miðvikudagur, júní 29, 2005

Minn er dauðuppgefinn. Eyddi deginum í verslunarleiðangri með Þórunni. Stúlkan útskrifast á morgun og þurfti að versla dress og veitingar fyrir útskriftarveisluna. Í gærkvöldi hitti ég svo Greg sem kom frá Póllandi til að verja verkefnið sitt. Frábært að hitta hann enda komið ár síðan ég sá hann síðan. Á morgun ætla ég svo að reyna að fá fund með supervisor Madsen og versla aðeins meira í bænum.
Jamm, nóg að gera.

Heitt, sturta.

sunnudagur, júní 26, 2005

Mömmur eru ákaflega sniðugt fyrirbæri. Virka 100%.
Þurfti að fara í flís í dag, ágætis veður en engin brjálaður hiti. Búin með fyrstu umræðuna á þingi um EES "bara" tvær eftir. Alveg merkilegt hvað þeir geta kjaftað mikið þingmennirnir. Fór og heimsótti Bínu, köttinn þeirra Þórunnar og Helga, en eigendurnir fóru í sumarbústað. Hún tók sérlega vel á móti mér, knúsaði mig í bak og fyrir.

Heimferð eftir viku, skrítið.

fimmtudagur, júní 23, 2005

Veðrið úti algjör draumur, ca. 25 stiga hiti, sól og smá suðvestan gjóla. Fór í rúmlega klst. gönguferð og í þetta skipti varð flíspeysan eftir heima. Vantar bara sólgleraugu.

miðvikudagur, júní 22, 2005

Það var Ólafi Þ. Þórðarsyni þingmanni Framsóknarflokksins sem vantaði betra púlt í umræðum um EES-samingi á 116. löggjafarþingi íslenska lýðveldisins haustið 1992.

Annars eru ræðurnar mjög misjafnar og mis "djúsí". Ingibjörg Sólrún er t.d. frekar fræðileg og laus við þjóðarrembing enda menntaður sagnfræðingur, Steingrímur J. er alltaf að skammast yfir því að einhverjir séu ekki í salnum til að hlusta á hann og Ólafur Ragnar er afskaplega langorður. Skemmtilegastir hingað til hafa verið Hjörleifur Guttormsson og áðurnefndur Ólafur Þ. Þórðarson. Hjörleifur fer í umræðum um EES að tala um 3. heiminn og að við eigum nú að standa með honum gegn auðvaldinu frekar en að ganga í eina sæng með auðvaldi þessu með EES samningnum. Ræða Ólafs er svo hin furðulegasta hingað til. Yfir henni sterkur þjóðernishyggju fnykur, allt er ómögulegt í Evrópu og gott á Íslandi. Þar segir meira að segja að Ísland sé nú bara yfirhöfuð ekki í Evrópu og að ítalska mafían sé inn í ESB og hvort við ætlum virkilega að gangast á hönd bandalagi með slíka glæpamenn innan borðs.

Jamms, svona er nú það.

þriðjudagur, júní 21, 2005

"Herra forseti. Hér kom fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl., sem e.t.v. hefði frekar átt að koma fram í þingskaparæðu, að það er mjög bagalegt hve erfitt er að hemja gögn hér í ræðupúltinu. Það er nánast vonlaust í þessu hallandi púlti að koma fyrir þeim gögnum sem eðlilegt gæti verið að menn hefðu með sér í ræðustól þegar þessi umræða fer fram og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um 2. umr. þessa máls, ekki þá sem nú fer fram. Þar sem hæstv. meginforseti var ekki við þegar þessi ósk kom fram, þá vil ég taka undir þetta sjónarmið og vænti þess að það verði tekið til athugunar af yfirstjórn þingsins".

Þetta finnst mér duldið skondið.
Búið að ganga á með þrumum og eldingum og tilheyrandi úrhellis rigningu síðan um kl. 9 í morgun. Ég hef því bara setið heima og lært enda ekki vert að vera þvælast eitthvað þegar veður eru válynd. Það er samt heitt þó sólina vanti. Mér hefur ekki orðið kalt eitt augnablik núna síðustu vikuna og í gær keypti ég mér sólarvörn sem fer að spreyja á mig um leið og sólin lætur sjá sig aftur. Skrítið að taka strætó frá Þórunni og Helga í gær bara í stuttermabol og buxum þótt það væri myrkur. Get bara ekki vanist þessu. Tek alltaf með mér peysu, maður veit jú aldrei hvenær von er á kaldri norð-austan gjólu. Maður er semsagt afskaplega mikið í útlöndum þessa dagana.

Er að lesa ræður alþingismanna frá umæræðum um EES saminginn árið 1992. Duldið skondið að lesa þessar ræður með tilliti til þess sem gerst hefur síðan þá sérstaklega í íslensku efnahagslífi. Á þessum tíma fannst þingmönnum það út í hött að eitthver íslensk fyrirtæki færu að hafa meira en 15 milljarða í ársveltu. Ég veit að þetta eru meira en 15 miljarðar að núvirði en samt mun minna en bankarnir, Síminn og fleiri fyrirtæki eru að velta á ári í dag. Þeim fannst líka mjög ólíklegt að íslensk fyrirtæki færu eitthvað að ráði út á erlenda grundu, til þess værum við bara of smá. Frekar var hættan sú að erlend stórfyrirtæki keyptu upp íslensk fyrirtæki í stórum stíl og yrðu fljót að því.

sunnudagur, júní 19, 2005

Klikkað veður úti. Hitinn upp undir 25 stig og glaðasólskin. Og ég sit inni. Ætla að læra aðeins en svo ætla ég að stelast aðeins út í góða veðrið.

Vídjókvöld í gærkvöldi, Meet the Fockers og Sylvia. Meet the Fockers ekkert spes, mun síðri en fyrri myndin en hægt að brosa út í annað á stöku stað. Seinni myndin betri, um ævi en þó aðallega dauða ameríska ljóðskáldsins Sylviu Plath.

En nú skal snúið sér að því að lesa ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar um EES frá árinu 1992. Jamm, eintóm gleði.

laugardagur, júní 18, 2005

Begga mín á afmæli í dag, orðin 27 ára stúlkan. Hringdi í hana áðan og hún ætlaði að fara rúnt með ömmu sína í tilefni dagsins.

Hálfgert andleysi hérna hjá mér. Hef nóg að gera og það er ekki einu sinni neitt sérlega leiðinlegt en kem mér bara ekki almennilega að því. Ætla þó allavega að setja í eina þvottavél á eftir. Dugnaðurinn alveg að drepa mann.

Fór í bíó í gærkvöldi með Dögg. Fyrir valinu var Mr. and mrs. Smith. Ágætis mynd, ekkert stórvirki en fín afþreying. Pittarinn flottur eins og oftast áður og með skemmtilegan húmor og Angelina Jolie er algjör töffari.

föstudagur, júní 17, 2005

Var að labba úr strætó áðan og sá þá hóp af nýstúdentum skríddum hvítum kollum á palli einhvers konar hertrukks. Við þessa sýn var mér hugsað til þess að ég útskrifaðist líka í júní mánuði fyrir einhverjum árum síðan. Nánar til tekið 17. júní fyrir sjö árum síðan í blíðskaparveðri norður á Akureyri. Og þá fattaði ég allt í einu að það er einmitt 17. júní í dag og ég get því fagnað sjö ára stúdentsafmælinu ef mér sýnist svo.
Jamm, það er fátt sem minnir á 17. júní, þ.e. að dagurinn sé þjóðhátíðardagur Íslendinga, hér í Álaborginni. En ég sakna þess reyndar lítið að vera heima, í minni sveit er sjaldnast haldið sérstaklega upp á þennan dag.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Endalaust bloggað í dag. Margir merkisdagar í vikunni. Afi á Melum átti afmæli í gær, 80 ára karlinn. Ég sendi honum skeyti á netinu, vona að það hafi komist til skila. Í dag hefði svo hún amma á Jaðri orðið 92 ára gömul en hún dó fyrir bráðum 15 árum. Besta amma í heimi. Og svo er náttúrulega 17. júní á morgun.
Var að fá sekt. Danska símafyrirtækið Telemore sektar mig um 7,5 kr. danskar fyrir að tala fyrir minna en 50 kr. danskar síðustu þrjá mánuðina. Reyndar get ég komist hjá þessu með því að tala upp í 50 krónurnar næstu tvær vikurnar eða svo. Þetta þýðir að ég þarf að finna einhvern/einhverja til að tala við fyrir ca. 42 kr. danskar. Ég verð að vanda valið.
Ógeðsleg skordýrin hér í borg á sumrin. Var úti að labba áðan og sá fjöldann allan af svona svörtum, stórum sniglum á gangstéttunum. Sumir voru greinilega enn á lífi og hreyfðu sig hægt og silalega eins venja er víst meðal snigla. Annað ógeð eru svo mauarnir sem farnir eru að rölta um gólf herbergisins míns. Þetta er svo sem enginn faraldur en ég er búin að stúta þeim nokkrum og farin að gerast svo frökk að einfaldlega stíga ofan á þá.

En maður á náttúrulega að líta á björtu hliðarnar, suma óáran er maður laus við hér eins og til að mynda danska Eurovision lagið. Já, ég þurfti að fara til Danmerkur til að losna við þetta leiðindalag. Hef ekki heyrt lagið eitt einasta skipti á labbitúrum mínum um græna grundu Álaborgar.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Svaka gott veður hérna í Áló í dag, sól og hitinn yfir 20 stigum. Fór í smá gönguferð og litli íslendingurinn næstum því stiknaði enda var ég með flíspeysuna bundna um mittið. Hef lært það að hafa alltaf peysu með mér sama hversu gott veðrið er því jú fljótt skipast veður í lofti. En það á kannski ekki jafn vel við hér og heima. Hitinn á svo víst að hækka enn eftir því sem líður á vikuna, 27 stig skv. spánni á sunnudaginn. Hef ekki verið í slíkum hita síðan sumarið 1999. Verð að muna að kaupa mér sólarvörn því ég væri vís með það að brenna.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Allt á uppleið í Danaveldi. Hitti superinn áðan og hann var bara jákvæður. Setti auðvitað út á nokkur atriði en ekkert stórt. Hann segist alveg sjá ritgerðina. Einnig sagði hann mér líka að kasta Noregi út, mér til mikillar gleði. Hann ráðfærði sig við kollega sína og þeir ákváðu að Ísland væri nógu stórt efni eitt og sér. Hann spurði mig svo um tímalimit, hvort ég ætlaði að reyna að klára fyrir jól. Samkvæmt honum þarf allavega sex mánuði í svona verkefni. Hann hefur semsagt ekki verið á íslenskum námslánum. Enskunni minni var líka hrósað og fær hún Begga mín stóra sneið af því hrósi. Síðast en ekki síst er sturtan komin í lag, nú sprautar hún sem aldrei fyrr, hefði átt að vera búin að kvarta undan þessu fyrir löngu.

Jæja, nú ætla ég í bæinn að kaupa mér strætókort og svo í búð og svona. Svo er bara mæting á bókasafnið kl. 9 í fyrramálið þar sem hafist verður handa við lagfæringar. Ætla vera svakalega dugleg núna áður en Þórunn og Helgi koma. Búast má við mjög reglulegu bloggi núna næstu vikuna því ég hef eitthvað fáa til að tuða í hér.
Það er ástand í kotinu. Ætlaði í sturtu í morgun en þá kom bara smá leki úr sturtunni. Sturtan varð því bara að smá kattarþvotti, engan veginn nóg vatn til að þvo sér um hárið. Þarf því að heimsækja húsvörðinn núna á eftir og skýra málið á fínu, fínu dönskunni minni.

mánudagur, júní 13, 2005

Komin enn á ný til Danmerkurinnar sem tók á móti mér með mígandi rigningu og 12 stiga hita. Veðrið var svosem nokkuð í takt við geðslagið sem gæti alveg verið betra eins og veðrið. Kvíði því að hitta "vonda" prófessorinn á morgun og er þreytt og slæpt eftir langt ferðalag. Ekki bætir úr skák að ég sé fram að verða hálf einmana næstu vikuna því Þórunn og Helgi eru stödd heima á Íslandinu.

Það er duldið skrítið einhvern veginn að koma hingað, þekkja allt en samt ekki. Herbergið mitt er líka skelfilega tómt og eyðilegt og einhverra hluta vegna var ekkert vatn í klósettinu, kom samt þegar ég prófaði að sturta niður. Semsagt eintóm gleði á Kollegivej 6 í kvöld.

Og Þórunn, hvar er fjarstýringin mín?

föstudagur, júní 03, 2005

Nóg að gera í dag. Kláraði innganginn og á nú bara eftir method áður en ég sendi þetta til supersins. Hef líka verið að snúast aðeins fyrir Beggu í dag en hún ætlar að skíra á sunnudaginn. Fór annars og hitti einhvern fjármálaráðgjafa í bankanum í morgun en um daginn var hringt í mig og mér boðið þetta. Í stuttu máli var þetta álíka árangursríkt og að ræða fjármál við huldufólkið hérna í höfðanum, ég hefði alveg eins getað sleppt þessu. Gat engu svarað og fannst líka greinilega bara yfirhöfuð óþarfi að vera að tala við mig þar sem ég er nú bara í námi.

Sjómannadagurinn er alveg á næsta leyti og í fyrsta skipti verður haldið upp á hann hér á laugardaginn. Það verður hellingur í gangi, róður og skemmtiatriði en líka þyrla frá gæslunni og nýja björgunarskipið verður skírt. Ég mætti líka hálfu kauptúninu þegar ég var að koma frá Blönduósi áðan, allir að ná í ríkið fyrir lokun.

Kominn dagur á Danmerkurreisu. Fer viku seinna en áætlað var eða annan mánudag, 13. júní.