þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sumar og sól enn einn daginn, þetta veður er ekki einleikið. Það er svo ekki heitt reyndar enda ekki við því að búast í apríl en veðrið er gott.

Góð helgi að baki. Laugardeginum eytt með Beggu og Guðjóni litla. Við tókum nokkurs konar át fest, elduðum kjúkling og núðlur og í desert voru súkulaði rúsínur og doritos með gvagamóli (kann ekkert að skrifa þetta). Svo eyddum við dágóðum tíma í það að skoða fasteignaauglýsingar á netinu enda hyllir væntanlega undir fasteignakaup hjá okkur báðum núna með haustinu. Á sunnudaginn fór ég með mömmu og pabba til Akureyrensis að heimsækja Birnu, Sindra og Tönju sem var náttúrulega sérdeilis ánægulegt. Í gær fór ég svo í ungbarnasund og er ekkert smá stollt af honum Guðjóni. Nú er sko kallinn ekki með neitt múður heldur tekur þessu öllu með stóískri ró og skríkti meira að segja aðeins. Ég tók eina dýfingu og held ég að hún hafi verið mun erfiðari fyrir mig en hann, manni finnst svoldið skrítið að dífa þriggja mánaða gömlu barni svona á bólakaf.

En jæja, lesturinn bíður. Er að lesa púra kenningar núna svo að þetta gengur hægt. En er bara nokkuð jákvæð núna, er bara öll að komast í ritgerðar skriftar/pælinga gírinn.

föstudagur, apríl 22, 2005

Sit hér á Fellsbraut númer eitthvað á ströndinni og hef yfirumsjón með þremur börnum, á áttunda, fjórða og öðru ári. Tíminn líður ótrúlega hratt enda fullt djob að fylgjast með þremur stykkjum. Er meðal annars búin að skipta á einni mjög svo huggulegri kúkableyju. En þetta eru fínir krakkar enda skyldir mér, pabbi þeirra og ég erum systkinabörn.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Sumardagurinn fyrsti í dag og það heilsar almennilega þetta árið með sóskini og því sem næst logni. Það frýs ekki saman í þetta skipti sýnist mér á öllu.

Annars nóg að gera þessa dagana. Er að lesa, mismikið þó, og það er komin svoldil mynd á ritgerðina í hausnum á mér. Í maí fljótlega hefjast síðan skriftir. Þar fyrir utan er það bara agalega heilbrigt og gott líferni, gönguferðir, ferðir í ræktina, nokkuð hollt fæði, ekkert áfengi og lítið kók. Jamm, nú er svo komið að ég þori varla að láta mömmu sjá mig með kóla drykk því hún horfir á mann með mjög svo alvörugefnu augnaráði og hristir höfuðið. Kók er nefnilega drykkur djöfulsins. Maður ætlar seint að losna undan áhrifum foreldra sinna. Á morgun gerist ég svo barnapía, ætla að líta eftir þeim systkinum Guðnýju Evu og Ingólfi eina dagstund. Það verður fróðlegt. En nú verð ég að fara, pabbi er að reka á eftir mér. Það er nefnilega opinn dagur í vinnunni hjá mömmu. Ég fæ víst að sjá lifandi fiska og smakka saltfiskrétti og fleira skemmtilegt. Jamm, alltaf nóg að gerast á ströndinni.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Nú þekki ég sko ströndina mína, kom heim í gær í leiðinda gargi. Veðrið er reyndar orðið allt í lagi núna en það er komin smá snjór, meiri en var í Danmörkunni. Greinilegt að maður er komin heim, fer á eftir og gef fuglunum.

Fyrsti viðkomustaður í gær var hjá Beggu enda nennti ég ómögulega að labba heim með draslið í vonda veðrinu. Eyddi dágóðri stund hjá henni og Guðjóni litla sem náði að bræða mig gjörsamlega með góðum skammti af brosum og hjali. Já, það tók ekki langan tíma. Nú er hann ekki lengur eitthvað ungabarn heldur alveg sérstakt ungabarn, komin í fríðan hóp nokkurra slíkra barna. Bráðum fer ég sjálfsagt að segja fólki sögur af afrekum hans eins og hinu guðbarni mínu, Tanusnum.

Í dag var það svo bara vinur minn hann Sieglinde Gstöhl og bókin hans um Noreg, Svíþjóð, Sviss og ESB. Byrjaði að lesa um 9 og var bara að hætta sem mér þykir nú bara nokkuð vel að sér vikið svona þegar maður er að byrja aftur að læra að einhverju viti.

mánudagur, apríl 04, 2005

Jæja, held að nóg sé að verða komið að heimildasöfnun í bili. Stefni því að heimferð á morgun og hefst þá lestur þess sem ég hef sankað að mér hér. Er líka alveg búin að fá nógan Reykjavíkur skammt. Það er ekki gaman að vera gestur í borg nema maður eigi nógan pening og svona. Almenningssamgöngur hér í borg eru líka náttúrulega bara hlægilegar svo ekki sé kveðið fastara að orði. Mér hefur liðið svoldið eins og útlendingur hér þessa daga, útlendingur sem talar málið og ratar óvenju vel. Ég hef líka hagað mér dáldið eftir því, heimsótti meðal annars nýja þjóðminjasafnið í gær. Það var reyndar mjög fínt og eyddi ég þar góðum tveimur tímum. En eftir sólarhring verð ég komin heim í sveitina sem er gott.

laugardagur, apríl 02, 2005

"Hvað finnst þér um Auðun Georg og Fisher?" Jamm, það er engin hætta á að maður lendi í vandræðalegum þögnum í samræðum við fólk þegar svona stórmál eru efst á baugi.

Er hér á bókhlöðunni, búin að finna, skoða og ljósrita mikið af bókum og greinum. Annars held ég að ég sé að fá eitthvað panic attack, hef miklar efasemdir varðandi ritgerðina og námið almennt. Efast líka um að ég fái einhverja vinnu þegar þessu er lokið, finnst ég stundum hvorki hafa nógan metnað eða áhuga til þess að komast eitthvað áleiðis í þessum geira. Kannski ég bara klári þetta og byrji svo upp á nýtt. Ætli lánasjóðurinn leyfi mér það?
Nei, nei, myndin er nú ekki alveg svona dökk, hef bara ekki alveg verið upp á mitt besta síðustu daga. Kvef, hálsbólga, beinverkir og versti hausverkur sem ég hef fundið fyrir lengi. Er búin að taka sem samsvarar tveggja ára skammti af verkjatöflum síðustu daga.