þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Í gær kom í ljós að Oslóferðinni seinkar um tvær vikur, ég á semsagt ekki að byrja fyrr en 10. sept. Verst er að ég var búin að kaupa miða en ég breyti honum bara þó það kosti smá.

Annars er liðin vika búin að vera fín. Ferðaðist ásamt foreldrunum í þrjá daga um norð-austurlandið. Hef núna séð fleiri krummaskuð en áður eins og Raufarhöfn, Þórshöfn og Kópasker. Við fengum líka frábært veður sem spillti ekki fyrir. Á leiðinni heim á laugardeginum var komið við hjá Birnu og fjölskyldu á Akureyrinni og ég ákvað að vera eftir og kom svo heim í gær. Nóg um að vera hjá þeim að venju. Ég hjálpaði Birnu að gera upp gömlu eldhúskollana hans afa á Jaðri og það sem meira er fór ég inn í fjós og á hestbak. Ég get talið þau skipti sem ég hef komið inn í fjós á annari hendi og ég hafði ekki farið á hestbak í 10-15 ár. En þetta er svoldið eins og að hjóla, maður gleymir allavega ekki grunnatriðunum svo að ég gerði mig ekki fífli og hékk alveg á baki.

Afrek dagsins var svo að vakna og fara í klippingu kl. 9 í morgun. Já, það er lifað ansi letilega þessa dagana. Sérstaklega þar sem förinni út er frestað þá gat ég líka frestað öllu því sem ég verð að gera áður en ég fer út. Næsta tímasetta "verkefni" þessarar viku er á föstudaginn og þarf ég þá aftur að druslast á lappir ekki mikið seinna en 9. En það verður reyndar með glöðu geði því ég er að fara í sónar með henni Beggu vinkonu. Hún er semsagt ólétt stúlkan og komin tími á fyrstu myndatöku barnsins í "móðurlandinu". Svo er nú reyndar líka á dagskrá að fara að skoða eitthvað þessar síður á netinu sem ég á víst að vera kunnug þegar ég fer út. En það er nógur tími enn...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home