laugardagur, febrúar 11, 2006

Búið að vera vitlaust að gera svo ég ekkert farið á netið alla vikuna nema rétt til að tékka á póstinum mínum. Mér öðruvísi áður brá.
Það voru semsagt annarpróf í síðustu viku og ég þurfti þessvegna að setja saman fjögur próf, eitt í dönsku og þrjú í samfélagsfræði. Dönskuprófinu stal ég héðan og þaðan úr gömlum prófum gerðum af mér færari fólki í því fagi en frumsamdi hin. Og það, skal ég segja ykkur, tekur sinn tíma. Fyrst var það sögupróf úr 18. og 19. aldar mannkynssögu, Franska byltingin, Iðnbyltingin og önnur slík gleði. Svo var það 20. aldar Íslandssaga, stríðsárin, kalda stríðið og svleiðis. Að lokum var það þjóðfélagsfræðin sem vafðist einn að mest fyrir mér, alþjóðavæðing, ESB, EFTA og Sameinuðu þjóðirnar og annað sem því tengist. Svo var það yfirferðin, u.þ.b. tíu stk. af hverju prófi sem mér fannst bara fjandans nóg. Guð minn góður ef ég kenndi bara eitt fag í einum bekk og hefði kannski þurft að fara yfir 100 stk. af Frönsku byltingar/Iðnbyltingar prófinu. Nei, þá vil ég nú frekar þurfa að semja fleiri próf.

Sökum þessa fór ég bara einu sinni í leikfimi í vikunni og er komin slatta á eftir í fjarmáminu í dönskunni og frönskunni en ég ætla að ná því upp núna í vikunni. Í dag og í gær hef ég úðað í mig óhollustu eins og snakki og gosi og haft félaga í sukkinu því Birna og Tanusinn eru hérna hjá mér. Þetta er svoldið öfugsnúið, þær eru hér en mamma og pabbi eru á Akureyri í menningarreisu.

Annars bara eintóm gleði og hamingja. Líkar vel í vinnunni og allt það. Eiginlega enginn snjór, bara engin stórhríð síðan ég kom heim. Ég er bara eins og blóm í eggi hér á ströndinni. Það er meira orðið svo að ég nenni bara alls ekki til Reykjavíkur. Jamm, það er bara ves. Þriggja tíma keyrsla og svo að endasendast fram og aftur um þetta asnalega flæmi í þessari leiðinda umferð. Ég læt mig nú samt sjálfsagt hafa það að skjótast þetta þegar líða fer að vori.

Og eitt. Ég fór til augnlæknins í vikunni, hef ekki farið síðan árið 2000. Ég var viss um sjónin í mér hefði versnað en nei, nei. Hafði hún þá ekki bara skánað á öðru auga, þetta hefur aldrei gerst áður. Svo að ég er aðeins minna næstum blind. Annars er mér farið að langa ansi mikið í laiser.

En jæja, nóg komið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home