sunnudagur, ágúst 29, 2004

Kíktum á lokahóf kaffihúss staðarins í gærkvöldi. Það var fullt út úr dyrum og mikil gleði. Sigrún í Breiðabliki flutti nokkurs konar annál fyrsta sumars kaffihússins og inn á milli söng hún, ásamt hinum tveimur kerlingunum sem fyrir starfseminni standa, nokkur lög. Eiginmenn þeirra þjónuðu til borðs. Þetta var alveg drepfyndið en til þess að skilja djókið hefur maður lágmark þurft að búa á ströndinni í eitt ár. Svo var fjöldasöngur en við Begga fórum heim í fyrra lagi eða rétt fyrir 1. Begga ætlar svo að senda kærastanum í Ameríkunni myndir af skrítnu menningunni í pínulitla bænum á Íslandi.

laugardagur, ágúst 28, 2004

Dreymdi sérkennilega í nótt. Fyrir það fyrsta var draumurinn mjög langur, ég vaknaði nokkrum sinnum en hélt alltaf áfram þar sem frá var horfið. Var semsagt stödd í Bagdad í Írak. Draumurinn hófst þannig að ég var á leið inn í borgina í lest en einhverra hluta vegna virðist ég alltaf ferðast með lest þegar mig dreymir eitthvað um útlönd. Reyndar man ég eftir að hafa litið á lestarmiðann og á honum stóð Konstantínópel en þetta var samt Bagdad. Við (Ég veit samt ekki hver var með mér) fórum út á einhverri lestarstöð og þaðan tókum við svo taxa á einhverskonar hótel. En í millitíðinni var komið við á einhverskonar "nautaleigu" þar sem ég borgaði slatta af einhverjum torkennilegum gjaldmiðli, minnir að nafnið hafi byrjað á L, fyrir að fara á bak á þessum nautum. Á hótelinu sem virtist nú reyndar vera bara heima hjá einhverju fólki fór ég að tala mikið við konu á mínum aldri. Hún lýsti lífinu í stríðshrjáðri borginni og öllum óhugnaðinum sem hún og hennar fólk byggju við. Svo fórum við í búð sem var mjög hrá. Engu pakkað inn og uppistaðan í vöruúrvalinu voru hin ýmsu brauð og ostar. Við matarborðið voru málin svo rædd frekar og ég var farin að tárast vegna lýsinganna og leið virkilega illa. Í lok draumsins var ég svo ein á röltinu um borgina og sá litla, ljóshærða, tötraklædda telpu týna upp í sig franskar af götunni. Ég gaf henni mest allt brauðið sem ég hélt á en samt ekki allt. Ég vaknaði hálfkjökrandi um hádegisbil.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Menningarreisa hjá okkur Beggu í dag. Áfangastaðurinn var Akureyri og viðkomustaðir voru Greifinn, göngugatan og Borgarbíó. Menningin fólst aðallega í því að sjá hina mjög svo umtöluðu mynd Michael Moore, Farenheit 9/11. Það voru bara þrír í bíó auk okkar svo það var ekkert hlé en það var bara fínt enda við báðar búnar að venjast því í útlandinu. Myndin stóð alveg undir væntingum, heimildamynd með sterkum áróðurskeim og háu skemmtanagildi. Hef ég nú enn minna álit á Bush en áður og hélt þó að það gæti ekki minnkað.

Hef ekki "tíma" til að skrifa meira því sjónvarpið og fimleikarnir bíða mín.

föstudagur, ágúst 20, 2004

Vaknaði fyrir allar aldir í morgun til þess að fara á Krókinn. Sat á stól við hlið Beggu meðan hún var í sónar sem nokkurs konar staðgengill pabbans. Læknirinn var mjög almennilegur og sýndi okkur vel og vandlega alla króka og kima á barninu. Gaman að sjá þetta svona "live", hef hingað til bara séð svona "still" myndir. Mér sýndist þetta bara ætla verða mikið fríðleiks barn.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Horfði á fjölþraut karla í fimleikum í gær. Kom mest á óvart hvað þeir voru lélegir. Auðvitað voru þeir mjög flottir en margir voru dettandi og svona sem á ekki að gerast meðal efstu manna á Ólympíuleikum. Þetta þýddi að það kom ekki ljós fyrr en alveg í lok keppninnar hver bæri sigur úr býtum. Kaninn Ham eða Han eða eitthvað svoleiðis vann sig upp úr 12. sæti í tveimur síðustu greinunum en í 4. grein, stökki, datt hann á rassinn í lendingunni. Þulirnir þusuðu eitthvað um góðan karakter hjá honum að ná tveimur síðustu greinunum svona góðum eftir svona áfall. Jú, jú, það er svo sem alveg rétt, maðurinn er með stáltaugar. En mér finnst asnalegt að maður sem dettur og fær skítaeinkunn í einni grein nái svo að vinna. Það þýðir að keppendur voru almennt ekkert að standa sig of vel.

Vona bara að stelpurnar í fjölþrautinni í kvöld standi sig betur. Held með Gorkinu hinni rússnesku. Hún er langflottust, 1.64 á hæð en ekki dvergur eins flestar og hinar og orðin 25 ára gömul. Hún er á sínum þriðju Ólympíuleikum sem er nú víst einsdæmi meðal fimleikakvenna.

Ljúfir þessir dagar þegar lífið er svo auðvelt að einhver íþróttakeppni fær mestu athyglina.

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Úff, hvað er hægt að gera mikið af engu. Afrek dagsins að breyta miðanum mínum út. Kamran, tilvonandi meðleigjandi minn, hringdi reyndar í morgun kl. rúmlega hálf átta. Var ekki alveg að átta sig á tímamismuninum en ég var fljót að sofna aftur og fór ekki á fætur fyrr en rúmlega 12.

Ólympíuleikarnir bjarga reyndar miklu, ég hef alltaf verið algjör sukker fyrir öllum svona stórmótum. Horfði á liðakeppnina í fimleikum kvenna í gærkvöldi og var bara orðin spennt, hélt sko með Rúmenunum sem voru að berjast við kanana. Annars finnst mér svo stutt síðan síðustu leikar voru. Þá bjó ég í Reykjavíkinni, í Safamýrinni, og var að vinna fyrsta sumarið mitt í þjónustuverinu. Á næstu leikum verð á þrítugasta aldursári, bara svoldið skrítið. En fyrstu leikarnir sem ég man eftir voru akúrat fyrir tuttugu árum, árið 1984 í Los Angeles. Ég veit að ég var bara sex ára gömul en ég var mikið sjónvarpsbarn en þó ekki svo mikið á barnaefni heldur sérstaklega fréttir og svo ég tali nú ekki um auglýsingar. Fylgdist til að mynda skelfd með kalda stríðinu og atburðum eins og slysinu í Tsjérnóbil um árið.

Rétt í þessu voru Íslendingar að vinna Ítali í fótbolta 2-0. Þeir fá nú bara hrós dagsins, ef ekki mánaðarins sökum þessa. Ítalir voru reyndar ekki svo sannfærandi á Evrópumótinu um daginn en samt þetta er auðvitað frábært.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Í gær kom í ljós að Oslóferðinni seinkar um tvær vikur, ég á semsagt ekki að byrja fyrr en 10. sept. Verst er að ég var búin að kaupa miða en ég breyti honum bara þó það kosti smá.

Annars er liðin vika búin að vera fín. Ferðaðist ásamt foreldrunum í þrjá daga um norð-austurlandið. Hef núna séð fleiri krummaskuð en áður eins og Raufarhöfn, Þórshöfn og Kópasker. Við fengum líka frábært veður sem spillti ekki fyrir. Á leiðinni heim á laugardeginum var komið við hjá Birnu og fjölskyldu á Akureyrinni og ég ákvað að vera eftir og kom svo heim í gær. Nóg um að vera hjá þeim að venju. Ég hjálpaði Birnu að gera upp gömlu eldhúskollana hans afa á Jaðri og það sem meira er fór ég inn í fjós og á hestbak. Ég get talið þau skipti sem ég hef komið inn í fjós á annari hendi og ég hafði ekki farið á hestbak í 10-15 ár. En þetta er svoldið eins og að hjóla, maður gleymir allavega ekki grunnatriðunum svo að ég gerði mig ekki fífli og hékk alveg á baki.

Afrek dagsins var svo að vakna og fara í klippingu kl. 9 í morgun. Já, það er lifað ansi letilega þessa dagana. Sérstaklega þar sem förinni út er frestað þá gat ég líka frestað öllu því sem ég verð að gera áður en ég fer út. Næsta tímasetta "verkefni" þessarar viku er á föstudaginn og þarf ég þá aftur að druslast á lappir ekki mikið seinna en 9. En það verður reyndar með glöðu geði því ég er að fara í sónar með henni Beggu vinkonu. Hún er semsagt ólétt stúlkan og komin tími á fyrstu myndatöku barnsins í "móðurlandinu". Svo er nú reyndar líka á dagskrá að fara að skoða eitthvað þessar síður á netinu sem ég á víst að vera kunnug þegar ég fer út. En það er nógur tími enn...

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Búin að redda mér húsnæði í Osló í vetur. Auglýsti bara sjálf á netinu á einhverri norskri síðu. Auglýsingin mín var meira að segja á norsku,kann nefnilega að gera copy/paste upp úr öðrum auglýsingum. Fékk bara hellings viðbrögð og þetta er bara nánast klappað og klárt. Pantaði líka miðann út í kvöld og fékk hann bara á ágætu verði þannig miðað við Flugleiðir. Svo verður haldið af stað í smá ferðalag í fyrramálið með foreldrunum. Svo allt er bara í góðum gír.

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Miklir fagnaðarfundir síðustu daga. Á sunnudaginn var það tólið og í gær var það Hildur, báðar að koma heim frá útlandinu. Hittumst allar þrjár í gærkvöldi og það var mikið spjallað, tókum einhverja mynd en það varð nú eitthvað lítið úr því að horfa á hana. Frábært að tala aftur við þær "face to face" í stað síma eða msn. Reyndar byrjar það nú fljótlega aftur þar sem ég er að yfirgefa landið. Komið svoldið Noregsstress en aðallega sökum húsnæðismála.

Það kom að því, góða veðrið hefur yfirgefið okkur. Svakalegur hiti út allt land en hér liggur þoka yfir öllu annan daginn í röð. En það er þó logn svo að þetta er ekkert hræðilegt. Á eftir liggur líka leiðin í Borgarnes þar sem er heitt og gott og á fimmtudaginn á líklegast að leggjast í meiri ferðalög.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Síðasti dagurinn minn í vinnunni í dag, í sól og steikjandi hita að sjálfsögðu. Þetta er svosem búið að vera allt í lagi vinna fyrir utan launin náttúrulega. Ég hreinlega skammaðist mín fyrir að setja inn áætlaðar tekjur mínar fyrir árið inn á umsóknina um námslán. Það er allavega alveg á hreinu að ég fæ enga skerðingu þetta árið. Næstu tvær vikur u.þ.b. á svo bara að slappa af, hitta vini, jafnvel fara í smá ferðalag og svona.

Ég kalla fólk ekki oft hálfvita og sérstaklega ekki hér. En skrif "kúrekans" á http://www.kantry.is/ er svo sannarlega tilefni til þess. Það er náttúrulega bara eitthvað að. Í ágústpistli sínum rakkar hann niður allt og alla og getur ekki einu sinni gert það á almennilegu máli. Nýja kaffihúsinu er náttúrulega stefnt gegn honum og líka því uppátæki sjoppunar að fara að selja hamborgara. Arg, djöfull sem maður verður pirraður þegar maður les þetta. Maður sem er búin að fá mikla hjálp í gegnum tíðina og ætlast alltaf til þess að allir vilji hjálpa honum án þess að fá nokkuð í staðinn. Og fyrir utan það þá er nú ekki beinlínis gaman að koma í Kántrýbæinn. Það segir jú í laginu "Komdu í Kántrýbæ því þú ert velkominn" en ég finn sjaldnast fyrir því þegar ég kem í Kántrý. Eins leiðinlegt og er nú að segja frá því þá hef ég frekar fengið það á tilfinninguna að ég sé að gera starfsfólkinu óleik með því að kaupa hvort sem er pitsu eða bjór. En í öll þau skipti sem ég hef komið í kaffihúsið nýja hefur verið vel tekið á móti mér og mínum.
En jæja ég ætla ekki að ræða þetta meira. Ég er bara reið eins og flestir hér á Ströndinni því þarna er ómaklega vegið að mörgu góðu fólki. Menn ættu líka að forðast það að kasta steinum úr glerhúsi.
Ó, sei, sei, svona er Ströndin í dag.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Verslunarmannahelgin var bara mjög gleðileg að þessu sinni. Var ásamt öllum hinum á Akureyri í góða veðrinu. Djammaði að vísu bara eitt kvöld en það var alveg nóg fyrir mig enda ekki komið heim fyrr en undir morgun. Skemmtilegt fólk, hitti m.a. þrjár frænkur mínar og eina bekkjarsystur, góður bjór, góð gisting, gott veður og engin þynnka. Svo átti Tanusinn minn afmæli á mánudaginn. Ótrúlegt að litla skrímslið sé orðið þriggja ára. Var eins og ljós í kvöldrútunni á leiðinni á Akureyri á föstudaginn. Þetta var allt svo spennandi og hún þagnaði varla alla leiðina. Sofnaði ekki fyrr en um eitt um nóttina þá búin að vaka síðan átta um morguninn.
Semsagt allt eins og best verður á kosið.

Nú er farið að styttast í Noregsferð, ég þarf að fara að kaupa flug. Ég á eftir að vinna í tvo daga og um næstu helgi koma Begga og Hildur heim. Hef ekki séð tólið mitt í heilt ár.

Annars bara sumar og sól eins og venjulega. Þetta veður er ekkert venjulegt.