Dreymdi sérkennilega í nótt. Fyrir það fyrsta var draumurinn mjög langur, ég vaknaði nokkrum sinnum en hélt alltaf áfram þar sem frá var horfið. Var semsagt stödd í Bagdad í Írak. Draumurinn hófst þannig að ég var á leið inn í borgina í lest en einhverra hluta vegna virðist ég alltaf ferðast með lest þegar mig dreymir eitthvað um útlönd. Reyndar man ég eftir að hafa litið á lestarmiðann og á honum stóð Konstantínópel en þetta var samt Bagdad. Við (Ég veit samt ekki hver var með mér) fórum út á einhverri lestarstöð og þaðan tókum við svo taxa á einhverskonar hótel. En í millitíðinni var komið við á einhverskonar "nautaleigu" þar sem ég borgaði slatta af einhverjum torkennilegum gjaldmiðli, minnir að nafnið hafi byrjað á L, fyrir að fara á bak á þessum nautum. Á hótelinu sem virtist nú reyndar vera bara heima hjá einhverju fólki fór ég að tala mikið við konu á mínum aldri. Hún lýsti lífinu í stríðshrjáðri borginni og öllum óhugnaðinum sem hún og hennar fólk byggju við. Svo fórum við í búð sem var mjög hrá. Engu pakkað inn og uppistaðan í vöruúrvalinu voru hin ýmsu brauð og ostar. Við matarborðið voru málin svo rædd frekar og ég var farin að tárast vegna lýsinganna og leið virkilega illa. Í lok draumsins var ég svo ein á röltinu um borgina og sá litla, ljóshærða, tötraklædda telpu týna upp í sig franskar af götunni. Ég gaf henni mest allt brauðið sem ég hélt á en samt ekki allt. Ég vaknaði hálfkjökrandi um hádegisbil.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home