laugardagur, nóvember 05, 2005

Ég á mér uppáhalds sjónvarpsauglýsingu hér í Danaveldi. Í henni er verið að auglýsa sjónvarp, nánar til tekið Bravia sjónvarp frá Sony. Í auglýsingunni getur að líta skopparabolta í öllum regnbogans litum skoppa niður brekku í þúsundatali í einhverri borg, gæti verið San Fransisco. Undir skoppið er leikið fallegt og rólegt gítarlag með hugljúfum texta. Verð sífellt hrifnari og hrifnari af þessari auglýsingu. Öll þessi litagleði gerir mig svo glaða.

Fór í bæinn áðan svona í tilefni að því að vera ekki á kafi í ritgerðinni. Keypti samfellur á spottprís handa Guðjóni og hárband handa sjálfri mér. Varð eiginlega að forða mér á endanum út úr barnafatabúðinni, svo margt sem mig langaði að kaupa. Skoðaði og skoðaði þangað til afgreiðslustúlkan benti mér á að ég væri ekki í réttum stað. Föt fyrir barnið mitt væru nefnilega hinum megin í búðinni sagði hún og vitnaði til stærðar samfellanna sem ég var með á handleggnum. Ég brosti bara blítt, nennti ekki að leiðrétta hana og síst af öllu á dönsku.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home