laugardagur, desember 07, 2002

Þar sem ég er á næturvakt og hef lítið sem ekkert að gera og þetta virðist vera inn núna, ætla ég að gera svona lista eins og ég sá að Ása og fleiri hafa gert.

Byrja á ,,fræga" fólkinu:

1. Jónsi í Sigur rós. Gunna mamma hans og Dídí mamma mín eru æskuvinkonur. Einu sinni gistum við heima hjá þeim og ég man að ég laug að honum að ég kynni að lesa, verst að ég kunni bara að lesa í hljóði. Sannaði þetta með því að lesa Dodda-bók. Hann keypti þetta ekki.
2. Villi í Naglbítunum og @inu, var með mér í gjéinu í MA.
3. Fjölnir Þorgeirsson. Frægur fyrir hvað?? Hann abbaðist einu sinni eitthvað upp á strák sem ég var að dandalast með á djamminu.
4. Hallbjörn Hjartarson, öðru nafni kúreki norðursins. Hef hitt hann oftar og séð en ég kæri mig um að muna.
5. Vigdís forseti. Stóð beint fyrir aftan hana við gróðursetningu heima í forsetatíð hennar. Svo aftur á fyrirlestri í Odda eftir að Óli tók við.
6. Vilhjálmur Egilsson. Sá hann á Nasa og ávarpaði hann náttúrulega þar sem hann er þingmaður míns kjördæmis. Fór svo síðar á einhvern framboðsfund hjá honum fyrir hið magnþrungna prófkjör.
7. Þá er upptalningin bara búin. Nenni ekki að nefna þá fjölmörgu þjóðþekktu einstaklinga sem ég hef talað við sem bensíntittur í Brú í Hrútafirði, seljandi brauð í austurbæ Reykjavíkur eða svarandi í símann hjá Símanum. Enda hef ég ekkert hitt þá þannig.
8. Gvuuð, ég gleymdi næstum honum Kristni sem var í 4. sæti í fegurðarsamkeppni íslenskra karla (hljómar betur en Herra Ísland) og það sem meira er hann var líka valinn besta ljósmyndafyrirsætan eða eitthvað því um líkt. Hann er semsagt vinur vinkonu minnar og sambýlings og lætur því endrum og eins sjá sitt fagra fés í húsakynnum mínum.

Þetta er leim listi þykir mér. Ég hef ekki hitt einn einasta frægan útlending. Það næsta sem ég hef komist því var þegar ég fór í dagsferð til New York með nokkrum öðrum erlendum barnapíum. Fyrst fórum við á einhverja jólasýningu í Radio City Musichall og eftir það fóru allar stelpurnar nema í ég í Central Park. Ég vildi frekar hitta Beggu vinkonu mína og gera eitthvað með henni. Þegar ég hitti svo stelpurnar aftur héldu þær varla vatni því þær höfðu hitt Robert Redford í garðinum, sérstaklega voru ísraelsku stelpurnar spenntar. Mér, í hlutverki hins svala Íslendings, fannst þetta auðvitað ekkert merkilegt. En kannski hefði mér átt að finnast það því ekki hef ég hitt neinn svona frægan.

Jæja, ég veit ekki alveg af hverju þessi saga kom, þetta átti bara að vera smá listi. En þetta er búin að vera ágætis tímaeyðsla. Nú ætla ég að fara að lesa elsku Moggann.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home