fimmtudagur, september 29, 2005

Það virðist sem Skjár einn sé haldinn íslensku fælni á háu stigi. Leitin að íslenska bachelornum heitir nýji þátturinn þeirra. Af hverju ekki að nota bara orðið piparsveinn sem ég hélt að væri gott og gilt og allir skildu. Svar þeirra Sirkus manna er þó á íslensku, ástarfleyið. Er annars ekki enn búin að taka ákvörðun um það hvort maður eigi að vera að fylgjast með þessari lágkúru sem þessir þættir eru dæmdir til að verða. Sirkus næst reyndar ekki hérna á ströndinni en hinu gæti ég fylgst með. Það verður sjálfsagt varla talandi við mann á mannamótum ef maður hefur ekki í það minnsta fylgst nóg með þessu til þess að geta hneykslast. Ég ætla hins vegar að fylgjast með idolinu og er farin að sigta út heimili með stöð tvö sem ég gæti heimsótt annað kvöld. Í idolinu eða stjörnuleitinni er þó verið að keppa í einhverju almennilegu. Ekki um "ást" einhvers plebba.

miðvikudagur, september 28, 2005

Fór á fund um sameiningarmál í félagsheimilinu í gærkvöldi en til stendur að sameina Skagaströnd, Blönduós, Skagabyggð og Áshrepp. Þetta var ágætur fundur þótt hann væri ansi langur eða næstum þrír tímar. Mæting var sæmileg og félagsmálaráðherra var mættur á svæðið. Það eru nokkuð skiptar skoðanir um ágæti sameiningar heyrist manni en ég held það næstum alveg öruggt að þetta verði fellt hérna. Málið er að það að virðist vera voðalega óljóst hvað myndi raunverulega breytast við sameiningu, til að mynda hvernig stærsti málaflokkurinn skólamálin myndu verða. Ég er í prinsippi fylgjandi sameiningu þó ég sé í mörgu sammála þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á þetta ferli og framkvæmdina. En ég kýs ekki því ég er ekki á kjörskrá. Lögheimili mitt er víst úti í Áló.

Hérna er svo sönnun þess að það er ekki að ástæðulausu sem ég hef verið að kvarta undan veðrinu undanfarið. Vindstyrkurinn fór víst allt upp 35 m/s í hviðum á mánudaginn.

þriðjudagur, september 27, 2005

Nokkrir punktar

-Ég elska sjalið sem Hulda gaf mér út í Noregi.
-Ég er með talsverða strengi í fótunum.
-Þetta veður er að gera mig vitlausa.
-Það er komið gat á sólann á hægri skónum mínum þannig að ég blotna í fæturna.
-Ég er búin að panta flug til Köben í október.
-Ég skrifaði take a decision áðan í staðinn fyrir make a decision.

mánudagur, september 26, 2005

Varðandi Baugsmálið... nei ég held ég sleppi því bara að tjá mig eitthvað um það að ráði. Veit ekki hverju eða hverjum ég á að trúa. Finnst eiginlega merkilegast í þessu hvað blöðunum virðist óhikað vera beitt í þessu máli. Hér einu sinni voru blöð ekkert að þykjast vera óháð, menn vissu alveg hvað þeir voru að lesa ef þeir tóku upp Þjóðviljann, Tímann eða Moggann. En nú þykjast allir vera frjálsir og óháðir. Hlutlægni er bara einfaldlega ekki til og maður á ekki að halda það einu sinni. Það eru allir að skrifa út frá einhverju fyrir einhvern. Morgunblaðið og Fréttablaðið gera rúmlega það.

Veturinn hefur skyndilega gert vart við sig hér á ströndinni. Bara snjór og hríðargarg um helgina og í nótt brast á með norð-austan stormi. Sem betur fer hlýnaði áður annars hefði þetta orðið ekta stórhríð. Gat lítið sofið í nótt, er orðin svo óvön þessum látum í veðrinu. Helgin bar merki veðursins úti, maður verður einhvern veginn svo latur og lélegur. Fór varla út úr húsi en horfði því meira á vídjó. Ég og pabbi eyddum góðum hluta gærdagsins í að horfa á Der Untergang, þýska mynd um síðustu daga Hitlers. Góð mynd fannst mér. Pínulítið ruglingsleg á köflum því hún gerir ráð fyrir talsverðri sögulegri þekkingu. Verð að viðurkenna að sagnfræðingurinn ég er ekki alveg nógu vel ínn í hver-er-hver í sögu þriðja ríkisins. En ég naut dygglegrar aðstoðar föður míns sem er talsvert betur inn í því hvað Göring gerði versus Himmler t.d. og hver örlög Spiel urðu eftir stríð.

Lítið gengið við skriftir í dag en eitthvað þó. Þetta er allt í áttina.

fimmtudagur, september 22, 2005

Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að Rita væri farin að gera vart við sig hér á ströndinni. Alveg bálhvasst veður og með því slydduógeð. Hélt bara að ég myndi fjúka ofan í fjöru áðan á leiðinni fyrir víkina á dæjaranum hans pabba eða the batmobile eins og Jimmy kallar hann svo hnyttilega. Veðrið á víst að vera svona eitthvað áfram svo það verður væntanlega lítið hægt að gera um helgina en að skrifa...og horfa á sjónvarpið auðvitað.
Ég var fljót heim úr leikfiminni í gær, ER, Bráðavaktin, Skadestuen eða Akutten að byrja. Þetta er 11. sería, ótrúlegt en satt. Helga frænka segir það á blogginu sínu í gær að þegar þættirnir byrjuðu hafi hún verið heima með yngri dóttur sína nýfædda. Ég var að byrja í menntaskóla. Ég var á heimavist MA og á hverju miðvikudagskvöldi hlammaði maður sér fyrir framan sjónvarið sem var á hæðinni fyrir ofan svona u.þ.b. klukkutíma áður en þátturinn byrjaði. Þetta var gert til þess að fá góð sæti eða bara sæti yfirleitt því Bráðavaktin var eitt að vinsælasta sjónvarpsefnið. Já, þetta var áður en sjónvörp og tölvur fóru að vera inn á hverju herbergi eins og ég býst við að sé núna.
Síðan hef ég fylgst með þessum þætti. Í fjórum löndum, Íslandi, Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi. Marga þætti hef ég séð oftar en einu sinni þar sem þættirnir eru endursýndir á TV3 Danmark kl. 17 að dönskum tíma alla virka daga.
Auðvitað á ég mínar uppáhaldspersónur. Ég tók snemma ástfóstri við Carter, fannst hann miklu flottari en Doug Ross (George Clooney). Þegar ég horfði svo á endursýningar á fyrstu þáttunum eftir að ég fór til Danmerkur sé ég svo að Ross er miklu flottari, Carter er svo ungur og aulalegur eitthvað. En ég var náttúrlega bara 16. Carol og Doug voru svo uppáhalds parið og það var mikil gleði þegar þau loksins náðu saman. Nú eru Dr. Kovach og æi hvað hún heitir þarna ljóshærða hjúkkan tekin við. Að þessu sinni er það samt frekar hann sem er að bjarga henni en ekki öfugt. Eftirminnilegasta atvikið er held ég þegar dr. Romano varð fyrir þyrlu. Áður hafði hann misst handlegginn í átökum við þyrluspaða svo hverjar voru líkurnar? Ég varð svo hissa. Sá sem skrifaði þetta er bara snillingur.
Vonandi heldur Bráðavaktin áfram lengi, lengi í viðbót. Þótt ekki væri nema fyrir mig og Helgu frænku.

miðvikudagur, september 21, 2005

Fékk svar við langhalaspurningunni, bjóst alls ekki við því. Það var Helga frænka sem gróf þetta upp fyrir mig hjá frændum okkar færeyingum. Sé líka að Helga þessi frænka mín, föðursystir mín nánar til tekið, er tekin að blogga. Skelli henni inn í pakkið í hvelli.

þriðjudagur, september 20, 2005

Hvernig er orðið langhali á ensku? Þá á ég við lítt nýttu fiskitegundina langhala. Einhver???
Engin eirð í mér til skrifta, annan daginn í röð. Ekki gott. Verð svo enn pirraðri og eirðarlausari þegar illa gengur sem verður aftur til þess að enn verr gengur. Fer bráðlega að hata þessa ritgerðardruslu af ástríðu. Vonandi þó ekki fyrr en henni verður allavega að mestu lokið.

Í leikfimi fékk lag úr Lata bæ að hljóma þrisvar sinnum og við þessa andstigð stigum við eróbikspor. Andúð mín hefur við þetta aukist um allan helming.

Fékk vini að sunnan í óvænta heimsókn á laugardagskvöldið. Komst að því að ég er laus við allt sem heitir gestrisni. Bauð þeim að vísu sæti en mamma bauð þeim kaffi og svona. Held að þetta tengist heimilisleysi mínu. Ég á jú heima í Bankastrætinu hjá mömmu og pabba og þannig verður það sjálfsagt alltaf en það er ekki heimili mitt sem slíkt. Það er heimili mömmu og pabba fyrst og fremst. Safamýrin og Nýlendugatan sérstaklega eru einu heimilin sem ég hef átt á fullorðinsárum. Á Nýlendugötunni buðum við fólki í mat og gistingu, saumuðum gardínur og hengdum upp myndir. Síðan ég hef fór til Danmerkur hef ég svo verið heimilislaus. Á enga stofu, býð engum heim og hengi ekki upp neinar myndir. Allt er til bráðabirgða. Heimilislausa einstaklingnum mér er svo oft boðið í mat heim til vinanna, paravinanna, Þórunnar og Helga úti í Danmörkunni og nú hafa Begga og Jimmy tekið við af þeim hér. Þetta er ákveðið munstur. Þegar ég svo loksins eignast eigið heimili verð ég svo ábyggilega bara þar. Eyði öllum mínum frítíma í að skreyta í kringum mig, sauma gardínur og hengja upp myndir. Hætti að hitta fólk og gerist sérvitur.

Komst að því í gær við umræðurnar um fæðingarorlofslögin að ég get ekki eignast barn fyrr en í fyrsta lagi árið 2008. Tekjur mínar á þessu og síðasta ári eru mjög lágar og verða varla lægri hjá mér það sem eftir er. Er því komin með góða afsökun fyrir bæði kærasta-og barnleysi. Get ekki eignast barn fyrr en eftir nokkur ár því það væri svo afskaplega óhagkvæmt og peningar eru jú það eina sem blívar. Og fyrst ég get ekki eignast barn þá get ég heldur ekki átt kærasta. Ég trúi jú ekki á getnaðarvarnir og gæti ómögulega hugsað mér að vera í plútonsku sambandi í nokkur ár. Allar spurningar til mín um strákamál frestast því hér með til miðs árs 2007.

föstudagur, september 16, 2005

Smá tuð á föstudegi. Af hverju er ríkið að sýna Lata bæ kl. 8 á föstudagskvöldi? Af hverju ekki bara venjulegum barnaefnistíma eins og annað barnaefni? Ég veit að þetta á að vera voða fínt vegna þess að þetta hefur komist alla leið til útlanda en... Sagt er að þetta sé eitthvað fyrir alla fjölskylduna, rugl, segi ég. Jú, jú, sumt barnaefni er hægt að segja að sé fyrir alla fjölskylduna eins og einhverjar Disney myndir fullar af hundum, öpum og höfrungum og svo náttúrulega Konungur ljónanna, Litla hafmeyjan, Nemó og aðrir slíkir klassíkerar en ekki þetta. Þetta er nefnilega ekki vitund skemmtilegt og einhvern veginn efast ég um að mörgum börnum yfir svona 10 aldri finnist það eitthvað frekar en mér. Þetta er því, held ég allavega, fyrir alla fjölskylduna ef fjölskyldan samanstendur af börnum á aldrinum 3-10 ára og foreldrum sem leggja á sig að horfa á þennan hroða. Sem er allt í lagi kl. 6 á þriðjudegi eða kl. 10 á laugardagsmorgni en ekki 8 á föstudagskvöldi. Og hana nú!!

En hvað segir þetta hér að ofan um mig?? Ætti einhleyp stúlka á besta aldri ekki að vera gera eitthvað allt annað á föstudagskvöldi en að pirra sig yfir sjónvarpsdagskránni.
Ohhh, mig langar í bjór og spjall um landsins gagn og nauðsynjar í góðum félagsskap og svo rölt í bæinn á eftir. Eitthvað lítið um það hér.
Föstudagur í dag. Ætla að sitja við fram eftir degi en í seinni partinn kemur Tanusinn ásamt foreldrum og verða yfir helgina. Alltaf jafn gaman að sjá þau. Gerði lítið í gær, afsökunin var smá pössun á guðsyninum. Hann svaf nú reyndar tvo af þeim þremur tímum sem ég var með hann svo þetta var nú lítið mál. Hann er að verða svo stór, er farinn að labba meðfram borðum og svona.
Litun og plokkun á eftir, þarf aðeins að reyna að flíka upp á fésið.

miðvikudagur, september 14, 2005

Er að hlusta á nýju plötuna með Sigur Rós, Takk. Stórgóð plata heyrist mér sem fer með vel með skriftum. Satt sem sagt hefur verið að hún sé "auðveldari" en fyrri plötur þeirra, þessi virðist meira "down to earth". Þetta er samt bara hálf hlustun, hlusta á plötuna í tölvunni í gegnum headphones af einhverri síðu úti í heimi. Eitt sem þarf að huga að þegar hungurtíðinni lýkur eftir áramót, kaup á sæmilegri græju til tónlistarflutnings.

þriðjudagur, september 13, 2005

Skriftir ganga hægt í dag eins og síðustu daga. Hugurinn á fullri ferð en bara víðsfjarri viðfangsefni ritgerðarinnar. Margt að brjótast um sem tengist ESB ekki nokkurn skapaðan hlut.
Líkaminn lætur finna fyrir sér í dag, er með strengi í rassi og lærum og verki í baki og hnjám. Ástæða þessa er tvíþætt, kartöfluupptaka á sunnudaginn og leikfimi í gær. Fann að ég hafði engu gleymt í kartöflunum þrátt fyrir að 10 ár séu síðan ég gerði þetta síðast. Fann líka til í lófunum eftir átökin með grefið, það gerðist nú ekki hérna í den. Er greinilega að verða að aumingjans skrifstofublók, hef ekki unnið að neinu viti með höndunum í mörg ár annað en að pikka á lyklaborð.

Séra Bondevik fallinn í Noregi, Stoltenberg væntanlega næsti forsætisráðherra. Búið að sýna margar myndir frá Karl Johans gate, aðalgötunni í Osló, bæði upp að höllinni og niður að Oslo S lestarstöðini núna í aðdraganda kosninganna. Fæ alltaf létta nostalgíu þegar ég sé þessar myndir því ég gekk upp og niður Karl Johan á hverjum degi í nokkra mánuði í fyrra.

laugardagur, september 10, 2005

Að fullu að læra fyrir hádegi á laugardegi án þess að nokkuð próf sé í nánd. Mér öðru vísi áður brá.

föstudagur, september 09, 2005

Sit við skriftir í dag. Var alveg stífluð í gær svo ekkert gerðist. Þýðir bara að ég þarf að skrifa á morgun líka. Held að þetta sé leiðinlegasti kaflinn sem ég er að skrifa núna, eitthvað fjandans stjórnarskrár þrugl. Er ekkert of klár í þessu. Var samt pínsu dugleg í gær, fór í leikfimi. Jamm, það er að byrja svona einhverra vikna átak á vegum nokkura kvenna hér í bæ, orðinn árviss viðburður. Ég ákvað bara að skella mér þótt ég verði að láta mig hverfa til Danmerkur einhverjar vikur í október. Ég er orðin svo mikil kerling, það er alveg dásamlegt.

miðvikudagur, september 07, 2005

Óhugnalega löt í dag, bara ekki í neinu skriftarstuði. Verð samt að koma einhverju á blað í dag því annars verð ég virkilega óhress með sjálfan mig. Sjálfsvorkunn að eilífu....Ohhhhh....

þriðjudagur, september 06, 2005

Stundum verð ég alveg ægilega þreytt á því að skrifa á ensku, sérstaklega þegar heimildirnar eru mest á íslensku. Ég hugsa þetta nefnilega á íslensku og verð svo eiginlega bara að þýða það yfir á ensku. Og hef bara miklu meiri orðaforða á ástkæra ylhýra heldur en í engilsaxneskunni. Það kemur líka fyrir þegar ég leita í huganum að einhverju ensku orði að það kemur upp í hugann á dönsku. Mér öðruvísi áður brá. Þetta hefði seint gerst fyrir nokkrum árum. En þá var ég reyndar ekki að skrifa á ensku og hafði heldur ekki búið í Danmörku...

Best að halda sig að verki.

fimmtudagur, september 01, 2005

Skriftir hafnar á ný. Tvær bls. á fyrsta degi plús náttúrulega kennsla fram að hádegi. Góður dagur, dygtig pige.