fimmtudagur, nóvember 28, 2002

Hvers vegna eru sumir hér í borg búnir að setja aðventuljós út í glugga? Það er allt í lagi mín vegna að fólk setji upp seríur mánuðum fyrir jól en aðventuljósin eru aðventuljós og þau á að setja upp fyrsta sunnudag í aðventu og ekki degi fyrr. Ég var alin upp við það að kveikja ætti á jólaljósum rétt fyrir jólin, 22. eða 23. des. Þetta virðist hafa elst bæði af mér og foreldrum mínum, ég ætla að setja upp seríur núna í byrjun desember. Pabbi og mamma bíða eitthvað lengur býst ég við en svona eftir 10. held ég að þeim finnist óhætt að skreyta. Ennn það gildir annað með aðventuljós því þau eru ekki eins og annað jólaskraut. Þetta er eins og að fá sér aðventukrans og byrja að kvekja á kertunum í byrjun nóvember og skipta síðan bara um kerti. Eða hitt að fá sér aðventukrans með til að mynda 6, 8 eða 10 kertum og ,,lengja" þannig aðventuna.
Nei, allt í lagi að byrja snemma að skreyta og lýsa og spila jólalögin en aðventuna og það sem henni tilheyrir má vera í friði.
Góðan daginn

miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Miðað við ummæli mín hér á undan verður sjálfsagt enn oftar en áður minnst á ómæld gæði Dóa, hins einhleypa bifvélavirkja og frænda Sindra mágs míns, næst þegar ég fer norður. En hafa ber í huga að þetta er einungis lýsing á kærasta sem myndi duga mér þessa tilteknu daga. Kærasti til almennrar notkunar þyrfti að vera mun fleiri kostum búinn.
Svona ca. 5 daga ára myndi ég vilja eiga kærasta. Kærastadagarnir væru þá u.þ.b. þessir: 1. nóv. (þegar setja þarf vetrardekk á bílinn), 1. maí (þegar skipt er aftur yfir í sumardekkin), 1. sept. (árleg skoðun bílsins) og svo 2 dagar ári þar sem hægt væri að kalla hann út með tiltölulega stuttum fyrirvara (regluleg smurning). Ekki væri verra ef kærastinn væri bifvélavirki sem gæti þá smurt bílinn sjálfur og verið tilbúinn til útkalls ef t.d. pústkerfið færi eða eitthvað slíkt.
Sökum þess gríðarlega þyngdartaps sem ég hef orðið fyrir ákvað ég að reyna að bæta mér það upp sem allra fyrst og tók því þann kost að fá mér langloku og kók í hádegismat. Þetta kemur reyndar líka til af því að ég er ósköp syfjuð í dag, fór ekki að sofa fyrr en rúmlega 4 í nótt og vaknaði kl 9 í morgun. Það er fjandi erfitt að snúa sólarhringnum eftir fjandans næturvaktirnar.

Ég hef tekið eftir því þegar ég les annnara manna blogg að ég virðist vera alveg einstaklega innhverf í skrifum mínum. Hér tala ég nær eingöngu um sjálfa mig og það sem gleður mig og pirrar mig hverju sinni. Meira að segja nánustu ættingjar og vinir fá lítið pláss t.d. var ég í fyrsta sinn í dag að minnast á meðleigjanda minn og vinkonu til margra ára, Bergþóru, sem þó er sú manneskja sem ég umgengst mest.
Enn minna tala ég þó um þjóðmálin. Ég læt mig engu skipta hvað Davíð er vondur við allt og alla, prófkjörssvindl og hneyksli minnist ég ekkert á og ófriðurinn í Palestínu er fjarri mér. Ég ætla að reyna að bæta mig og segja frá öllu mínu fólki nær og fjær.
Þá er ég mætt til starfa eftir tveggja daga frí. Mánudagurinn fór reyndar að mestu í svefn og slatti af gærdeginum líka. Merkilegt hvað maður verður lúin af þessum næturvöktum.

Í gær þegar ég loksins fór á fætur gerði ég helling af engu fram eftir degi og naut þess alveg í botn. Begga var líka að læra þannig að það gerði upplifunina enn betri. Um kl. sex fór ég svo í mat til afa og ömmu. Þar fékk týpískan ömmumat, lærissneiðar með hnausþykkri sósu, kartöflur, sultu, grænar baunir og salat og svo auðvitað kók með sem er keypt sérstaklega fyrir svona tilefni.
Það fyrsta sem afi sagði við mig þegar ég kom innúr dyrunum var:"Ertu í megrun?" Hann sá mig síðast fyrir mánuði síðan og síðan þá hef ég kannski lést um 1-2 kíló svona til þess að undirbúa mig fyrir jólakílóin. Afi er alveg merkilegur með þetta, hann tekur alltaf eftir öllu svona. Kannski hefur þetta eitthvað með það að gera að hann var bóndi í einhver 50 ár, horfði og fylgdist með kindum á hverjum einasta degi. Hann þekkti þær t.d. allar með nafni, einhverjar 300-400 skjátur. Nú er ég ekki beinlínis að líkja mér við kind en afi hefur örugglega reynslu í því að taka eftir smáatriðum. Og nú hefur hann engar rollur til þess að fylgjast með þannig að við barnabörnin erum komin í staðinn.

mánudagur, nóvember 25, 2002

Bara hálftími eftir af síðustu næturvaktinni í bili. Og ég er í fríi á morgun!!!
Hann Friðrik, maðurinn hennar Bjarnhildar vinkonu og fyrrverandi meðleigjandi minn, er 26 ára í dag. Til hamingju með afmælið Frikki!!!

sunnudagur, nóvember 24, 2002

Þetta var fýluferð, of mikil bjartsýni að Mogginn væri kominn.
Hej!!! Það er mánuður til jóla í dag og tæpur mánuður þangað til ég fer heim í jólafrí. Annað hej!!! Ætli Mogginn sé kominn í hús? best ég fari niður og gái.
Ég verð greinilega að fara á Borgarbókasafnið á morgun (í rauninni í dag).
Ég er búin að búin að gera allar beiðnir sem þurfti að gera, taka til í eldhúsinu og setja í uppþvottavélina, tala við nokkra símnotendur í misgóðu ásigkomulagi, horfa á Erin Brokovich, drekka kók og borða popp, tala við Breka vinnufélaga minn, fara á ýmsar misskemmtilegar síður á netinu, hugsa dágóða stund um það hvað ég eigi nú eiginlega að gera í framtíðinni, horfa á tónlistarmyndbönd á popptíví, lesa Undirtóna. Ég er bara að verða uppiskroppa með verkefni og það eru rétt um þrír tímar eftir af vaktinni. Reyndar er sjötta Star Wars myndin að byrja á Bíórásinni en ég hef aldrei verið mikill aðdáandi þeirra.

laugardagur, nóvember 23, 2002

Nú er ég orðin verulega syfjuð!
Arg, Ísland í dag. Bein útsending frá sérstakri hátíðarsýningu á nýju Bond myndinni. Ástæða þess er víst sú að um 30% myndarinnar eru tekin upp hér á landi og það er og verður gríðarleg landkynning. Hvað er að!!! Ég sá bara "beint" í vinstra horninu á skjánum og hélt að eitthvað geysilega merkilegt væri að gerast. Greinilega ekki mikil hætta á því. En kannski er þetta einmitt það sem Ísland í dag ætti að fjalla um því þetta lýsir Íslandi í dag vel.
Ég var að taka karl/kona prófið sem Dagný tók og fékk 280 stig. Ég fékk aðeins færri eða 190 stig. Karlar fá víst venjulega 0-180 stig en konur 150-300. Samkvæmt þessu er heilinn á mér kvenmiðaður en þó í lægri kantinum. Þetta kemur mér þó ekkert sérstaklega á óvart, ég er svo innilega laus við alla listræna hæfileika. Þeir eiga víst að aukast í eftir því sem heilinn er kvenmiðaðri.
Hún Jersey hefur mikið aðdráttarafl. Það brutust út slagsmál á barnum allt var að fara í bál og brand en þá dansaði hún og söng á barborðinu og allir karlmennirnir hættu að slást til að horfa og dást að henni. Íslensk lögregluyfirvöld ættu að kanna þetta.
Aðalplúsinn við myndina, segir Jón, er hvað hún er vel leikin.
Ég átti ekki að mæta í vinnuna fyrr en annað kvöld en Dagný hringdi í mig og bað mig að taka aukavakt í nótt. Ég var alin upp við það að vinna væri mannbætandi á allan hátt og þar af leiðandi væri það hreinn aumingjaskapur að neita aukavinnu þegar hún stæði til boða.
Svo ég mætti í vinnuna kl. 23 og núna kl. 2 þá erum við Jón búin að gera allt sem við þurfum að gera á vaktinni, nú er bara að sitja og svara þeim sem hringja en við verðum hér til 9 í fyrramálið. Á þessum tíma hringja ekki svo margir, fólk verður að ná að komast út á djammið og týna símanum sínum áður en það hringir hingað. Og þetta er Ísland svo að það verður ekki fyrr en eftir kl. 5 í nótt. Þannig að við sitjum hér, ég að blogga og Jón að hlæja að hinni klassísku mynd Coyote Ugly sem myndi væntanlega útleggjast á íslensku sem "Ljótur sléttuúlfur". Þetta er afar skemmtileg mynd um unga konu sem fer til stórborgarinnar til þess að koma tónlist sinni á framfæri. Það reynist henni hinsvegar erfitt svo hún leitar annara leiða til þess að framfæra sér og fer að vinna á bar þar sem barstúlkurnar eru aðalaðdráttaraflið. Þær eru sérstaklega hressar og frjálslegar, dansa upp á borðum, dissa feita karlmenn, kvekja í og hella yfir sig vatni. Þessi mynd er mjög áhugaverð og núna þegar ég horfi á þær stöllur dansa línudans upp á borði langar mig svakalega mikið að verða eins svöl og þær eru.

fimmtudagur, nóvember 21, 2002

Á morgun er ég í fríi og frá 11-13:30 verð ég að passa hann Óðinn Rafn. Óðinn er tæplega 5 mánaða gamall sonur Sigrúnar vinkonu og þar sem mamman þarf að fara í skólann hleyp ég undir bagga. Það er frábært að fá öðruhverju að handleika lítil börn og svo er líka gott að skila þeim aftur. Á morgun er því planaður rúntur með barnavagn um miðbæ Reykjavíkur.


Annars eru börn út um allt þessa dagana, það er eins og barneignum hafi fjölgað skyndilega. En sennilega er það bara aldurinn sem er farinn að segja til sín. Þau hafa ótrúlegt aðdráttarafl þessi litlu kríli. Ég hef farið talsvert oftar norður en áður eftir að Tanja Kristín systurdóttir mín fæddist. Það kemur heldur aldrei fyrir að ég gleymi að hún er til, verði hissa þegar ég kem heim að það sé smábarn þar. Þetta gerðist ítrekað þegar kötturinn var á lífi, ég var oft á tíðum ansi hissa að hann væri til. Nú er kötturinn (nei hann hét víst aldrei neitt) dauður og ég sakna hans bara ekki neitt. Ætli ég sé ekki bara mun meira fyrir fólk en dýr og/eða smábörn séu mun merkilegri en kettir.
Það er helst að frétta úr hinum spennandi heimi Almenna símkerfisins að þessa dagana er nýbyggingin Ársalir 1, 201 Kópavogi, vinsælasti áfangastaðuinn. Þ.e. undanfarna daga hefur fólk verið ákaflega duglegt að flytja símanúmerin sín í þetta hús. Mér finnst eiginlega að ég verði að leggja land undir fót og skoða þetta hús sem ég er búin að heyra svona mikið um. Verst hvað ég rata ákaflega lítið í úthverfum Reykjavíkur, Kópavogi og Hafnarfirði.
Í gær gleymdi ég hreinlega blogginu bæði mínu eigin og hinum sem ég skoða. Það var nefnilega alveg vitlaust að gera í vinnunni og svo var fundur kl. 16 og kynning eftir vinnu kl. 19. Sem betur fer virðist þessi dagur ætla að verða mun rólegri en gærdagurinn.
Þetta er annars ótrúlega skemmtilegt fyrirbæri, bloggið, hér er ég farin að fylgjast reglulega með fólki sem ég þekki en hef ekki umgengist í langan tíma. Þarna á ég náttúrulega sérstaklega við g-bekkinn sem ég tilheyrði í MA á sínum tíma. Bloggið segir mér mun meira um fólkið en þessi fáu orð sem ég segi við það þá sjaldan sem við hittumst á förnum vegi.
Úbs klukkan næstum orðin 11:30, ég er farin í mat.

þriðjudagur, nóvember 19, 2002

Ég er að fara heim, rétt bráðum!!!!
Orðið að "hinkra". Ég notaði þetta orð aldrei áður en ég byrjaði að vinna hjá Símanum. En nú nota ég þetta oft á dag. Nú er ég til að mynda á bið hjá tæknimanni sem bað mig um að hinkra.
Merkilegt nokk!!! Dagurinn í dag er miklu betri en gærdagurinn. Það er alltaf svo ánægjulegt þegar þetta gerist. Ég veit ekki hvernig stendur á þessu, ekkert hefur breyst. En í dag skora ég miklu hærra á hamingjustuðlinum. Þetta er það góða við leiðinlega daga, næsti eða þarnæsti dagur er betri og þá líður manni svo vel af engri sýnilegri ástæðu.
Þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í gærkvöldi gekk ég eins og venjulega Seljaveginn að Héðinshúsinu og svo inn Nýlendugötuna. Við Héðinshúsið, þar sem Loftkastalinn er og 10/11 búð, var maður að gera þarfir sínar. Þarna stóð hann kl. 23 á mánudagskvöldi og pissaði eins og ekkert væri, reyndar snéri hann bakinu í götuna. Í hvers konar rustahverfi bý ég??

mánudagur, nóvember 18, 2002

Ég þoli ekki þegar ég segi góðan daginn á kvöldin og öfugt. Fólk fer annað hvort að hlæja (sem er allt í lagi) eða er á einhvern hátt fúlt yfir þessum mistökum manns og spyr jafnvel með þjósti ,,Er ennþá bjart hjá þér góða??!!"
Um helgina, reyndar á aðfaranótt sunnudagsins, horfði ég á myndina About a boy með Hugh Grant í aðalhlutverki. Og mér til mikillar ánægju og yndisauka var hún bara mjög skemmtileg afþreying. Þetta er ekkert alltaf að gerast því flestar myndir eru bara svona allt í lagi og margar hreinlega lélagar. En allavega, hún fær 4* hjá mér.
Ég hata breiðvarpið!!!!!!
Mánudagur til mæðu. Það lýsir mínum degi vel. Það er allt of mikið að gera í vinnunni svo að ég hef engan tíma til þess að blogga, er að stelast til þess að skrifa þetta. Allir hafa geymt símavandræði sín yfir helgina og drífa síðan í því að hringja í dag. Ég gerði ekkert í gær, fór semsagt ekki í búðir. Ég leit út um gluggann þegar ég vaknaði og tók snarlega þá ákvörðun að þetta væri innidagur. Ekki bætir það nú skapið að ég er gjörsamlega búin að snúa sólarhringnum við vegna asnalegu vaktanna á föstudags- og laugardagskvöld. 17-1 hvað er það??? Auðvitað fer maður ekki að sofa strax og maður kemur heim. Og svo þarf ég að vakna í fyrramálið því þá er ég á venjulegri dagvakt sem þýðir að ég verð lítið sofinn og þar með pirruð í vinnunni á morgun. Ohh þetta líf, eilíft nöldur og nagg.

laugardagur, nóvember 16, 2002

Nú erum við að horfa á box í sjónvarpinu. Fyrsta opinbera íslenska boxkeppnin að mér skilst. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ekkert voðalega spennandi, þeir eru bara að reyna að kýla hvorn annan. Núna er keppni milli tveggja 15 ára stráka íslensks stráks að nafni Axel og einhvers kana sem heitir Gary. Í þessari lotu er Axel víst að sækja sig. Er nú ekki svoldið sick að láta tvo 15 ára stráka keppa? Þeir eru svo ungir finnst mér. Rétt í þessu var verið að úrskurða að hann Gary hefði unnið, það var víst verðskuldað skv. Bubba. En skv. sömu heimild hefur hann Axel hjarta eins og búrhveli. Hvað sem það nú þýðir????

Jæja loksins eitthvað af viti, Jón Gnarr er kominn á sviðið, kannski verður hann skemmtilegri en þetta box. Annars virðast Breki og Ómar vera hrifnastir af kerlingunni sem gengur um með spjald sem stendur á hvaða lota er að byrja. Hún er alveg eins og í útlenska boxinu, lítt klædd eins og virðist tíðkast almennt í dag.
Óbrigðult merki um að jólin séu að nálgast er þegar bókatíðindi berast inn um bréfalúguna hjá manni. Reyndar er þetta eitt af þvi fáa ánægjulega sem kemur inn um lúguna þessa dagana, þvílíkt ógrynni af ruslpósti. Ég tók bókatíðindin með mér í vinnuna og nú er ég skv. venju að merkja með krossi þær bækur sem mig langar í. Ég tek mér langan og góðan tíma í þetta og les um flestallar bækurnar. Við þetta kemst ég í svo mikið jólaskap að ég er jafnvel að hugsa um að kíkja í búðir á morgun þar sem ég er ekki að vinna. Nú ætla ég nefnilega að skreyta heima og meira að segja hengja upp jólaseríurnar sem ég keypti í fyrra. Ég ætla líka í aðventumessu einhvers staðar, bara til þess að heyra Heims um ból live. Það er munur að geta verið svona afslappaður fyrir jólin, engin próf eða neitt. Kannski tek ég upp á því að baka smákökur. Birna systir er reyndar byrjuð að baka, þ.e. um síðustu helgi bakaði hún þrefalda uppskrift af súkkulaðibitakökum og þær kláruðust á tveimur dögum. En hún er reyndar svo mikill nammigrís.
Morguninn var erfiður. Ég vakti til næstum 4 í nótt og horfði á vídjó, gat bara ekki farið beint að sofa þegar ég kom heim úr vinnunni kl. 1. Svo vaknaði ég í morgun kl. 9 við hamarshögg. Það er semsagt verið að byggja bílskúr í garðinum mínum og glugginn minn vísar út að nýbyggingunni. Ég bý í 100 ára gömlu húsi svo að gluggar og veggir eru ekki mjög þykkir og þéttir. Ég varð því að flýja mitt heittelskaða rúm og fram í stofu og svaf á sófanum. Klukkan 12 vaknaði ég svo með bakverki því sófinn er ekki sá þægilegasti. Ég verð að fá mér eyrnatappa, verst að ég týni þeim alltaf.
Beh, það eru enn þrjú korter eftir...

föstudagur, nóvember 15, 2002

Mér sýnist að allir séu byrjaðir á þessu svo að ég verð að vera maður með mönnum og gera þetta líka. Ég ráfaði einhvern veginn inn á reykjalin.com, sem by the way er rosalega flott síða, og sá þar bloggið þeirra bloggsystra Dagnýjar og Evu ex bekkjarsystra minna úr MA. Þar voru svo linkar yfir á fleiri Gjéara, Auði, Valda, Huginn... og ég komst að því að það er svo miklu skemmtilegra að lesa blogg þeirra sem maður þekkir eða í það minnsta kannast við. Svo sá ég að hún Hrafnhildur vinnufélagi minn var að gera þetta og hún sýndi mér basic atriðin. Þetta verður voðalega einfalt fyrst, ég á eftir að læra að setja inn linka, myndir og þess háttar en það kemur seinna.
Svo þetta var forsagan. Þetta er annars ansi skondið form. Hér skrifa ég svona semi-opinberlega en samt veit ég ekki hvort og þá hverjir lesa þetta. Þetta er duldið eins og gamla dagbókin en samt ekki því hér er alls ekki hægt að skrifa allt. Ég get ekki skrifað hér hvað þessi eða hinn er leiðinlegur og ekki get ég tuðað yfir einstökum kúnnum ef einhver af yfirmönnum mínum skyldi lesa þetta. Það yrði sjálfsagt litið á það sem trúnaðarbrest eða eitthvað álíka. Hér verður semsagt hamrað inn allskonar bull og rugl á næstunni. Suma daga kemur inn heill hellingur sérstaklega þegar ég er á næturvöktum. En þegar ég verð í fríi verður bloggið líka í fríi. Það er nefnilega þannig að þegar ég er í fríi þá kem ég ekki nálægt tölvum, það er nóg að sitja fyrir framan þessi skrímsli í vinnunni. Ég held meira segja að ég hafi ekki kveikt á tölvunni minni heima síðan 3. okt. þegar í kláraði og skilaði BA-ritgerðinni.
Well, tíminn líður hægt núna ekki hratt eins og á gervihnattaöldinni í kvæðinu góða. Það er einn og hálfur tími eftir af vaktinni og lítið að gera. Svo sem ekki skrítið á þessum tíma sólarhringsins. Ég ætti að byrja á bókinni sem ég kom með í vinnuna, Útlendingurinn eftir Albert Camus, sem er víst í hópi þekktustu skáldsagna 20. aldarinnar ef marka má bakhlið bókarinnar. Ég verð að fara að drífa mig á borgarbókasafnið, þetta er síðasta bókin.

Jæja, þá er ég byrjuð að blogga.