miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Jæja, Þá er loksins komin formleg dagsetning á vörnina, 21. des kl. 14. Mér létti stórum að vörnin frestaðist ekki fram í janúar. Fyrst þetta er komið á hreint hef ég staðið í nauðsynlegum útréttingum í dag. Ég sagði herberginu mínu upp og sjónvarpinu og pantaði flug. Lendi á klakanum rétt fyrir 11 fimmtudagskvöldið 22. des. Þetta er farið að styttast verulega, bara þrjár vikur eftir.

Allra síðasti yfirlestur hefst í fyrramálið, viku fyrir skil.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Tók aðeins til hérna í kotinu áðan. Opnaði vatnsflösku sem ungverska stelpan ég leigði herbergið í nokkrar vikur í sumar skildi eftir. Upp úr flöskunni steig mjög svo höfugur ilmur, greinilega áfengi. Ég kannaðist við þessa lykt, varð svoldið óglatt svo greinilega voru ekki allar minningarnar góðar. Ég hellti glundrinu í vaskinn svo nú lyktar baðherbergið mitt. Svo fattaði ég loksins hvað þetta var, tekíla var það. Ekki að undra að ég kæmi lyktinni ekki fyrir mig, hef ekki drukkið tekíla í einhver sex ára eða svo. Fékk nóg í Spánarferðinni um árið, sælla minninga.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Fékk góða sendingu áðan, skinkuhorn, smákökur, ullarvettlinga og bókatíðindin. Ef eitthvað kemur manni í jólaskap þá er það þetta. Mamma hefur í mörg ár gert skinkuhorn fyrir jólin. Ég var nefnilega ekki mikið fyrir smákökur og tertur sem krakki og unglingur og vildi miklu frekar skinkuhorn. Takk, elsku mamma.

Síðasta "attack" á ritgerðina hafin. Ætla að skila eftir tæpar tvær vikur og vonandi verður vörnin 21. desember svo nái að klára alveg fyrir jól. Það kemur í ljós á þriðjudaginn.

Vantar bara Egils appelsín í kotið. Ekki malt samt. Hef aldrei verið hrifin af malti og appelsíni.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Þoka í Álaborginni í dag. Lyktar ekki vel þessi þoka, svona einhvern veginn málmkennd. Sakna sjávarlyktarinnar heima, ganga fyrir víkina og finna salta lyktina af sjónum.

Hitti Andreas í dag á bókasafninu. Gaman að hitta loksins einhvern hér sem maður þekkir aðeins en við Andreas vorum saman í hóp ásamt hinum pólska Greg á vorönninni í fyrra. Hann er að skrifa sína ritgerð og á von á því að skila í maí sem þýðir að hann klárar einhvern tímann næsta sumar. Þeir eru alltaf jafn rólegir í tíðinni þessir Danir.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Nóvember að verða búinn og ég er farin að hugsa um áramót og áramótaheit. Ég hugsa að aðaláramótaheitið mitt verði að draga verulega úr "stundun" hvers kyns fjölmiðla. Í ritgerðar einangruninni hér í Danmörkunni síðustu vikur hef ég nefnilega notað fjölmiðla óhugnalega mikið. Ég horfi á sjónvarp, hlusta á útvarp, fer á netið og les moggann á bókasafninu í hádeginu. Ég er því vel inn öllu sem er að gerast heima og þykir fréttnæmt, fylgist með lífi einhvers fólks sem ég þekki jafnvel ekki neitt í gegnum bloggið þeirra og síðast en ekki síst geng ég í gegnum súrt og sætt með hellingi af áhugaverðu fólki í amerískum sjónvarpsþáttum.
Ég er því kannski orðin svolítið eins og ein sögupersónan í nýjustu bók Hallgríms Helgasonar, Roklandi (já, ég hef lesið og heyrt um bókina á netinu að sjálfsögðu). Mamma aðalsögupersónunnar gerir nefnilega víst lítið annað en að horfa á sjónvarpið, hún vinnur sína 8 tíma og sest svo fyrir skjáinn um leið og hún kemur heim. Líf hennar er í raun innihaldslaust, hún lifir í gegnum liðið á skjánum. Nú er ég ekki að segja að líf mitt sé orðið tómið eitt og ég lifi orðið í gegnum fjölmiðlana. En það gæti orðið þannig. Þess vegna ætla ég þegar ritgerðarstússi lýkur að grípa strax í taumana. Sjónvarpsfrí kvöld og internetlausir dagar. Það verður áramótaheitið í ár. En núna ætla ég horfa á Beðmál í borginni, maður verður nú að fá smá "action".

föstudagur, nóvember 18, 2005



Set hér inn eina mynd af mínu ágæta fési ef ske kynni að einhver þurfi að rifja upp hvernig ég lít út. Myndin er annars tekin af Þórunni vinkonu í sporvagni í Osló í Noregi fyrr á þessu ári. Held ég hafi lítið breyst síðan.

Já, það er föstudagskvöld og mér leiðist.
Samkvæmt þessu er ég að austan. Hafði ekki áttað mig á því.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Himmi frændi var í fréttunum áðan á RÚV. Hann er að gefa út enn eina orðabókina, þá stærstu sem gefin hefur verið út í áratugi. Svo er ég að tuða yfir einhverri aumri 80 síðna ritgerð.
Fór ekki alveg með rétt mál hér að neðan einhvers staðar. Radikale venstre er ekki vinstri smáflokkur heldur miðjuflokkur. Takk fyrir leiðréttinguna frændi. Ég verð greinilega að fylgjast aðeins betur með danskri pólitík. Það er líka augljóst að sumir danskir kennaranemar hér á kolleginu eru ekki alveg með hlutina á hreinu. Best að kynna sér hlutina bara sjálfur, almennilega.
Kuldaboli loksins kominn til Álaborgar, sjálfrennireiðareigendur þurftu að skafa í morgun og ég svaf í ullarsokkum.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Í tilefni dags íslenskrar tungu ákvað ég í morgun að tala bara íslensku í dag. Þetta hefur gengið eftir enda hef ég ekki talað við neinn nema sjálfa mig og ég skil íslensku alveg ágætlega.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Fór aðeins í bæinn áðan til að kaupa strætó- og símakort. Greinilegt að jólin eru að koma hér í Áló sem og annarsstaðar. Búið að skreyta miðbæinn þótt enn eigi eftir að tendra ljósin og verið er að setja upp kofana fyrir útijólamarkaðinn á Gammel Torv. Það er líka greinilegt að kosningar eru í nánd, sveitarstjórnarkosningar eða komunevalg á hinn daginn held ég. Ég hlýt að líta eitthvað róttæknislega út því einu pésarnir sem ég fékk voru frá Radikale Venstre og Enhetslisten sem eru smáflokkar lengst til vinstri. Ég ætla ekki að kjósa enda ekkert kynnt mér málin og á aðeins eftir að vera hérna í nokkrar vikur í viðbót.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Fátt betra en að bjalla í fólk sem lætur manni líða betur. Þarf að versla mér símakort á morgun. Engin sparnaður þar.
Algjört sukk og svínarí. Sit upp í rúmi og læri og borða vínber og camembert, læt allt eftir mér. Danski camembertinn er ekki eins góður og sá íslenski, náttúrulega ekki. Bragðið ekki eins mjúkt einhvern veginn. Annars eiga Íslendingar oft í vandræðum ef svo má segja með ostinn hérna í Danaríki, oft voðalega sterkur með táfýlulykt.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Litli frændi minn hann Hákon Guðni er meðlimur í nýja "boybandinu" Spark. Ég og Beta mamma hans erum systkinabörn. Hann er flottur strákurinn og náttúrulega með líflegustu sviðsframkomuna eins og sjá mátti í kastljósi í vikunni.
Öll þessi nútíma tækni er frábær þegar maður er í svona sjálfskipaðri útlegð eins og ég er í núna. Stundum er bara næstum eins og maður sé heima á Fróni. Ég fylgist með fréttum á netinu, hlusta á rás 2 meðan ég skrifa og horfi stundum á íslenskt sjónvarpsefni. Er til að mynda farin að fylgjast með Popppunkti, horfi stundum á spaugstofuna og hef reynt að horfa á "Íslenska bachelorinn". Ég segi reynt af því að stundum fer ég svo hjá mér fyrir hönd einhverrar stelpunnar eða piparsveinsins sjálfs að ég get bara ekki horft lengur. Vitleysan og þruglið í þessum er nefnilega svo yfirgengilegt. Að fólkið skuli hafa látið hafa sig út í þetta er mér bara ómögulegt að skilja. En samt horfi ég öðru hverju til að fá lágkúruskammtinn.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Þetta er bara snilld!
Rúmlega tveggja stunda fundur með supernum í dag. Seinni hluti ritgerðarinnar hafði víst ekki tekið jafn miklum jákvæðum breytingum og fyrri hlutinn. Analýsan er enn úr tengslum við kenninguna en kenningakaflinn er orðinn fínn. Varð því fyrir soldlum vonbrigðum í dag, aðallega með sjálfan mig. Hélt og vonaði að ég hefði gert betur. Stefni á að skila 1. des svo ég nái að verja fyrir jól. Hef því tæpar þrjár vikur til leggjast yfir þessar 35 síður sem analýsan er og reyna að fixa þetta eitthvað. Vona bara að það takist að einhverju leyti allavega.

Hef afar litla matarlyst í dag.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Uppáhalds systir mín á afmæli í dag, 24 ára stelpan. Innilega til hamingju með afmælið Birna litla. Við rifumst eins og hundur og köttur þegar við vorum litlar, skiptum okkur lítið af hvor annari þegar við vorum unglingar en nú tölum við saman í hverri viku. Mamma sagði einhvern tímann að hún hefði haldið að við myndum aldrei verða nánar vinkonur og er nú afskaplega ánægð með að hún hafði rangt fyrir sér.

Fékk mail frá supernum í dag. Hann er búin að lesa helminginn yfir og segir ritgerðina mun betri en áður. Vandamálið er þó eins og hann orðar það að með meiri sjálfstæðri hugsun versnar málfarið. Er ekki einhver þarna úti, góður í ensku, sem langar að lesa aðeins yfir fyrir mig og fræðast í leiðinni um ESB umræður á Íslandi? Ætla ekki að henda allri ritgerðinni í einhvern til yfirlestrar en grunar að ákveðnir hlutar ritgerðarinnar þurfi meiri yfirhalningu en aðrir og fleiri augu en mín.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Ég er búin að úrskurða símann minn ónýtan. Fór til þeirra hjá TDC í dag og þar kom í ljós að það er síminn sjálfur en ekki hleðslutækið eða batteríið sem bilaður. Veit að það kostar alltaf formúu að gera við svona og síminn er nú ekki mjög verðmætur svo hann verður ekki notaður mikið meira. Veit ekki hvenær ég fæ mér nýjan síma en það verður ekki alveg á næstunni.

Vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá mér áðan, létu mig fá tvo bæklinga og lásu upp fyrir mig úr biblíunni. Upplesturinn fjallaði aðallega um það að ég ætti að íhuga það vel og vandlega hvað ég ætlaði að gera með líf mitt. Þurfti nú ekki að segja mér það.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Ég er búin að búa hér á kolleginu í ca. fjóra mánuði alls. Var að komast á því áðan að það er Fakta matvöruverslun hérna rétt hjá og bakarí. Polar centret heitir staðurinn sem ég hef bara aldrei tekið eftir áður. Fakta er náttúrulega mun skemmtilegri búð en Super Spar þar sem ég versla venjulega, meira vöruúrval og ódýrari. Soldið seint í rassinn gripið en hér eftir verður verslað í Fakta.

Er alveg búin að fá upp í kok af verunni hérna. Vil bara ljúka þessu af.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Hitti ekki superinn hræðilega fyrr en eftir hádegi á föstudaginn, vikan er nefnilega svo þéttsetin hjá honum. Svo að nú liggur ritgerðin hjá honum þangað til hann les hana á föstudagsmorguninn. Hefði nú verið viturlega finnst mér að láta mig bara vita af þessu svo ég gæti dútlað við ritgerðina þangað til á fimmtudaginn. En svona er þetta, í Danmörkunni hafa jú allir nægan tíma. Þessi rólegheit alltaf geta gert mig alveg vitlausa. Hugsa að ég reyni að undirbúa fyrirlesturinn við vörnina eitthvað í vikunni. Ákveða hvað ég ætla nú að rausa um og svona.

Ætla að elda eitthvað gott í dag, hef ekki gert það í einhverja viku.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Síminn minn virkar ekki. Einhverra hluta vegna virðist batteríið skyndilega hafa tekið upp á því að hlaðast ekki. Þetta er mjög óþægilegt, sérstaklega þar sem nú hef ég enga vekjaraklukku. Vakna reyndar oftast áður en klukkan hringir en það er nú samt erfitt að treysta bara á það. Þetta pirrar mig afskaplega mikið verð ég að segja, fyrst var tölvunni stolið, nú bilar síminn. Ætli sjónvarpið mitt springi næst í loft upp?

laugardagur, nóvember 05, 2005

Ég á mér uppáhalds sjónvarpsauglýsingu hér í Danaveldi. Í henni er verið að auglýsa sjónvarp, nánar til tekið Bravia sjónvarp frá Sony. Í auglýsingunni getur að líta skopparabolta í öllum regnbogans litum skoppa niður brekku í þúsundatali í einhverri borg, gæti verið San Fransisco. Undir skoppið er leikið fallegt og rólegt gítarlag með hugljúfum texta. Verð sífellt hrifnari og hrifnari af þessari auglýsingu. Öll þessi litagleði gerir mig svo glaða.

Fór í bæinn áðan svona í tilefni að því að vera ekki á kafi í ritgerðinni. Keypti samfellur á spottprís handa Guðjóni og hárband handa sjálfri mér. Varð eiginlega að forða mér á endanum út úr barnafatabúðinni, svo margt sem mig langaði að kaupa. Skoðaði og skoðaði þangað til afgreiðslustúlkan benti mér á að ég væri ekki í réttum stað. Föt fyrir barnið mitt væru nefnilega hinum megin í búðinni sagði hún og vitnaði til stærðar samfellanna sem ég var með á handleggnum. Ég brosti bara blítt, nennti ekki að leiðrétta hana og síst af öllu á dönsku.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Sendi supernum aðra version ritgerðarinnar áðan. Með öllu, heimildaskrá og formála og svona, er ritgerðin orðin 84 síður. Hitti superinn svo væntanlega einhvern tímann í næstu viku í síðasta skipti fyrir lokaskil. Það er því farið að glitta í endann á þessu öllu saman.