganga í röð í nokkurs konar hertakti.

Þetta er búin að vera löng vakt en þetta er allt að koma, aðeins rúmur klukkutími eftir. Það spilar líka inn í að ég er ein en hvað gerir maður ekki fyrir aurinn.
Aumingja Tommi!

fimmtudagur, desember 05, 2002

Vá, ég hef ekkert bloggað í viku. Ég veit ekki alveg hvað veldur, sjálfsagt bara mín alkunna leti og ómennska. Desembermánuður gerir mig alltaf svo þunga eitthvað (nú er ég að tala um andlega ekki líkamlega). Það er svo margt að gera og þar að auki flest að því skemmtilegt en ég kem mér ekki að því að gera neitt. Þannig að sjálfsagt endar þetta eins og venjulega að ég kaupi allar jólagjafirnar á hlaupum og læt skipta um dekk daginn sem ég fer norður.

Um síðustu helgi var jólaglögg hjá Símanum og ég ætlaði að fara í fyrsta skipti. Hingað til hef ég nefnilega alltaf verið í ritgerðarmaraþoni á þessum tíma. En sökum áður nefndar leti og ómennsku fór ég ekki neitt og fór bara snemma að sofa. Á laugardagskvöldið fengum við meðleigjendur mínir svo þá góðu hugmynd að fá okkur af hvítvíninu sem var til inn í ísskáp. Til þess að gera langa sögu stutta drukkum við báðar hvítvínsflöskurnar, fórum síðan út og fengum okkur meiri veigar. Ég kom ískyggilega seint heim um nóttina. Dagurinn eftir var þar af leiðandi mjög gleðiríkur í alla staði, ég minntist þess hvers vegna ég geri þetta sjaldnar en áður fyrr.