sunnudagur, maí 28, 2006

Fyrstu og síðustu tölur komnar í Höfðahrepp, a.k.a. Skagaströnd, S-listinn fékk 3 menn og L-listinn 2. Þess ber að geta að listabókstafirnir eiga lítið skylt við landsmálapólitík, S stendur fyrir Skagaströnd og L fyrir lýðræði ef ég man rétt. Annars er nú bara gaman að fá að kjósa yfirleitt, síðast var sjálfkjörið hér á ströndinni.

Ég efast um að ég nenni að vaka mjög lengi frameftir og horfa á kosningavökuna. Ég verð eitthvað svo pirruð við að horfa á þetta lið, bæði pólitíkusuna og fréttamennina. Hann Kristján þarna er til dæmis óþolandi stressaður, er óðamála og flettir þessum andsko... spjöldum eins og hann eigi lífið að leysa. Þeir eru líka pirrandi hver á sinn hátt Dagur og Vilhjálmur svo ég tali nú ekki um frjálslynda lækninn. Hún þarna frá Vinstri-Grænum er eiginlega skást þó mér hugnist nú ekki pólitíkin þar.

fimmtudagur, maí 25, 2006

Systir mín er byrjuð að blogga. Ældi því loksins út úr sér á commentakerfinu hérna, hefur verið að síðan á frídegi verkalýðsins. Ég tók bakföll af hlátri við lesturinn því hún getur svo sannarlega skrifað stelpan. Mæli því eindregið með þessu.

þriðjudagur, maí 23, 2006

23. maí í dag. Úti er hríð. Sumardekk virka ekki í snjó. Próf í næstu viku.

fimmtudagur, maí 18, 2006

Fór á Siglufjörð í gær í vorferðalag með krökkunum. Fórum m.a. á síldarminjasafnið sem safnanördanum mér fannst náttúrulega mjög gaman. Annars er andrúmsloftið á Siglufirði hálf sorglegt svo ég leyfi mér að taka svo til orða. Fólkinu hefur fækkað svo á síðustu árum að nú búa meira en helmingi færri þarna en bjuggu þegar flest var. Fólki er svosem að fækka á flestum svona krummaskuðum úti á landi, líka hér á Ströndinni, en þetta er einhvern veginn sérstaklega áberandi á Siglufirði. Þar eru svo mörg gömul hús sem sýna að þetta var ein sinni bær með bæjum. Hér er ekkert svoleiðis.

En hvað er þetta veðrið, ömurlegt. Ógeðslegur skítakuldi, ég mótmæli, ég mótmæli harðlega.

föstudagur, maí 12, 2006

Fjórði dagur í flensu. Held alltaf að ég sé nú að skána en enda í hálfgerðu móki á kvöldin með yfir 39 stiga hita. Hef ekki fengið svona alvöru flensu í langan tíma, allavega ekki síðan ég fór til Danmerkur. Það eru samt alltaf einhverjir ljósir punktar, ég er þó ekki með ælupest. Nóttin sem ég eyddi á klósettinu í Nýlendugötunni hér um árið með þess konar pest er mér nefnilega enn í fersku minni.

Bælið kallar.

laugardagur, maí 06, 2006

Fíni pallurinn hans pabba var formlega tekinn í notkun í dag. Hentum folaldakjöti á grillið og sötruðum bjór. Frábært að borða úti á stuttermabol í byrjun maí, man bara varla eftir slíku. Vonandi veit þetta á gott fyrir sumarið. Minnti mig barasta á Álaborgina.

Hvernig væri nú að heimsækja mig og nýja pallinn í sumar??