miðvikudagur, desember 22, 2004

Fór í klippingu kl. 10 í morgun í þessu líka fína veðri. Tíu mínútum seinna var hann skollinn saman og rúmlega tólf þurfti ég að keyra heim í fljúgandi hálku og blindu. Gekk svosem ágætlega þangað til í brekkunni hérna í götunni minni þar sem alltaf kemur snjór um leið og ég á að vita það en ég ákvað nú samt að reyna og festi mig náttúrulega. Sindri þurfti að kyppa mér upp á jeppanum og ég var orðin ansi blaut og köld þegar ég kom heim enda bara í gallabuxum og flíspeysu. En hárið á mér er allavega svaka fínt.

Við systurnar tókum okkur líka til og bökuðum smákökur í dag og ég ákvað að rækta aðeins guðmóðurhlutverk mitt og las vísurnar um Grýlu, jólasveinanna og jólaköttinn eftir Jóhannes úr Kötlum fyrir Tanusinn. Þessar vísur teljast kannski ekki til hefðbundins trúarlegrar fræðslu en ég tel ekki síður skyldu mína að fræða barnið um íslenska þjóðtrú og menningu en Jesú og félaga. Einhverra hluta vegna er hún sannfærð um að Grýla sé karl og hef ég eytt töluverðu púðri í að leiðrétta þennan leiða misskilning. Ég dreg heldur ekkert undan í því að bæði Grýla og kisan éti börn að ákveðnu tilefni. Er það kannski alveg hræðilegt á þessum síðustu og verstu? Er ég kannski að valda barninu óbætanlegu tjóni á sálinni? Úff, það vona ég sannarlega ekki.

þriðjudagur, desember 21, 2004

Komin heim á ströndina og búin að liggja í leti í tvo daga. Það eina sem geri eiginlega er að borða og sofa, mikið. Á morgun þarf ég þó að hafa mig á fætur fyrir allar aldir og mæta í klippingu. Ég þarf líka að skrifa og senda jólakort, pakka inn gjöfum, skrifa mail til kennarns míns og skrifa. Ég hef því í rauninni nóg að gera. Í dag reyndar hjálpaði ég pabba að þvo gluggana að utan og svo bakaði ég pizzu.

Djöfull sem það er annars vindasamt hérna. Maður finnur svo sannarlega fyrir því þegar maður kemur úr hægviðrinu í Osló. Ég held að ég sé óþolandi þessa dagana, alltaf að tala um Norge og Osló. En svona er það bara.

laugardagur, desember 18, 2004

Síðasta blogg frá Osló. Ég er búin að pakka niður og bara alveg tilbúin fyrir utan það að ég á eftir að kaupa nokkrar jólagjafir. En ég geri það sem ég get á eftir og hitt verður bara að mæta afgangi. Allar áætlanir eru reyndar að breytast, Birna kemur líklega ekki suður að sækja mig en í staðinn ætlar mamma að splæsa á mig flugi á sunnudaginn norður á Sauðárkrók. Það er sko dekrað við mann, ekkert fjandans rútukjaftæði.

föstudagur, desember 17, 2004

Síðasti dagurinn í vinnunni. Heim á morgun. Talsverður tregi í gangi. "Jóladrykkur" hér í vinnunni í gær, kalla þetta ekki glögg því það var ekkert glögg. Það var ágætt því sem betur fer hafði Hulda boðið Ágústi svo ég hafði einhvern við að tala á ástkæra ylhýra. Ég á "bara" eftir að kaupa nokkrar jólagjafir og þrífa herbergið mitt. Þessu ætla ég að redda í kvöld og fyrramálið því flugið er ekki fyrr en eftir hádegi. Svo er það bara heja Norge. Flugið verður reyndar dásamlega stutt og þægilegt, engar langar lestarferðir eða margra klst. bið á flugvelli. Birna og pabbi ætla svo að sækja mig í Leifsstöð og það sem meira er þá ætla Birna og Sindri og Tanja náttúrulega að vera heima á ströndinni yfir jólin. Það er bara frábært. Það verður eins og alltaf æðislegt að koma heim. Verst bara hvað er kalt á Fróni þessa dagana.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Nú er maður farin að fylgjast með veðurspánni heima, hvort það verði gott færi norður yfir heiðar á laugardaginn og sunnudaginn. Þetta er nefnilega ekki eins og veðurfarið hér í Osló, mismunandi mikið logn og hitinn yfirleitt rétt undir eða yfir frostmarki.

Annars vil árétta það að ég ætlast til þess að fólk sé heima og svari í símann þegar ég hringi. Er búin að vera að reyna að ná í þær Hildi og Beggu síðustu daga en ekkert hefur gengið. Annað hvort svarar enginn, það er á tali eða þær ekki heima en að vísu hringi ég bara í heimasímana. Að þær hafi eitthvað annað og betra að gera núna fyrir jólin en að sitja heima og vonast eftir símtali frá elsku mér er algjörlega óhugsandi.

mánudagur, desember 13, 2004

Ég verð alltaf depressed þegar ég skoða fasteignaauglýsingar blaðanna. Ef ég ætti nefnilega að haga mér skv. formúlunni þá ætti ég næsta sumar að loknu námi í útlandinu að fá mér vinnu og kaupa íbúð. Verst er að íbúðir, í Reykjavík þ.e., eru ógeðslega dýrar og fara alltaf hækkandi. Ég yrði líka að geta borgað þetta bara af mínum tekjum þar sem enginn ektamaður er til staðar eða í augsýn. Það er þá spurning hvort ég eigi nokkuð að vera að þessu. Hvort ég eigi ekki bara að standa upp eins og alki á AA-fundi og segja já, ég er 26 ára kona, einhleyp, barnlaus og eignalaus og mig langar bara ekkert til þess að breyta því. Jafnvel bæta því við að ég ætli ekki einu sinni að gerast nýtur þjóðfélagsþegn og greiða skuld mína við samfélagið með því að fara út á vinnumarkaðinn heldur ætli ég barasta að halda áfram að læra. Já, það er nýjasta hugdettan. Að gefa bara skít í þetta allt saman og fara í einn skólann enn og halda áfram að vera fátækur námsmaður og safna skuldum. Á maður annars ekki að gera það sem maður gerir best.
Hlusta oft á rás 2 í vinnunni. Oftast fínt en sumt er nú bara ekki hægt að hlusta á. Nú eru t.d. hinir svokölluðu "kótelettukarlar" að tjá sig eitthvað um megrunina sem þeir eru í, alveg einstaklega óáhugavert. Ég meina hverjum er ekki sama um hvað mörg kíló einhverjir tveir karlar hafa misst síðustu vikuna. Gott fyrir þá náttúrulega en varla útvarpsefni. Tek þann kost frekar að slökkva í bili og hlusta frekar hljóðið í ryksugunni hérna frammi.

sunnudagur, desember 12, 2004

Bond á NRK 1. Timothy Dalton sem Bond. Hef aldrei líkað við hann. Hann er of grófur.


Leið mín lá í hús Mammons eftir hádegi í dag eða Oslo City sem verslunarmiðstöð hérna rétt hjá. Ætlunin var að versla nokkrar jólagjafir en ég endaði með tvennar buxur á sjálfa mig, afskaplega vel að verki staðið verð ég að segja. Þannig að ég verða fara aftur seinna í vikunni því ég vil nú helst ljúka þessu af hér í Norge. Annars er bara endalaus lestur þessa helgina, er að rúlla upp nýju bókinni hans Baldurs Þórhallssonar um Ísland og ESB. Líklega næ ég að eiga bara eftir um 100 bls. lestur þegar ég kem heim og þessar bls. (reyndar sex en ekki fjórar) sem ég þarf að skrifa um internshipið. Það ætti svosem ekki að vera mikið mál, ef maður kæmist í stuð væri auðveldlega hægt að hespa því af á einum degi.

Og í sambandi við fríu símtölin þá er þetta eitthvað í gegnum breiðband. Veit ekki nógu mikið um þetta. Maður borgar bara eitthvað ákveðið á mánuði, einhvern 2000 kall, og þá getur maður legið í símanum til útlanda. Veit svosem ekki hvað innanlandssímtölin kosta ef eitthvað enda hringi ég ekki svo mikið hér innanlands.

laugardagur, desember 11, 2004

Kannski spurning um að fara að gera eitthvað. Er ekki að nenna að skrifa þessar aumu fjórar bls. fyrir skólann um veru mína hér í Norge. Á morgun er það svo jólagjafaleiðangur, bara vika í heimferð. Talaði við fjölskylduna í svona 2-3 tíma í gærkvöldi m.a. við hann föður minn í fyrsta skipti síðan ég fór út eða í þrjá mánuði. Ástæðan fyrir þessu málæði er ekki heimþrá enda hefur hennar nær ekkert orðið vart þetta misserið heldur frí símtöl til útlanda. Já, nú get ég hringt hvert sem er innan Evrópu og Bandaríkjanna án þess að blæða. Birna og fjölskylda ætlar líklegast bara að skella sér suður og sækja mig í Leifsstöð. Afskaplega vel þegið. Hinn aðal tilgangur ferðarinnar er að heimsækja afa og ömmu, þau hafa ekki séð Tanusinn í ár eða svo sem er náttúrulega bara mannréttindabrot.

Það er einn sem ég á ekki eftir að sakna þegar ég fer héðan, kötturinn Sambucka. Fyrir utan þetta venjulega, helvítis kattarhárin og skítinn og hlandið, þá er hann alltof kelinn fyrir minn smekk. Ég má ekki sitja fram í stofu án þess að kvikindið komi og leggist ofan á mig, setji loppurnar um hálsinn á mér og reyni að sleikja á mér andlitið. Ekki beint aðlaðandi finnst mér. Ég kýs frekar karldýr minnar eigin tegundar og þeir verða fyrst að fá leyfi.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Gvvööð minn góður hvað ég var að lesa leiðinlega grein. Hann Gunnar ekki vinur minn Grendstad fær engar stjörnur, bara prump og ekkert annað.

Það var annars fínt í dinnernum í gær. Maturinn var góður og vínið líka. Mesta athygli mína vöktu þó aðrir þættir eins og veitingahúsið sjálft og starfsfólkið. Þetta var í svona gömlu, rosalega flottu húsi og við sátum í vínkjallaranum, já, vínflöskum staflað upp við alla veggi, sannkallað helvíti (eða himnaríki) alkans. Borðbúnaðurinn var líka allur mjög massívur, ég held að undirdiskurinn (eða hvað hann heitir diskurinn sem er allan tímann á borðinu fyrir framan mann og hinir diskarnir eru alltaf settir ofan á) hafi verið svona allavega kíló á þyngd. Þjónarnir héldu síðan tölu í hvert skipti sem nýr réttur birtist á borðum og ekki mátti maður fara á klósettið án þess að munnþurrkan væri brotin saman og svo lögð með tilþrifum aftur í kjöltuna á manni þegar maður settist aftur við borðið. Þeir sem þekkja mig geta rétt ímyndað sér svipinn á mér þegar ókunnugur maðurinn tók í fyrsta skipti upp á því að fara að leggja einhvern klút ofan á lærin á mér bara sisvona. Sendiherrann hélt líka afskaplega fallega tölu um okkur starfsnemana sem erum að hætta og við fengum svo gjafabréf í bókabúð hér í borg.
Ég er reyndar farin að hallast að því að ég verði bara að henda slatta af gömlum fötum og svona því annars endi ég með að borga hellings yfirvigt við heimkomuna. Þarf að koma fyrir einhverjum bókum og blaðabunkum ásamt jólagjöfum. Fötin verða því greinilega bara að fjúka. Sem minnir mig á það, 10 dagar í dag í Íslandsför. Æ, það verður nú ljúft að koma heim.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Í kvöld er jóladinner fastanefndarinnar. Snæddur verður fjögura rétta kvöldverður á veitingahúsinu Le Canard hér í Oslóborg. Á matseðlinum er m.a. humar frá vesturlandinu grillaður í skelinni með estrógonsméri og chayennepipar. Hann verður framreiddur í appelsínubrasaðri (appelsinbraisert) fenníku (fennikel) og kóralkremi (korallkrem). Sjálfsagt voða gott. Sá réttur sem veldur þó mestri eftirvæntingu hjá mér er hreindýrakjötið, "Rendyr fra Röros, filet og larplomme stekes með timian serveres með cognacglaseret willaimspære, mandelpoteter smaksatt með pancetta steinsoppsjy". Veit einhver annars hvað vilhjálmspera er? Eða pancetta steinsoppsjy?

mánudagur, desember 06, 2004

Nú notar annar hver maður orðið -tittur um sjálfan sig eða aðra sem á að vísa í hæðni til orða Doddsonar í síðustu viku. Ég er reyndar fyrrverandi bensíntittur og meina það bókstaflega án nokkurar vísunar ummæla til háttvirts utanríkisráðherra og skammast mín svosem ekkert fyrir það. Svo vona ég bara að ég sé ekki líka tittur af neinum öðrum og verri toga. Hver veit. Sjálfsagt Dabbi.

sunnudagur, desember 05, 2004

Í gærkvöldi var steðjað í smá teiti á hið nýja heimili Carmenar (kærustu Kamrans meðleigjanda míns). Rétt fyrir þrjú var svo ákveðið að drífa sig út og var það hann Carlton frá New York sem ákvað hvert skyldi haldið. Við enduðum í einhverjum soul og fönk klúbb. Mér leið eins og ég væri komin inn í sjöunda áratuginn, það vantaði bara afróið. Fólkið á staðnum var líka margt furðulega klætt, stelpur sem litu út eins og Twiggy og strákar með bítlahár. Ég hef líka aldrei séð stráka dansa eins þeir gerðu þarna. Fæturnar á þeim sumum beygðust og bognuðu á einhvern undarlegan hátt svo ég varð virkilega að passa mig á að benda ekki á þá og skella upp úr. Flestir ef ekki allir karlmenn sem ég þekki myndu aldrei, aldrei nokkrun tímann, framkvæma slíkar fótahreyfingar.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Djöfuls óyndi í mér í dag. Veit ekki alveg hvað veldur.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Fór upp í fjall með Huldu og Ágústi í gær þar sem við renndum okkur á sleðum. Þetta voru svona þungir járnsleðar sem maður leigir og rennir sér síðan í gamalli bobbsleðabraut síðan á Ólympíuleikunum í Osló sem voru einhvern tímann frekar snemma held ég á síðustu öld. Salibunan tekur svona 10-15 mín. og svo tekur maður bara lestina upp eftir aftur. Afskaplega sniðugt system. Þetta var bara frábært, að renna sér í myrkrinu á upplýstri brautinni milli hæstu grenitrjá sem ég hef séð á ævinni og fá snjógusurnar öðruhverju yfir sig eins og þegar maður var krakki. Ég náði líka bara nokkuð góðu valdi á þessu þó ég segi sjálf frá, var allavega alltaf á undan sumum niður. Það var afskaplega gott að koma svo heim og fara í heita sturtu því ég var orðin ansi blaut og svoldið köld og bakið er ekki alveg sátt við meðferðina enda brautin orðin ansi holótt undir lokin. En hverjum er ekki sama.