fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Mér finnst gaman að læra. Ég er búin að fá yfir mig nóg af "alvöru" lærdómi en mér finnst mjög gaman að dunda við tungumálanám. Ég held ég sé bara búin að finna hobbýið mitt. Spurning um að hætta sér svo einhvern tímann á næstu árum aðeins út fyrir þetta bóklega. Fara á námskeið í matreiðslu, dansi eða fatasaum til dæmis. Annars byrja ég á námskeiði hjá mömmu í kvöld í ullarsokkagerð. Ég þarf ullarsokka en kann ekki að prjóna þá. Ég að kann að vísu að fitja upp og prjóna en ekki mikið meira, hef ekki hugmynd um hvernig maður býr til hæl. Mamma verður ekki eilíf frekar en aðrir og við vonum báðar að hún fari á undan mér. Og þá verður gott að geta prjónað sér ullarsokka.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Hermi eftir Helgu frænku og geri fernu. Verð þó að breyta henni aðeins.

Fjórir sjónvarpsþættir: Bráðavaktin (nema hvað), Matador (eins og Helga frænka), Yngismær (brasilísk sápa sem sýnd var á Rúv)og Friends (horfðum alltaf á í þynnku og öðrum leiðindum).

Fjórar bíómyndir: Shawshank redemtion, Seven (hefur aldrei liðið eins illa eftir bíóferð), Pretty woman (ég veit...ég var á "viðkvæmum" aldri)og Sódóma (fór með pabba í bíó).

Fjórir staðir sem ég hef búið á í Reykjavík (alltof mikill dreifari til að hafa það 101 eða austan eða vestan við læk): Safamýri, Kvisthagi (hjá Helgu frænku), Eggertsgata, Nýlendugata.

Fjórir staðir sem ég hef búið á úti á landi: Jaðar (á Skagaströnd), Bankastræti, Spítalavegur (Akureyri) og Furulundur (líka á Akureyri).

Fjögur störf sem ég hef gripið í: au-pair, afgreiðslustúlka í bakaríi, málari, fiskverkakona.

Gott að borða: lambakjöt með bernes, kims flögur með sýrðum rjóma og lauk, skinkuhornin hennar mömmu, lambapottrétturinn hennar ömmu.

Fjórir staðir ég vildi heldur vera á:
Í götunni í Álaborg með Þórunni sötrandi bjór, í kartöflugarðinum í Selvík að taka upp kartöflur, í sól og sumaryl á nær mannlausri, afskektri eyju og labbandi niður Karl Johan í Osló á kyrru og köldu vetrarkvöldi.

Fjórir staðar sem ég hef heimsótt í fríum:
Tívolíið í Köben, Costa des Sol á Spáni (aðallega barir og næturklúbbar þar), Chitzen Itza í Mexíkó, Radio City Music Hall í New York.

Fjórar slóðir sem ég kíki oft á:
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/frontpage
http://www.skagastrond.is/
http://www.skolavefur.is/
http://laertes.webct.is/webct/entryPageIns.dowebct

föstudagur, febrúar 17, 2006

Það er ástand. Hríðargarg annan daginn í röð. Svosem engin stórhríð, sést alveg á milli húsa, en alveg nóg samt. Það versta í þessu er að subaruinn er bilaður og litli dæjarinn er nú ekki til stórræðanna í snjó. Þetta þýðir að maður þarf bara að labba úr og í skóla og það er ekkert skemmtilegra en þegar ég var krakki þó ég fari heldur hraðar yfir núna. Vill til að góðhjartaðir samborgarar á jeppum taka mann gjarnan upp í.
Í gær samdi ég fyrsta "leikritið" mitt. Ég ætla ekki að halda áfram á þeirri braut. Í næstu viku er árshátíð í skólanum og partur af því að vera umsjónarkennari er að vesenast í því með bekknum sínum. Ekki mitt uppáhald.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Það eru byrjaðir ólympíuleikar í sjónvarpinu, ég elska Ólympíuleika sem og flest önnur stórmót í íþróttum en Ólympíuleikarnir eru náttúrulega það besta. Ég varð verulega fúl fyrir fjórum árum þegar ekkert var sýnt frá leikunum í Salt Lake city. En allavega, ég hef legið yfir þessu í dag, horfði á brunið og svo skíðagöngurnar tvær. Skíðagangan hjá körlunum var æsispennandi, á endasprettinum var ég staðin upp til að hvetja minn mann til dáða. Ég held semsagt alltaf með Norðmönnum sem er ágætt því þeir eru nú sterkir í þessum greinum. Frode Estil er hetja dagsins. Hann datt í byrjun göngunnar, fékk tvo ofan á sig og braut annað skíðið. Á endanum varð svo þessi brosmildi nojari í 2. sæti og vantaði bara herslumuninn í það fyrsta. Annars eru þessir skíðagöngumenn svolitlir töffarar. Þetta er ægilega erfið íþrótt en pínu hallærisleg ásýndar svo þeir eru eiginlega svona svalir nördar.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Búið að vera vitlaust að gera svo ég ekkert farið á netið alla vikuna nema rétt til að tékka á póstinum mínum. Mér öðruvísi áður brá.
Það voru semsagt annarpróf í síðustu viku og ég þurfti þessvegna að setja saman fjögur próf, eitt í dönsku og þrjú í samfélagsfræði. Dönskuprófinu stal ég héðan og þaðan úr gömlum prófum gerðum af mér færari fólki í því fagi en frumsamdi hin. Og það, skal ég segja ykkur, tekur sinn tíma. Fyrst var það sögupróf úr 18. og 19. aldar mannkynssögu, Franska byltingin, Iðnbyltingin og önnur slík gleði. Svo var það 20. aldar Íslandssaga, stríðsárin, kalda stríðið og svleiðis. Að lokum var það þjóðfélagsfræðin sem vafðist einn að mest fyrir mér, alþjóðavæðing, ESB, EFTA og Sameinuðu þjóðirnar og annað sem því tengist. Svo var það yfirferðin, u.þ.b. tíu stk. af hverju prófi sem mér fannst bara fjandans nóg. Guð minn góður ef ég kenndi bara eitt fag í einum bekk og hefði kannski þurft að fara yfir 100 stk. af Frönsku byltingar/Iðnbyltingar prófinu. Nei, þá vil ég nú frekar þurfa að semja fleiri próf.

Sökum þessa fór ég bara einu sinni í leikfimi í vikunni og er komin slatta á eftir í fjarmáminu í dönskunni og frönskunni en ég ætla að ná því upp núna í vikunni. Í dag og í gær hef ég úðað í mig óhollustu eins og snakki og gosi og haft félaga í sukkinu því Birna og Tanusinn eru hérna hjá mér. Þetta er svoldið öfugsnúið, þær eru hér en mamma og pabbi eru á Akureyri í menningarreisu.

Annars bara eintóm gleði og hamingja. Líkar vel í vinnunni og allt það. Eiginlega enginn snjór, bara engin stórhríð síðan ég kom heim. Ég er bara eins og blóm í eggi hér á ströndinni. Það er meira orðið svo að ég nenni bara alls ekki til Reykjavíkur. Jamm, það er bara ves. Þriggja tíma keyrsla og svo að endasendast fram og aftur um þetta asnalega flæmi í þessari leiðinda umferð. Ég læt mig nú samt sjálfsagt hafa það að skjótast þetta þegar líða fer að vori.

Og eitt. Ég fór til augnlæknins í vikunni, hef ekki farið síðan árið 2000. Ég var viss um sjónin í mér hefði versnað en nei, nei. Hafði hún þá ekki bara skánað á öðru auga, þetta hefur aldrei gerst áður. Svo að ég er aðeins minna næstum blind. Annars er mér farið að langa ansi mikið í laiser.

En jæja, nóg komið.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Er að undirbúa kennsku í samfélagsfræði í 9. bekk, ætla að tala um kalda stríðið sem var búið þegar þau fæddust.

Annars bara fínt að frétta, nóg að gera eins og venjulega. Eftir vinnu ætla ég að klára að læra í dönsku og svo er það leikfimin kl. 6. Ég er semsagt í tveimur áföngum í fjarnámi, dönsku og frönsku. Ég missi því af leiknum við Króatana í dag.

Skrapp norður á Akureyri á laugardag og var fram á sunnudag. Birna og Sindri fóru á þorrablót og ég passaði Tanusinn. Við sungum, fórum í feluleik, spiluðum svona lita útgáfu af veiðimanni og dönsuðum. Jamm, daman heimtaði að við dönsuðum við Júróvisjón. Ég fékk það í gegn að við dönsuðum bara við annað hvort lag. Svo borðuðum við nátturulega pitsu og snakk en Tanja virðist vera sami snakk fíkillinn og ég. Semsagt mikil gleði og mikið fjör.

Að lokum nokkrir punktar:

Danmörk versus Íslam: Jyllandsposten á að biðjast afsökunnar. Maður gerir ekki grín af ákveðnum hlutum. Sumir hlutir eru bara heilagir. Það eru ábyggilega einhverjir hlutir sem ég eða við erum viðkvæm fyrir. Það er reyndar ekki guð og kristin trú í mínu tilfelli þar sem ég er ekkert sérstaklega trúuð en það er þá bara eitthvað annað.

Herra Ísland: Fátt hallærislegra en að vera kosinn herra Ísland nema ef vera skyldi að vera svo rekinn úr djobbinu. Hvað er þetta líka með hárið á drengnum? Hann eyðir sjálfsagt helmingnum af deginum í að "stæla" það.

Ísland versus Rússland: Ég hafði ekki minnstu trú á að þeir myndu vinna þennan leik. En annað koma á daginn. Ég er jafn svartsýn fyrir Króataleikinn.