mánudagur, nóvember 29, 2004

Lestur í kvöld. Á morgun verður skemmt sér eftir vinnu en í kvöld á að vera dugleg. Norsarnir hafa tekið endursýningar af Akutten (ER) af dagskrá og sett Charmed í staðinn. Lélegt finnst mér en hvetur þó til enn frekari lesturs.

Sumir þekkja mig greinilega afskaplega vel. Fatta nákvæmlega hvað maður er að tala um. Kannski ekkert skrítið þegar maður hefur þekkt manneskjuna nánast alla ævi.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Þynnkudagur en samt góður dagur. Ekki oft sem það fer saman. Prófaði og upplifði svoldið nýtt sem var bara frábært.

Það var eins og mig minnti, mér finnst íslenskt brennivín vont.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Nenni ekki að lesa meira í kvöld. Er búin að vera að lesa níðþunga grein um post-structuralisma og discourse analysis, heilinn þarf bara frí. Fór í fyrsta skipti í Vinmonopoliet, Ríki þeirra Norðmanna, og keypti mér hvítvínsflösku. Þetta líktist nú meira ferð á pósthúsið heldur en verslunarferð. Ég tók miða og beið svo eftir að mitt númer birtist á skjánum og þurfti svo að segja afgreiðslukonunni hvað ég vildi. Sem betur fer sá ég einhvern kaupa hvítvín sem ég kannaðist við og gat því nefnt einhverja tegund. Alltaf skemmtilegt að versla svona yfir borðið. Ástæðan fyrir þessum áfengiskaupum er teiti hjá Huldu annað kvöld. Reyndar var mér líka boðið í afmæli í Moss (held að það heiti það) til hennar Línu vinkonu Kamrans. Teitið hjá Huldur hafði meira aðdráttarafl. Svona er maður nú vinsæll á þessum síðustu og verstu.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Ég er eiginlega í nokkurs konar míkró próftíð þessa dagana. Ætla að klára að lesa þessar 1000 bls. fyrir jólin. Les því eftir vinnu fram á kvöld og eitthvað verður lesið um helgina líka.

Vaknaði í jólaskapi í morgun, bókstaflega. Þegar klukkan hringdi var ég að syngja jólalag, í draumi það er. Frikki, maðurinn hennar Hildar vinkonu, á líka afmæli í dag, orðin 28 ára gamall blessaður. Búin að þekkja hann í fimm og hálft ár um það bil. Sem minnir mig á að nóvember er að verða búinn, 25. í dag. Þetta hefur verið einn besti nóvembermánuður ævi minnar hingað til. Engin niðursveifla eða leiðindi almennt. Hlakka til jólanna en langar mest til að koma aftur hingað eftir áramót. En ég þarf víst að fara skrifa fjandans masters ritgerðina í Álaborginni. En ég ætla ekki að hugsa um það núna, það er nefnilega ekki fyrr en á næsta ári.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Vil taka eitt fram á þessum vettvangi ef einhver les þetta þrugl. Msn-ið mitt er eitthvað skrítið svo ég dett alltaf út um leið og einhver reynir að tala við mig sem er með display mynd. Einhverra furðulegra hluta vegna verður að taka display myndina út. Ég er semsagt ekki að forðast að tala við fólk. Ef ég myndi ekki vilja tala við einhvern þá myndi ég nú bara blokkera hann. Ég er semsagt ekki bara svona mikill dóni.

Annars er ég heima í dag, fór heim úr vinnunni með beinverki, hálsbólgu og leiðindi. Verð að vera betri á morgun því ég einfaldlega verð að mæta í vinnuna í fyrramálið. Tanusinn er líka veikur svo og fjölskyldan í Árósum. Veturinn er greinilega tíminn. Ég ligg því hérna og spjalla við þá sem nenna að tala við mig og horfi á Dawson creek og álíka gæða sjónvarpsefni með öðru auganu.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Er eiginlega bara þreyttari eftir helgina en ég var fyrir hana. Það munar nefnilega um það hafa barn á heimilinu sem vaknar jafnvel með öskrum og látum kl. rúmlega sex á morgnanna. Helgin var annars ágæt, búðarráp á laugardaginn og í gær var haldið upp fjöllin eða hæðirnar hérna við Osló til þess að fá nasaþef af hinni miklu útiveru menningu þeirra Norðmanna. Ása og Linda fara svo í fyrramálið og fæ aftur yndislegan, barnlausan frið og ró.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Í kvöld er stefnan tekin á Café Frölich í Drammenstrate þar sem hlustað verður á klassíska tónlist og jafnvel drukkinn einn kaldur. Annars er skítakuldi hér í Norge, komið frost. Og skv. mogganum þá spáir víst stormi í nótt og morgun í Skandinavíu og Osló er víst þar. Það lítur því út fyrir að á morgun lúti ég loks, eftir hetjulega baráttu, í lægra haldi fyrir Kára og klæðist úlpu á leiðinni í vinnuna.

Ása og Linda María eru líka að koma í heimsókn til mín frá Köben um helgina. Vonandi verður þetta veður afstaðið þá. Það verður því eitthvað lítið úr lestri næstu daga og á morgun er bara mánuður þanngað til ég fer heim. Ó, mæ god, ég var bara að koma.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Jæja, þá er það staðfest. Ég er búin að breyta miðanum mínum og kem heim þremur dögum á undan áætlun eða 18. des. Afskaplega næs, lengra jólafrí. Nú er bara að lesa og lesa og lesa...því það eru bara fjórar helgar til stefnu.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Með eindæmum róleg helgi, klósettþrif, ryksugun, lestur (150 síður um Norðurlöndin og ESB), svefn, sjónvarpsgláp, tónlistarhlustun og át. Það er kannski eitthvað til í því sem Kamran sagði í gær, ég á mér ekkert líf. En kannski er þetta bara einmitt lífið. Mér líður allavega alveg ágætlega.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Þetta eru góðar fréttir!

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Systir mín elskuleg á afmæli í dag, orðin 23 ára gömul. Hún er orðin svo stór blessunin, mamma, sambýliskona og háskólanemi sem er að brillera í lögfræðinni. Ég verð nú samt alltaf stóra systir.

Tók lestina upp í Blindern á bókasafnið. Þetta var ferð bæði sigra og ósigra. Ég talaði við bókavörð í dágóða stund á íslensku/dönskuskotnu norskunni minni. Hann skildi mig bara alveg og ég sagði ekki eitt einasta orð á ensku. Á leiðinni aftur niður á brautarstöðina þarf ég að fara yfir svona göngubrú til að komast réttu megin við teinana. Brúin er í svona 6 metra hæð og er úr svona þéttriðnum járngrindum sem maður sér í gegnum. Mér finnst alveg hræðilegt að fara þarna yfir. Hjartað fer alveg á fullt og ég næ varla andanum. Þetta er víst lofthræðsla, eitthvað sem ég er farin að finna fyrir í síauknum mæli í seinni tíð. Afskaplega pirrandi og leiðinlegt að finna til hræðslu að engri skiljanlegri ástæðu.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Þetta er náttúrulega bara briljant.
Var í smá viðtali áðan hjá henni Steingerði frá Mogganum sem ég hitti í dinnernum í gær. Við fórum út í búð og hún spurði mig út í hvort og þá hvernig matarvenjur mínar hér í Norge væru öðruvísi en heima og í Danmörku. Allt er nú hægt að skrifa um í Moggann.

Í dag eru 15 ár síðan Berlínarmúrinn féll. Ég man vel hvað þetta var spennandi og ég var alveg límd við skjáinn. Skrítið að ég hafi bara verið 11 ára gömul.

Er ógeðslega þreytt, gat eitthvað lítið sofið í nótt. Er að hugsa um að leggja mig bara aðeins um leið og ég kem heim.
Ég hef áður ritað á þessum vettvangi undir áhrifum áfengis en þó aldrei áður á mánudagskvöldi. En allt er í veröldinni hverfult og meðal annars þetta. Það verður sko ekki auðvelt að vakna hálf átta í fyrramálið og mæta í vinnuna. Var annars í dinner hjá ísl. sendiherranum hér í borg og eins og ég óskaði mér fékk ég rollu að borða. Vel var líka veitt að rauðvíni og öðrum áfengum veigum og ef hellt er í glasið manns þá verður maður jú að drekka úr því. Annað er náttúrulega bara dónaskapur.

Ég fékk mail frá Ásu Dóru vinkonu í Köbenhavn í morgun og hún er jafnvel að hugsa um að koma í heimsókn hérna til mín. Loks getur maður kynnt einhvern fyrir dýrð Noregs þó reyndar hún hafi verið hér áður. En þó ekki í sentral Osló.

Ble.


mánudagur, nóvember 08, 2004

Undanfarna daga og nætur hef ég legið undir feldi og íhugað hvort ég ætti að biðjast afsökunar í þátttöku minni verðsamráði olíufélaganna. Ég vann nú um tveggja mánaða skeið sem bensíntittur í Brú í Hrútafirði sumarið '96 og þar seldi ég Esso bensín í gríð og erg. Ég verð þó að segja mér til málsbóta eins og Þórólfur að ég hafði enga hugmynd um hversu víðfemt samstarfið var, reyndar vissi ég bara alls ekkert um það. Ég hef því ákveðið að biðjast ekki opinberlegrar afsökunnar að sinni en mun vissulega svara öllum spurningum er varða störf mín þetta sumar ef eftir því verður leitað.
Virðingarfyllst,
Þóra Ágústsdóttir

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Nóvember, ég hata nóvember. Leiðinlegasti mánuður ársins. Ég kem mér ekki til að gera neitt, það er alltaf dimmt, engin jólaljós og ég vil helst bara sofa. Neikvæðnin drýpur af hverju strái. Í dag semsagt gerði ég ekki neitt. Ég ætlaði á bókasafnið en frestaði því, ætlaði þá í staðinn að lesa allavega en kom mér ekki að því heldur. Endaði á því að gera andskotann ekki neitt. Verð að lesa á morgun og þrífa svoldið líka. Fjandinn.

Ekki bætir það nú heldur geðið að kaninn, eða hluti þeirra allavega, hefur kosið yfir sig runnann aftur. Fjögur ár í viðbót fær þessi vitleysingur að gera það sem hann vill sem valdamesti maður heims. Það er hægt að gera mikinn óskunda á fjórum árum og hver veit nema hann nái að toppa síðustu fjögur.

Arrrrg...

Enda samt á smá gleði hérna. Frétti á kommentakerfinu að Heiðrún frænka væri orðin föðursystir aftur og ég þá í leiðinni búin að eignast nýjan þremening. Alltaf gaman, til hamingju öll Sigga-"á-Melum"-fjölskylda. (Þetta var svoldið erfitt, gat ekki sagt Sigga-frænda-fjölskylda því það væri Siggi bróðir hennar mömmu og Siggi afabróðir hljómar asnalega en Sigginn sem ég er að tala um býr ekki lengur á Melum en samt segir maður alltaf og hefur alltaf sagt Siggi á Melum alveg eins og afi á Melum. Fjandinn að ég fari að segja afi í Reykjavík eða afi í Bólstaðarhlíðinni eða Siggi í Reykjavík, hljómar alveg út í hött, eða Siggi í ... veit ekki alveg hvar þau búa í Reykjavíkinni. Svo að Siggi á Melum er það. Ég er virkilega að skrifa þetta. Greinilegt að ég hef ekki gert neitt að viti í dag.)


mánudagur, nóvember 01, 2004

Djöfull sem Síríus rjómasúkkulaði er gott. Hulda kom með tvo 200 gr. pakka af súkkulaði handa mér frá Íslandi. Nú er sko hætt við að maður fitni maður.