mánudagur, mars 31, 2003

Komin aftur í sollinn. Átti mjög góða daga heima. Gerði þó minna en til stóð, er það ekki alltaf þannig? Ætlaði að fara til Akureyrensis en bíllinn minn var ekki sáttur við það. Hann eyddi því föstudeginum í yfirhalningu hjá Badda en ég eyddi einum degi í viðbót upp í sófa.

Horfði á geysilega mikið og skemmtilegt sjónvarpsefni. Sky news var duldið vinsæl sökum stríðsfrétta sinna, horfði m.a. á blaðamannafund þeirra félaga Bush og Blair. Ég var að flestu leyti ósammála þeim báðum en það sem Blair sagði hljómaði þó ekki eins víðáttu heimskulegt og það sem kom frá Bush. Maðurinn er bara hálfviti, hann segir einhverja eina setningu og svo staglast hann bara á því það sem eftir er. Heilinn á honum býr sjálfsagt bara til eina setningu á dag.

Eurosport var líka heit þessa vikuna. Þar var verið að sýna heimsmeistaramótið í listdansi á skautum. Hérna í gamla daga sýndu þeir svona stundum á Rúv en nú er það bara Formúlan og þýski boltinn. Heimsmeistaramótið var haldið í Washington í Bandaríkjunum og það voru 2 kanar sem sáu um að segja mér frá tvöföldum og þreföldum "toe" og öðru slíku. Eitt sló mig svoldið. Í paradansinum var eitt par, kanadískt að mér minnir, sem dansaði við tónlist John Lennon og klæddust búningum sem áttu að minna á 7. áratuginn, blómabörn og frið. Þessu voru hinir könsku kynnar ekki hrifnir af, bæði væri þessi tónlist ekki hentug til skautaiðkunnar (afhverju veit ég ekki) og hún væri ekki við hæfi vegna ástandsins í heiminum. Æi mér fannst þetta asnalegt. Þau voru náttúrulega löngu búin að semja þetta atriði áður en Runninn ákvað að gerast stríðsmaður og svo held ég nú reyndar að ef það einhvern tímann við hæfi að vera með friðarboðskap þá er það á tímum eins og þessum.

Þrátt fyrir mikið sjónvarpsgláp hætti ég mér stöku sinnum út úr húsi. Ég fór nokkrum sinnum með Tönju Kristínu út að labba. Nú er hún komin á þann aldur að það er alveg svakalega gaman að vera úti. Í stað þess að grenja bara þegar ég fór með hana á leikvöllinn eins og hún gerði síðast, var hún bara hæst ánægð hjá mér. Ég gat meira segja huggað hana þegar hún datt og svona. Síðan bendir hún á allt í kringum sig og segir "þessa" eða eitthvað slíkt og þá á maður að segja henni hvað þetta er. Ég sem guðmóðir barnsins taldi mér skylt að standa mig í hlutverki uppfræðarans og endurtók því orð eins og bíll, steinn, gras, hús, gangstétt í gríð á erg á leið okkar um kauptúnið Skagaströnd. Hún er semsagt farin að segja ýmis orð en einhverra hluta vegna var hún ófáanleg til þess að segja nafnið mitt eða eitthvað í þá veru. Oft á dag var "þóra" sagt við hana en hún sagði alltaf "fídí", ekki veit ég afhverju barnið kallar mig þetta en ekki einhverju sem líkist eitthvað nafninu mínu. Hún gat sagt mamma, pabbi, afi, amma, bolti, epli, kók o.s.frv. nokkuð skammlaust. Á endanum var bara farið að vísa til mín sem "fídí" og Tanja skildi það alveg til jafns við þórunafnið.

Semsagt gott frí í alla staði.

sunnudagur, mars 23, 2003

Ég er að fara heim á morgun og hlakka svaka til. Ekki einu sinni bölvað stríðið getur komið mér í slæmt skap núna.

fimmtudagur, mars 20, 2003

Jæja þá eru blessaðir kanarnir farnir að marsera inn í Írak. Vonandi verða þeir fyrir sem allra minnstri mótspyrnu svo að þessu ljúki nú sem allra fyrst með sem minnstu mannfalli. Það er alltaf hægt að vona.
Bloggerinn er alveg ómögulegur þessa dagana, færslurnar mínar birtast aldrei fyrr en daginn eftir. Drasl.

miðvikudagur, mars 19, 2003

Nú eru heilsudagar Þóru komnir í gang. Þess vegna sit ég hér við tölvuna fyrir hádegi að borða aðra máltíð dagsins. Máltíðin inniheldur eina appelsínu og er þetta fyrsta appelsínan sem ég borða á þessu ári. Önnur afleiðing þessara heilsudaga er að annan daginn í röð er ég með geysimikla strengi í hinum ýmsu vöðvum í neðri hluta líkamans sem ég vissi ekki að væru til. Göngulag mitt er því sérlega þokkafullt þessa dagana.

þriðjudagur, mars 18, 2003

Ég held að ég upplifi nú í fyrsta skipti á ævinni virkilegar og raunverulegar áhyggjur af heimsmálunum. Georg Runni ætlar sér, hvað sem það kostar, að fara í stríð við Írak. Þetta er mér, óbreyttum áhorfandanum, gjörsamlega óskiljanlegt. Í fyrsta lagi skil ég ekki afhverju á að fara heyja þetta stríð. Jú, jú það er hægt að þvaðra eitthvað um olíuhagsmuni og mannúðarástæður en ég kaupi það ekki, þá hefði verið búið að fara í þetta stríð mun fyrr. Svo skil ég ekki heldur leiðina frá 11. september og Osoma Bin Laden til Saddams Hussein og Íraks. Fyrir utan þetta þá skil ég ekki afhverju einhverjum heilvita manni dettur í hug að fara í stríð yfirleitt. Ef eitthvað má læra af 20. öldinni er það að stríð eru hræðileg og það ber að gera allt til þess að koma í veg fyrir þau. Það stendur þá eftir er að Georg kani sé ekki heilvita maður, ætli það sé ekki bara málið. Skuggalegt að slíkur maður sé valdamesti maður heims.

laugardagur, mars 15, 2003

Vá, ég nenni bara ekkert að blogga í dag. Samt hefur verið lítið að gera.

föstudagur, mars 14, 2003

Hér við hliðina eru byggingaverkamenn að störfum en þeir eru að byggja nýtt og flott hús. Þetta eru að sjálfsögðu miklir töffarar og í dag þegar ég var á leiðinni út í búð tók einn þeirra sér far ofan af 3. hæð byggingarinnar með byggingarkrananum. Mér fannst hann næstum óbærilega svalur og átti erfitt með mig.

fimmtudagur, mars 13, 2003

Nú hringja allir ellilífeyrisþegarnir í Tryggingastofnun vegna ummæla Geirs H Haarde á þingi í gærkvöldi. Þar sagði hann víst að íslenskir ellibelgir fengju 136 þús. á mánuði frá ríkinu. Eðlilega kannast enginn við þessa tölu enda er hún um x2 hærri en ellilífeyrir er í raun. Pirrandi þegar stjórnmálamenn í kosningamóð valda aukaálagi á starfsmenn ríkisstofnanna með heimskulegum ummælum sínum. Vonandi fer enginn að tjá sig um símakostnað á þinginu.
Það er erfitt að tala við fólk í síma sem talar hvorki íslensku né ensku. En ég veit líka að ég verð að vera þolinmóð og reyna eins og ég get því þetta er enn erfiðara fyrir fólkið en mig. Það er víst alltof algengt að útlendingar lendi í því að fólk í þjónustugreinum nenni ekki að aðstoða það sökum tungumálaerfiðleika. Því reyni ég að vera góð og þolinmóð.
Mér líður eitthvað svo furðulega í dag eins og reyndar síðustu daga. Ég er einhvern veginn hálf sljó og finn fyrir tilfinningu sem líkist einhverskonar svima. Þetta er skrítið og ég hef aldrei fundið fyrir þessu áður. Ef ég hefði heimilislækni þá færi ég jafnvel til hans en í velferðarríkinu Íslandi er erfitt að verða sér út um einn slíkan. Vona því bara að þetta hverfi.
Jæja þá er ég kominn heim frá útlandinu eftir vel heppnaða ferð. Prófið gekk fínt og mér leist vel á Köben. Annars virðist mér við fyrstu sýn þetta vera ansi líkt Íslandi. Það eru samt nokkrir hlutir sem ég tók sérstaklega eftir hjá Dönum.
-Danir eru ákaflega hrifnir af múrsteinum, þakskífum og mikið hallandi þökum. Kom á óvart hversu ólík húsin eru hér og þar.
-Þeir reykja bókstaflega allsstaðar t.d. í lestunum og verslunarmiðstöðvum. Stærsti gallinn sem ég kom auga á.
-Hjól og hjólabrautir. Það eru allir hjólandi á þar til gerðum brautum meðfram götunum. Skondið að sjá konur í pelsum og háhæluðum skóm hjóla á fullu.

Svo var alveg merkilegt að hvað ég skildi mikið í dönskunni þó ég svaraði nú yfirleitt á ensku. En nú er bara að vinna í 10 daga áður en næstu skemmtilegheit koma. Vinnuleiði frá helvíti.

laugardagur, mars 08, 2003

Það er enn klukkutími eftir af vaktinni og ég verð að viðurkenna að ég er að verða ansi syfjuð. Vaktin hefur nýst ágætlega því auk þess að tala við misjafnlega edrú einstaklinga las ég í gegnum TOEFL bæklinginn svo nú er ég mun fróðari um þetta próf sem ég er að fara í á mánudaginn. Ég er líka búin að horfa á nokkrar bíómyndir með öðru auganu og tvo Friends þætti með næstum fullri athygli.
Úff þetta er að verða ansi erfitt, mikið svakalega ætla ég að sofa á eftir. Þegar ég vakna svo úthvíld og endurnærð fer ég í mat til ömmu og afa. Ég nenni ekki einu sinni niður að ná í Moggann.

föstudagur, mars 07, 2003

Þvottavélin mín er orðin heilbrigð aftur og Addi rafvirki er óumdeilanlega maður dagsins. Ferðalagið upp í Breiðholt reyndist því ekki vera nauðsynlegt. Þvottavélin virðist þó hafa smitað mig af veikindum sínum, ég er komin með smá hálsbólgu og kvef. Mér er nú farið að þykja nóg um, þetta er í annað skiptið á þessu ári sem ég fæ þessa kvilla. Ég verð að fara að gera eitthvað í þessu eins og að borða hollan mat og hreyfa mig og sjá hvert það leiðir mig.
Addi rafvirki vakti mig með hringingu um kaffileytið í gær til þess að tilkynna komu sína til þess að líta á þvottavélina. Hann var að vísu búinn að koma x2 áður, fyrst til þess að fá sjúkdómslýsingu og annað skipti til þess að framkvæma frumsjúkdómsgreiningu. Í gær var hún svo sjúkdómsgreind, þ.e. Addi fann útleiðsluna en hún er í litlu stykki ofan á vélinni. Vandamálið er bara að hann veit ekki hvaða stykki þetta er, innviðir þvottavéla eru víst nokkuð mismunandi eftir tegundum og þvottavélin mín heitir Hoover sem er ekki ein af þessum algengustu tegundum. Svo ég á von á fjórðu heimsókn Adda rafvirkja í dag og þá verður hann væntanlega búinn að finna út hvaða stykki þetta er hjá umboðsaðila Hoover sem er Pfaff á Grensásveginum. Og þá fer vonandi að koma í ljós hvort þvottavélin lifir áfram eða fer á haugana.

Í beinum tengslum við þetta er skipulögð þvottaferð í Breiðholtið seinnipartinn í dag. Allt er orðið skítugt sem orðið getur svo að þetta ferðalag verður ekki umflúið. Það verður reyndar duldið skondið að hanga í íbúðinni hennar Ásu meðan við þvoum eins og tvær vélar. En það er víst ómögulegt að fara í skítugum leppum til gamla herraríkisins.

fimmtudagur, mars 06, 2003

Þvottavélin mín er biluð og eins og þeir vita sem upplifað hafa er það mjög bagalegt. En ég á góða að. Addi fyrrverandi rafvirki vinur afa og ömmu ætlar að sjá hvað hann getur gert fyrir mig. Þau þekkjast frá því þau voru saman í Reykjaskóla fyrir rúmum 50 árum. Ég sé að ég verð að reyna að halda meiri sambandi við skólafélaga mína svo þeir geti aðstoðað barnabörnin mín í framtíðinni. En nú skal haldið heim á leið í rúmið eftir langa nótt.

þriðjudagur, mars 04, 2003

e
Kynntist nýrri hlið höfuðborgarinnar í morgun. Klukkan átta var ég stödd í Hafnafjarðarveginum hjá Hamraborginni á leiðinni inn í sjálfa Reykjavík á 30 km hraða. Ég vaknaði kl. hálf sex í morgun til að keyra Ásu og Lindu Maríu út á flugvöll og lenti í þessu umferðarhveiti (eins og sumir myndu nefna fyrirbærið) á leiðinni heim. Ótrúlegt en satt þá varð ég ekkert pirruð vegna þessa. Þvert á móti var ég ánægð með að þurfa ekki að standa í þessu á hverjum degi og yfirleitt að þurfa ekki að keyra bíl á hverjum degi. Það er svo margt sem getur glatt mann.

mánudagur, mars 03, 2003

Feginn að ég var ekki að vinna í bakaríi í dag þá er nú skárra að vinna hér. Á bolludaginn fyrir heilum fjórum árum síðan vann ég í bakaríi, það var ekki gaman. Ég entist í þeirri vinnu í fjóra mánuði. Ég fór í gamla bakaríið mitt í gær og þar var stelpa að vinna sem vann með mér á sínum tíma. Undarleg ending.
Sigrún hittir svo naglann á höfuðið í blogginu sínu um "sterku konuna". Það er gjörsamlega óþolandi að maður skuli vera talin á einhvern hátt óeðlilegur vegna þess að það vill svo til að maður hugsar endrum og eins og er líka kona. Ég hef fengið það á mig að ég sé á einhvern hátt spes vegna þess að ég veit eitthvað smá um stjórnmál og hef jafnvel myndað mér skoðun á þeim. Og ég er talin alveg sérstaklega órómantísk vegna þess að mér dreymir ekki um brúðkaupið mitt löngum stundum. Væri því haldið fram ef ég væri karlmaður? Það er óþolandi að vera dæmdur og metin út frá einhverjum óskrifuðum kvennstöðlum.
Ég var kölluð elsku dúllan mín af kúnna áðan. Hann var líka óskaplega ánægður með mig af því að ég borða saltkjöt og veit hvað hvít sósa eða uppstúf er. Hann sagðist hafa farið í Europris og þar hafi starfsfólkið ekki vitað hvað þetta væri. Sagnfræðin er greinilega að borga sig.
Jibbíkóla mars er kominn og febrúar farinn. Mér hefur alltaf fundist janúar og febrúar leiðinlegustu mánuðir ársins, dimmt, kalt, langt í sumarið, jólin búin. En mars þýðir hins vegar að dagurinn er farinn að lengjast verulega og vorið að nálgast. Mars þetta árið verður líka óvenju ánægjulegur sýnist mér. Á sunnudaginn fer ég til Kaupmannahafnar til þess að taka TOEFL ensku prófið en það er víst erfitt að taka það hér heima um þessar mundir. Og fyrst ég er að fara þarna á annað borð ætla ég að stoppa aðeins, í þrjá daga, og sjá smá af gömlu höfuðborginni.

Svo í lok mánaðarins ætla ég að taka mér frí í tvo þannig að ég geti farið heim og verið þar í næstum viku. Þetta þýðir að í dag er eintóm gleði þrátt fyrir að ég sé í vinnunni.

laugardagur, mars 01, 2003

Þoli ekki þegar ég er kölluð "elskan mín" af kúnnum i símanum. Það er bara pabbi sem kallar mig þetta.
Gerðum okkur pínulítinn dagamun í gær og fórum út að borða. Fengum okkur kínverskan og meira að segja vínflösku með. Matuinn var fínn, sérstaklega kjúklingurinn með cashew hnetunum en núðlurnar hefðu mátt vera bragðmeiri. Síðan fórum við á Hverfisbarinn þar sem ég hitti hana Heiðrúnu frænku mína sem ég hef ekki hitt í háa herrans tíð. Miklir fagnaðarfundir það. Fengum okkur nokkra bjóra en ég var ekki alveg í fílingnum svo að ég fór bara heim um miðnætti. Minn "betri helmingur" hitti hinsvegar eitthvað fólk svo að ég fékk ekki samviskubit að fara svona snemma heim. Við erum að verða eins og hjón, búnar að búa alltof lengi saman. Eins gott að það tekur bráðum enda.