föstudagur, júlí 30, 2004

Var búin í vinnunni snemma í dag eða rétt rúmlega 2. Þetta var reyndar með eindæmum rólegur dagur. Eftir þriggja kortera bið eftir Gústa græna ætlaði ég að klára að mála langstökksplankann en þá kom í ljós að málningin var týnd. Einhverjir krakkar höfðu verið sendir með hana út í bæ og voru búnir með hana. Þá þurfti að útvega nýja málningu og það var ekki gert fyrir eftir kaffi. Ég gerði semsagt ekki handtak fyrir kaffi. Hugtakið framleiðni er greinilega ekki til í orðaforða hrepparanna.

Fékk líka álagningaseðilinn minn í hús eins flestir í dag. Hlakkaði náttúrlega til að sjá ávísun upp á ca. 80 þús og var því ekkert lítið súr þegar við mér blasti rukkun upp á 8 þús. Ég hringdi í skyndi í skattstjórann á Siglufirði og þá er málið að ég flutti lögheimili til Danmerkur á síðasta ári. En ég þarf bara að senda þeim einhverja pappíra og þá fæ ég peninginn.

Það er af sem áður var, ekkert að gerast á Ströndinni um versló. Ég man nú þá tíð þegar fólk var farið að þyrpast hérna á miðvikudag-fimmtudag. En nú er svo komið að ég ætla að fara úr bænum, í fyrsta skipti síðan ég var unglingur. Stefnan er tekin á Eina með öllu á Akureyri og það eina sem ég tek með er svefnpoki og kassi af bjór. Eða ekki. Þetta er meira svona heimsókn til Birnu og Sindra og ég þarf líka að skila Tanusnum. Drykkja mín verður sjálfsagt undir meðallagi. Allavega einhverju meðallagi.

mánudagur, júlí 26, 2004

Pabbi og mamma komin í sumarfrí og því ekki seinna vænna að hefja einhverskonar framkvæmdir. Það er náttúrulega ótækt að slappa af í sumarfríinu. Allavega var pabbi komin út fyrir átta í morgun til að undirbúa komu Gumma frænda. Hann kom svo og þegar ég kom heim í hádeginu var búið að grafa upp lóðina bak við hús. Ef ég myndi núna ætla í sakleysi mínu út á snúru eða að grilla eða eitthvað myndi ég falla niður nokkra metra og sennilega beinbrjóta mig. Út í þessar framkvæmdir er farið vegna þess að núna, næstum 25 árum eftir að við fluttum inn, finnst pabba jarðvegurinn í lóðinni bak við hús alveg ómögulegur og bráðnauðsynlegt að setja möl þarna í stað leirdrullunar. Og svona í leiðinni ætlar hann að leggja dreinlögn sem er víst líka nauðsynleg en þótti það víst ekki eins mikið þarna í lok áttunda áratugarins. Svo það er nóg að gerast í Bankastrætinu og reyndar bara á Skagaströnd almennt. Hér virðist allt gerast í faröldrum, fyrir svona ári geysaði skilnaðarfaraldur en núna geysar öllu skárri pest, húsasölufaraldur. Einhver 5 hús held ég hafa selst núna á stuttum tíma. Allt að gerast.

Og takk fyrir kveðjuna nafna. Álaborgin mín er nú alveg ágæt. Ég sakna hennar nú bara stundum pínu. Næsta sumar ætla ég svo að reyna að skoða mig aðeins um á Jótlandinu fagra :)

laugardagur, júlí 24, 2004

Bara ástand á manni í dag. Er bara komin með rokna kvef, beinverki og svo leiðir þetta út í gómana og eyrun. Ef ég væri kornabarn þá stæði ég svo á orginu núna. Mamma sem er orðin svo heilsu meðvituð á þessum síðustu og verstu, segir þetta vera vegna þess að ég borði ekki nógu hollan mat. Sjálfsagt er eitthvað til í því, fólk eins og hún sem borðar 600 gr. af grænmeti á dag fær sjálfsagt aldrei neinar kveisur. Allavega er þetta gjörsamlega óþolandi. En reyndar ætti þetta að þýða, þar sem ég er meira að segja með smá hita, að ég verði ekki veik aftur fyrr en árið 2006. Nema náttúrulega að ég sé að bila eitthvað á efri árum.

föstudagur, júlí 23, 2004

Takk, takk fyrir commentin ættingjar og vinir austan og vestan við haf. Tók mig reyndar eitt augnablik að fatta "Amó". Ég hringi vestur yfir haf eftir vinnu, er búin að treina það nógu lengi.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Jæja, þá er maður komin aftur út á akurinn. Ég er svoldið svona eins ambátt í suðurríkjunum eða eitthvað, var tekin inn af plantekrunni í smá tíma og fékk að njóta hins ljúfa lífs innan dyra. En allt gott tekur enda. Nei, nei, þetta er ekki svona slæmt. Var úti í góða veðrinu í dag og setti niður sumarblóm, fékk að tjá mitt listræna sjálf með því að raða blómum eftir hæð og lit. Hér er annars allt að skrælna. Það má eiginlega segja að það sé svipað að búa hér og í Kaliforníu nema hér eigum við nóg af vatni til að vökva með. Þetta er ekkert spaug því skyndilega eru reynitré farin að vaxa, hansarósirnar blómstra og birkið sáir sér af sjálfsdáðum. Hérna einu sinni þótti það bara gott ef alaskavíðirinn lifði frá ári til árs. Ég er kannski aðeins að ýkja en Gústi græni sýndi mér sólberjarunna sem hreppararnir settu niður í fyrra og það eru bara komin ber á hann og allt. Ó, sei, sei, já. Og bara svona til þess að forðast allan misskilning þá hefur pabbi ekki fengið á sig viðurnefnið "græni". Þetta er annar Gústi sko, einn af hreppurunum.

Já, og takk fyrir commentin Heiðrún og þið hin sem hafið skrifað eitthvað. Það iljar mínu litla hjarta mikið að fá svona góða kveðjur. Endilega commentið meira takk :)

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Academic
You are Barbatine! You are well-read and love to
learn. You were gloomy in your youth and foundnothing you liked to taste, but you're older now,
and have an incisive sense of humour thatmakes you and others smile.

Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by

mánudagur, júlí 19, 2004

It´s an end of an era eins og maður segir. Ræpan og co. fara norður í dag og má þá segja að þau séu endanlega flutt. Þau voru svosem búin að flytja mest af draslinu sínu og flutt inn í íbúðina en núna er síðasti túrinn hans Sindra búinn, Tanusinn hættur á leikskólanum og komin með annað pláss á Akureyrinni og bara já... þau búa ekki hérna lengur.  Skrítið.
 
Annars sit ég ein hér á skrifstofu hreppsins, allir í sumarfríi og svona. Hugsa reyndar að ég fari nú bara að koma mér heim. Afrekaði það nú annars í morgun að leiðrétta eitt stk. kjaftasögu. Þær þrífast jú einkar vel í svona krummaskuðum. Alltaf gott að gera gagn.

föstudagur, júlí 16, 2004

Fundagerðarbækur hreppsnefndar Höfðahrepps eru á stundum nokkuð áhugaverðar. Ég tek náttúrulega sérstaklega eftir því þegar minnst er á ættingja mína. Ég veit núna að langamma mín hún Kristín Pálsdóttir á Jaðri fékk ellibætur frá hreppnum í nokkur ár. Ekki voru þær nú háar. Afi á Jaðri, a.k.a. Björn Sigurðsson, fékk líka eina dagsláttu í landi Finnstaða skv. ákvörðun hreppsnefndar 17. feb. 1944. Þetta fengu bara landlitlir menn í hreppnum. Mér sýnist líka að 1. mars 1954 hafi hann verið skipaður í vatnsveitunefnd og 18. júní var hann settur sem einn af fjórum dælustjórum í slökkviliði hreppsins.
 
Ég var reyndar að skoða Íslendingabók og skv. henni er ég ákaflega mikill skagstrendingur í móðurættina. Þetta lið var allt ættað frá bæjum hér á ströndinni og hætti sér í mesta lagi austur í Skagafjörð eða í vestur sýsluna til að ná sér í maka. Þetta á við langt aftur í ættir eða 200-300 ár. En svo þarf mamma náttúrulega að ná sér í mann úr annari sýslu, Strandasýslunni, þótt reyndar Melar séu rétt við sýslumörkin. Miðað við forfeður mína er ekkert skrítið þótt mér leiðsit að flytja. Þetta pakk flutti helst ekki neitt. Melaliðið hreyfði sig náttúrulega ekki neitt, bjó bara þarna mann fram af manni og ákvað meira að segja að vera ekkert að skíra of mörgum nöfnum því eins og allir vita er Jón fullgott. Strandarpakkið flutti reyndar eitthvað á milli bæja en aldrei langt og hélt sig allavega á heimaslóðum. Svo er ég að flytja á milli landshluta og jafnvel landa, þetta hæfir náttúrulega ekki mínum "genum".

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Mér er nú bara farið að blöskra jákvæðnin í sjálfri mér. Veðrið er gott, eins og venjulega getur maður eiginlega farið að segja. Ég skemmti mér hjá hreppnum við að lesa gamlar fundargerðir og þetta er ekki sagt í kaldhæðni. Þakka góðar kveðjur frá frænkum mínum og jafnöldrum Þóru og Heiðrúnu sem ég hef séð alltof lítið af síðustu árin. Og Heiðrún, betra veður í Reykjavík en hér? Ég blæs nú á það, trúi því nú seint held ég. Hér rignir nefnilega ekki "alltaf" eins og í Reykjavíkinni jafnvel þó einhverjir veðurfræðingar spái því. Og ef svo ólíklega vill til að einhverjir dropar komi úr lofti þá er það bara á næturnar, mjög hentugt sko.
Jæja best að halda áfram lestri. Er að byrja á lýðveldisárinu 1944 þegar allt var á blússandi siglingu hér í plássinu.

mánudagur, júlí 12, 2004

Afskaplega er maður orðin latur við þetta blogg. Tölvan freistar mín ekki svo mjög þegar líða tekur á sumar. Er annars búin að vera sagnfræðast síðustu daga. Hreppararnir ákváðu að nýta menntun mína og ómældu hæfileika í eitthvað annað en garðstörf. Ég hef því verið að lesa mér til um keragerð til hafnargerðar á Skagaströndinni hér áður fyrr. Alveg ágætt svosem, veit núna að það var bölvað vesen að gera eitt stk. höfn í gamla daga svo vel væri.

Annars líður mér bara ósköp vel á Ströndinni minni þessa dagana. Ósköp gott og gaman að heilsa öðrum hverjum manni sem maður hittir og kannast líka alveg við hina. Hér er líka komið svo ágætt kaffihús í gamla skólann sem var verið að gera upp. Það er reyndar bara alveg frábært myndi ég segja. Ég sannfærist alltaf meira og meira um það að ég væri alveg til að búa hér hluta úr ári. Hvort ég vildi búa hér að staðaldri veit ég ekki, alltaf þegar ég er hérna er ég á leið eitthvert annað og veit því ekki hvernig hitt væri. Ekki spillir heldur góða veðrið fyrir. Í dag er ágætt veður en á föstudaginn var það æðislegt. Ég nýtti náttúrulega tækifærið og fór spjallaði við tvo eldri karla sem muna eftir kerjasmíðinni.
Jæja, læt þetta duga að sinni.
Já og takk fyrir commentið Bjarkey. Það getur vel verið að ég nýti mér þetta.

sunnudagur, júlí 04, 2004

Komin heim eftir velheppnaða ferð til Ísafjarðar. Mætingin hjá fjölskyldunni minni var hundrað prósent, öll systkinin mætt ásamt mökum og afi og amma líka. Við gistum öll á hótel Ísafirði eins og kóngafólk, flottasta hótel sem ég hef gist á og í fyrsta skipti var ég ein í herbergi á hóteli. Þetta var bara frábært. Svo var veisla á föstudagskvöldið þar boðið var upp á ýmsa gómsæta rétti og drykki. Ég tók þetta náttúrulega með trompi og gaf öllu góð skil, sérstaklega þó rauð- og hvítvíninu þegar líða tók á kvöldið. Þetta olli því að það losnaði um málbeinið og ég talaði heilmikið við flesta þá ættingja mína sem staddir voru þarna. Semsagt mikið stuð og mikið gaman. Verst að ég þarf að fara í vinnuna á morgun.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Er að fara til Ísafjarðar í afmæli/útskriftarveislu. Er guðslifandi fegin því það þýddi að ég þurfti að taka mér tvo daga frí í vinnunni þessa viku. Vinnan er semsagt hundleiðinleg. Jú, jú ég fæ að vera úti og jú, jú ég sit ekki á rassinum allan daginn en það breytir því ekki að þetta er leiðinlegt. En svona er lífið og þetta verða bara örfáar vikur. Nú er aðalmálið að finna húsnæði í Osló fyrir næsta haust, helst í miðborginni. Það gengur ekki nógu vel. En sjálfsagt reddast það eins og annað.
Mér tókst að sólbrenna aðeins á eyrunum í skemmtilegu vinnunni minni, var voða dugleg að setja vörn framan í mig en hver man eftir því að setja sólarvörn á eyrun? En þetta er ekkert alvarlegt, er bara smá rauð.
En nú hætti ég að kvarta og kveina, margra stunda roadtrip í vændum og veisla annað kvöld. Ég hef aldrei fyrr komið á vestfirðina og það verður gaman að sjá hvernig mér á eftir að líða þröngum firði svona nálægt fjöllunum. Þegar ég fór til að mynda til Siglufjarðar fyrir ca. sjö árum síðan þá leið mér bara illa þar. Fannst fjöllin þrengja óþægilega mikið að mér og vildi bara komast sem fyrst út. Skrítið því ég kom þarna nokkrum sinnum sem krakki og þá var mér alveg sama. Jæja, hætti þessu blaðri, þarf að drífa mig af stað fljótlega.