laugardagur, júní 26, 2004

Í dag brýt ég eitt af mínum prinsipum, þ.e. að nýta mér ætíð kosningarétt minn. Þetta brot stafar ekki af neinu öðru en leti. Ég er ekki á kjörskrá hér á ströndinni því ég var ekki búin að færa lögheimili mitt hingað frá Danmörkunni áður en hún var gefin út. Þetta þýðir að ég varð að kjósa utankjörstaðar sem Íslendingur búsettur í Danmörku. En það er smá vesen, þarf að hringja og mæla mér mót við hann Lárus, og ég hef bara ekki komið því í verk. Þetta þykir mér lélegt, prinsip eru engin prinsip ef maður brýtur þau svona auðveldlega.

Og smá um fótbolta. Horfði ekki á leikinn í gær enda bara alveg sama hvort Frakkar eða Grikkir hefðu betur. Fyndið samt að knattspyrnu stórveldið Frakkland skyldi tapa fyrir liði eins og Grikkjunum. Hálf skammarlegt bara. Englendingarnir duttu þó út með glans.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Úff, þetta var bara erfitt. Leikur Englendinga og Portúgala alveg rosalegur. Það var bara hjartsláttur og læti. Beckham greyið ætti nú alvarlega að fara að hugsa sinn gang og portúgalski markmaðurinn er sá svalasti ever. Þessi skyndilegi fótboltaáhugi minn er nú að verða skuggalegur. Ég er svei mér þá búin að horfa á all marga leiki frá upphafi til enda. Ég verð fljót að kæfa þetta aftur niður eftir EM.
Í fyrri nótt dreymdi mig að ég væri nýbúin að eignast lítinn strák og í nótt dreymdi mig svo annan draum og þá var ég litla stelpu á arminum. Eitthvað minna var hinsvegar um karlmenn í þessum draumum. Ætli þetta þýði að ég verði einstæð móðir eins og mér sýnist trendið sé að verða meðal vinkvenna minna? Eða er þetta hin margumtalaða líkamsklukka sem talar? Ég er nú orðin nær þrítugu en tvítugu. Eða kemur þetta mér í rauninni ekkert við heldur endurspeglar bara allar ólétturnar og börnin í kringum mig?

miðvikudagur, júní 23, 2004

Fótboltaguðinn hefur ákveðið að fara eftir öllum mínum óskum í hvívetna. Þjóðverjar eru nefnilega úr leik eftir tap gegn Tékkunum og Hollendingarnir unnu Lettana eins og búist var við og þetta tvennt þýðir að Hollendingar komast í átta liða úrslit ásamt Tékkum. Wunderbar!
Formlegt atvinnuleysi mitt stóð í rétt um sólarhring. Er að fara að vinna hjá hreppnum eftir helgi við "almenn sumarstörf", hef því helgina til að rétta sólarhringinn af. Þetta verður bæði skondið og skrítið, síðast vann ég hjá hreppnum þegar ég var ca. 15 ára. En ég fæ að vera úti og vinnan sjálf er ábyggilega skárri saltfiskurinn. Og svo hef ég bara gott að því að vinna einhverja líkamlega vinnu.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Skráði mig atvinnulausa í dag. Fékk svona skráningarskirteini og voða fínt. Fékk reyndar fyndnar móttökur hjá konunni sem sá um þetta:"Hvað er háskólamenntuð manneskja að gera á Skagaströnd?" Ég sagði sem væri að mér hefði ekki fundist taka því að fá mér vinnu í Reykjavíkinni fyrir rétt tvo mánuði.

Úrslit fótboltans í dag voru bara frábær. Danir komnir áfram og Svíar líka svona í kaupbæti. Ítalagreyin sátu eftir og eiga örugglega eftir að grenja lengi. Nú er bara að sjá hvort Hollendingarnir komist áfram en það er nú orðið mjög ólíklegt. Það er í þessu sem og öðru, maður fær víst ekki allt sem maður vill.
Lítið að gerast. Lagði smá land undir fót um helgina og fór því ekki á netið í næstum fjóra sólarhringa. Mér klæjaði í fingurna í gærkvöldi að skoða mailið mitt.

Begga átti afmæli á föstudaginn var, 26 ára kerlingin. Ég hafði ekki tök á því að hringja í hana um helgina en geri það núna seinnipartinn í dag. Hún heldur örugglega að ég sé búin að gleyma sér en það er nú lítil hætta á því. Verður ekkert smá gaman þegar hún kemur heim núna í ágúst.

Búið að fjárfesta í gasgrilli hér á heimilinu. Nú er semsagt hægt að fara grilla að einhverju viti loksins.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Alveg að tapa mér í hinu ljúfa lífi á ströndinni. Hengdi út og braut saman þvott í dag, fór með Tanusinn út á róló og horfði auðvitað á fótbolta. Ég er semsagt ekkert farin að vinna og er bara að hugsa um að skrá mig atvinnulausa í fyrsta skipti á ævinni. Það er nú af sem áður var. Á menntaskólaárunum var ekki til verri tilhugsun en sú að fá ekki vinnu og maður hefði unnið allan sólarhringinn sjálfsagt ef hægt hefði verið. Nú er mér nokkuð sama. Nýt þess að taka því rólega því þetta er hvort eð er ekki svo langur tími. Eftir tvo mánuði verð ég farin að hugsa mér til hreyfings enn á ný.

Annars er ég nokkuð ánægð með EM. Hélt reyndar frekar með Englendingum en Frökkum en endirinn á leiknum var samt alveg stórkostlegur. Mínir menn, Danir auðvitað, gerðu ágætt á móti Ítölunum og Svíarnir sem ég held líka svoldið með völtuðu fallega yfir Búlgara. Hefði reyndar viljað sjá Hollendinga vinna helv... Þjóðverjanna en auðvitað er jafntefli betra en tap. Hef alltaf haldið með Hollendingum í svona stórkeppnum, veit ekki alveg hvers vegna. Núna stend ég samt auðvitað með mínum mönnum, Dönum. Hef nú átt lögheimili þarna og svona og svo fæ ég skólastyrk frá danska ríkinu til að fara til Noregs. Það er nú meira en ég fæ frá íslenska ríkinu. Svo bara áfram Danir og best væri náttúrulega ef Svíar kæmust líka upp úr ríðlinum og Ítalirnir og Búlgarar sætu eftir. Kom að því að ég bloggaði um boltann. En, jæja, nóg í bili. Nú er planið að glápa á svosem eins og eina mynd með Birnu systur og frænkum okkar, þeim systrum Auði og Kristbjörgu. Lífið er svo ljúft og latt.

sunnudagur, júní 13, 2004

Komin heim á Ströndina. Gisti í tvær nætur hjá Hildi vinkonu eða réttara sagt tengdaforeldrum hennar þar sem þau hjúin eru að flytja. Afskaplega gott að vera komin heim, veit samt ekki alveg hvað ég geri á morgun.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Komin í hús hjá Ásu vinkonu í Köben. Afskaplega langur dagur senn á enda. Er búin að vaka núna með smá blundum í rútunni í dag í um 40 tíma. En allavega ferðalagið gekk vel og ég uppskar árangur erfiðis míns, internship er í höfn. Næsta haust fer Þóran því til Osló í internship hjá fastanefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi sem er náttúrulega bara frábært. Kom líka til tveggja nýrra landa í dag, Norges og Svíþjóðar. Stoppið var reyndar stutt í Osló eða um 3 tímar en ég náði nú samt að fá örlítinn nasaþef af borginni með því að labba niður Karl Johan gade eða vej eða hvað það nú heitir. Allavega er það aðalgatan þarna í Osló og ég sá meðal annars hús stórþingsins. Ég fékk líka að sjá heilmikið af Sviþjóð út um glugga á rútu og við stoppuðum aðeins í Gautaborg og Malmö. Það verður nú að segjast eins og er að bæði norskt og sænskt landslag er nú heldur tilkomumeira en það danska, ég sá meira að segja kletta og grjót og svona svo ég tali nú ekki um almennilega hóla og hæðir. En jæja ég held ég sé að verða rugluð, þrugla eitthvað hér þegar eina sem mig langar að gera er að sofa. Góða nótt.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Síðasta bloggfærsla frá Álaborginni í bili. Sit í tómu herbergi. Næstum allt komið ofan í tösku eða kassa. Bara eftir að taka tölvuna úr sambandi og setja hana niður. Hildur vinkona ætlar að sækja mig á flugvöllinn, alltaf gott þegar einhver manni kær kemur og tekur á móti manni. Þórunn og Helgi hafa boðið mér í mat þannig að ég fer ekki svöng í lestina. Hinir frábæru nágrannar mínir ætla líka að keyra mér á lestarstöðina á eftir. Þetta er allt saman svoldið skrítið.
Seldi skrifborðið mitt í gær. Kaupandinn var íslensk stúlka að nafni Margrét með smá danskan hreim. Sá líka Danann sem býr við hliðina á mér í fyrsta skipti, laglegasti náungi bara. Mun betur útlítandi heldur en Ítalinn og Eystrasaltsbúinn. Daninn á líka golfsett og veiðistöng, mér finnst það alltaf vera plús þegar strákar eiga sér einhver áhugamál.

Fór áðan og skipti danska klinkinu mínu. Átti um fjögur þúsund ísl. kr. í klinki. Lét skipta því í norskar krónur. Er reyndar að verða pínu stressuð fyrir þessa Noregsför. Veit ekkert hvað þessi sendiherra á eftir að spyrja mig um. Úff...

mánudagur, júní 07, 2004

Fjandinn.
Jæja allt að verða tilbúið fyrir brottför. Bara eftir að pakka síðustu flíkunum, sjónvarpinu og skúra gólfið. Annað kvöld kl. 21:25 held ég af stað til Kastrup með lestinni. Þangað verð ég komin um kl. 2:30 aðfaranótt miðvikudags og svo flýg ég til Osló kl. 7:30 , fundur með sendiherranum kl. 10 og svo tek ég rútu frá Osló til Köben. Svo ætla ég að gista hjá Ásu vinkonu í tvær nætur og hún verður væntanlega samferða mér heim til Íslands á föstudaginn. Það er semsagt mikill flækingur framundan, ég verð bara eins og bisniskona fyrir utan það að bisniskonur ferðast líklega ekki mikið í rútum.

Heima tekur svo líklegast bara saltfiskur við. Þetta verður skrítið sumar held ég, tvær bestu vinkonur mínar verða hvorugar á landinu bróðurpart sumars. En ég hef þó systur mína út júní og náttúrulega Tanusinn. Svo er planið að fara í fjölskylduteiti á Ísafirði fyrstu helgina í júlí og svo jafnvel í nokkra daga til Danmerkur. Já, ég er ekki komin heim og þegar farin að plana ferð til Köben í sumar. Það mætti halda að ég skíti peningum.

sunnudagur, júní 06, 2004

Hum, eins gott að ég er að fara heim til Íslands. Hef tvisvar talað um að þvo "þott", auðvitað veit ég að það er þvottur. Takk fyrir ábendinguna móðir góð.
Fleiri fengu þá frábæru hugmynd en ég að þvo þott þessa helgi. Allt upppantað í gær og í dag þegar ekki þarf að panta tíma var þvottahúsið samt fullt af kerlingum. En þetta er allt að koma á bara eftir að fara x2 í viðbót með þvott upp stigana þessar fjórar hæðir.

Annars er sjómannadagurinn í dag. Alltaf svoldið leiðinlegt að vera ekki heima á þessum degi.

laugardagur, júní 05, 2004

Svaf í rúma átta tíma í nótt án þess að vakna. Hef ekki sofið í svona langan tíma síðan ég var heima í páskafríi. Þetta sýnir hvað ég er afslöppuð eitthvað núna. Er ekki ennþá búin að panta far heim, við Ása vinkona ætlum að reyna að vera samferða. Keypti gjöf handa Tanusnum í bænum í gærkvöldi. Hún verður líklega sú eina sem fær eitthvað þegar ég kem heim. En núna ætla ég að fara niður í kjallara og sjá hvort vélarnar eru ekki lausar, þvo þott hér í síðasta sinn.

föstudagur, júní 04, 2004

Í kvöld gerðist ég alvöru Dani enda ekki seinna vænna. Ég ásamt mínum elskulegu nágrönnum, Þórunni og Helga, hjólaði í bæinn. Þar röltum við um og skoðuðum fólkið og búðir en í dag var allt opið til 12 og því mikil stemning í bænum. Eftir röltið var svo að sjálfsögðu sest niður og fengið sér öl.

Í dag komst það svo líka á hreint að ég fer til Noregs á miðvikudagsmorguninn og tek því næturlest til Köben á þriðjudagskvöldið. Hvenær ég kem svo heim á klakann er ekki alveg komið á hreint en það verður væntanlega á fimmtudag, föstudag. Það er ekki laust við að því fylgi ákveðinn tregi að fara frá Álaborginni.

fimmtudagur, júní 03, 2004

Fór og útréttaði eins og ég ætlaði, fór meðal annars á folkeregistredet til þess að skrá mig út úr landinu. Bráðum verð ég aftur heimilisfastur Skagstrendingur. Fór svo til Þórunnar sem rúntaði með mig upp í skóla og hélt henni svo félagsskap yfir próflestrinum. Lágum úti í sólinni í nokkra tíma og það var bara æðislegt. Ég held ég verði fallega rauð á morgun. Afskaplega gott að slappa svona af og gera eitthvað allt annað en að læra. Núna á svo að fá sér steik, ég er í kjötþörf.

miðvikudagur, júní 02, 2004

Noh, stórtíðindi í íslenskri pólitík. Óli neitar að skrifa undir fjölmiðlalögin. Hvað gerist eiginlega í framhaldinu? Þjóðaratkvæðagreiðsla? Stjórnarkreppa og kosningar? Þetta verður allavega fróðlegt.
Búin, búin, búin. Ó já, ég er búin. Gekk betur en ég bjóst við og ég er bara ánægð. Superinn og sensorinn virtust bara ánægðir með verkefnið eftir allt saman.

Rosalega gott veður úti, ég er viss um að hitinn er yfir 20 stigunum. Sátum úti við skólann og drukkum bjór. Svo fór ég niður í bæ, fékk mér að borða og rölti um bæinn. Ég keypti mér meira að segja einar buxur. Veit svo ekki hvort ég nenni út í kvöld, er alveg ógeðslega þreytt og langar mest bara til þess að sofa, lengi. Svo á morgun byrja ég á öllu því sem ég þarf að gera áður en ég fer heim. En ekki í dag.
Jæja, ég er tilbúin. Tek strætó upp í skóla eftir nokkrar mínútur. Stór hnútur í maganum en eftir nokkra tíma verður þetta búið.

þriðjudagur, júní 01, 2004

Búin að lesa verkefnið og búin að lesa presentation oft yfir og gera smá lagfæringar. Stress og kvíði, vissulega en gæti verið verra. Um hádegi á morgun verður þetta búið og þá þarf ég ekki að fara í neitt próf í hálft ár. Og svo getur þetta varla tekist verr hjá mér en á síðustu önn þannig að...
Fór í morgun og sagði upp herberginu mínu. Varð duldið pirruð þegar konan á skrifstofunni sagði að ég þyrfti að borga leigu fyrir allan júlí mánuð en ekki bara hálfan eins og ég hélt. Ég í ergelsi mínu bölvaði þessu eitthvað á upphátt og nú heldur hún örugglega að ég hati allt sem danskt er.

Er að gera allt í síðasta skipti þessa dagana. Áðan keypti ég síðasta kornflex pakkann og á morgun eða hinn þvæ ég sjálfsagt síðustu þvottavélina. Skrítið að þessi fyrri vetur sé bara alveg að verða búin.

Vörnin er á morgun. Hitt strákana áðan til þess að tala um presentations og búa til glærur og svona. Núna ætla ég lesa verkefnið einu sinni yfir og æfa presentation-ið nokkrum sinnum. Svo er bara að krossleggja fingur og vona það besta. Um tólf leytið á morgun verður þetta búið og þá verður fengið sér bjór upp í skóla. Kemur svo í ljós með framhaldið. Einhvern veginn efast ég um að ég nenni að fara í dönskutíma annað kvöld.