þriðjudagur, september 20, 2005

Engin eirð í mér til skrifta, annan daginn í röð. Ekki gott. Verð svo enn pirraðri og eirðarlausari þegar illa gengur sem verður aftur til þess að enn verr gengur. Fer bráðlega að hata þessa ritgerðardruslu af ástríðu. Vonandi þó ekki fyrr en henni verður allavega að mestu lokið.

Í leikfimi fékk lag úr Lata bæ að hljóma þrisvar sinnum og við þessa andstigð stigum við eróbikspor. Andúð mín hefur við þetta aukist um allan helming.

Fékk vini að sunnan í óvænta heimsókn á laugardagskvöldið. Komst að því að ég er laus við allt sem heitir gestrisni. Bauð þeim að vísu sæti en mamma bauð þeim kaffi og svona. Held að þetta tengist heimilisleysi mínu. Ég á jú heima í Bankastrætinu hjá mömmu og pabba og þannig verður það sjálfsagt alltaf en það er ekki heimili mitt sem slíkt. Það er heimili mömmu og pabba fyrst og fremst. Safamýrin og Nýlendugatan sérstaklega eru einu heimilin sem ég hef átt á fullorðinsárum. Á Nýlendugötunni buðum við fólki í mat og gistingu, saumuðum gardínur og hengdum upp myndir. Síðan ég hef fór til Danmerkur hef ég svo verið heimilislaus. Á enga stofu, býð engum heim og hengi ekki upp neinar myndir. Allt er til bráðabirgða. Heimilislausa einstaklingnum mér er svo oft boðið í mat heim til vinanna, paravinanna, Þórunnar og Helga úti í Danmörkunni og nú hafa Begga og Jimmy tekið við af þeim hér. Þetta er ákveðið munstur. Þegar ég svo loksins eignast eigið heimili verð ég svo ábyggilega bara þar. Eyði öllum mínum frítíma í að skreyta í kringum mig, sauma gardínur og hengja upp myndir. Hætti að hitta fólk og gerist sérvitur.

Komst að því í gær við umræðurnar um fæðingarorlofslögin að ég get ekki eignast barn fyrr en í fyrsta lagi árið 2008. Tekjur mínar á þessu og síðasta ári eru mjög lágar og verða varla lægri hjá mér það sem eftir er. Er því komin með góða afsökun fyrir bæði kærasta-og barnleysi. Get ekki eignast barn fyrr en eftir nokkur ár því það væri svo afskaplega óhagkvæmt og peningar eru jú það eina sem blívar. Og fyrst ég get ekki eignast barn þá get ég heldur ekki átt kærasta. Ég trúi jú ekki á getnaðarvarnir og gæti ómögulega hugsað mér að vera í plútonsku sambandi í nokkur ár. Allar spurningar til mín um strákamál frestast því hér með til miðs árs 2007.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

1:43 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home