þriðjudagur, október 31, 2006

Hef nú gerst Breiðhyltingur, flutt til byggða úr kuldanum og trekkinum í Grafarholtinu. Það er leiðinlegt að flytja, bara alltof mikið vesen fyrir minn smekk. Er líka orðin stoltur ísskápseigandi. Hann heitir Gram og er útlitsgallaður og sómir sér vel í ört stækkandi hópi rafmagnstækja í minni eigu. Hópurinn samanstendur semsagt af ísskápnum góða og sjónvarpinu sem ég keypti mér þegar ég bjó hjá Helgu frænku í Kvisthaganum.

Líkar ágætlega í nýju vinnunni. Er enn náttúrulega að komast inn í hlutina og er ekki einu sinni komin með mail.

þriðjudagur, október 24, 2006

Ég er komin með vinnu, byrja á morgun. Jamm, ég get loks farið að bera höfuðið hátt og svarað hinni ótrúlega algengu spurningu um hvað ég geri án afsakana og útskýringa. Fyrir nokkrum árum (svona 10) var alltaf verið að spyrja mann um aldur en nú er það stétt og staða sem skiptir mestu máli.
Atvinnuleysi er annars óttalega leiðinlegt ástand, sérstaklega svona mitt í hinu títt nefnda góðæri. Iðjuleysi er líka rót alls ills, að þessu leyti eru foreldrar mínir og svosem fjölskylda öll góðir og gegnir mótmælendur.

þriðjudagur, október 10, 2006

28. afmælisdagurinn minn runninn upp. Ég er enn vakandi vegna þess að ég átti eftir að skila frönskuverkefni sem ég var náttúrulega orðin alltof sein með.
Þetta þýðir að nú fer veturinn að leggjast yfir með tilheyrandi myrkri og andlegum drunga. Aðgerðarleysi síðustu vikna bætir heldur ekki úr skák, það eru nefnilega takmörk fyrir því hvað hægt er að gera mikið af engu.
Nóg komið af sjálfsvorkunn í bili, best að fara að lúlla.

mánudagur, október 02, 2006

Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað nýfædd börn eru lítil eitthvað og hvað þau gera afskaplega lítið. Og hvað það, þrátt fyrir þetta, er afskaplega gaman að horfa á þau og handfjatla þau. Síðustu daga hef ég semsagt verið að gera akúrat þetta, dást að litla frænda mínum. Gæti ekki verið betra svona mitt í atvinnuleysinu.

Frændinn er náttúrulega afskaplega fallegt barn og ótrúlega líkur systur sinni. Enda engin ástæða svosem til að breyta góðri uppskrift. Svo ilmar hann hreint dásamlega.