miðvikudagur, ágúst 20, 2003

Í gær kvaddi ég eina af bestu vinkonum mínum. Núna er hún væntanlega stödd í Park Slobe í Brooklyn í örmum síns heittelskaða. Þetta var voða skrítið, reyndum að segja ekki takk fyrir allt og það allt saman því við vorum ekkert að kveðjast fyrir fullt og allt. En samt soldið því við höfum verið eins og hjón síðustu árin. Ég verð nú að viðurkenna að tárakirtlarnir fóru aðeins af stað en það er svosem ágætt að þeir fái æfingu fyrir næstu viku.

Keypti mér tölvu og ferðatösku í fyrradag, hef aldrei eytt svona miklu á einum degi. Mér hefur reyndar ekki enn tekist að nettengja hana svo ég er bara á tölvunni hennar mömmu. Kemur alltaf einhver error og ég er engin sérfræðingur og ég þarf hvort eð er að gera þetta allt upp á nýtt í Danmörkunni. Ferðin mikla færist því enn nær á morgun ætla ég að ganga frá bankamálum.
Hörð átök eru á milli spennu og kvíða um þessar mundir og er með öllu óvist um úrslit.

fimmtudagur, ágúst 14, 2003

Var búin að skrifa einhvern helling en klúðraði því einhvern veginn. Fjandans drasl. Nenni ómögulega að endurtaka mig enda ekkert að gerast þannig.

föstudagur, ágúst 08, 2003

Búin að vera heima í viku. Geri lítið annað þessa dagana en það sem mér finnst skemmtilegt. Sef og borða mikið, horfi á sjónvarp á ýmsum tímum, fer niður á róló, rúnta, spjalla og ligg í sólbaði. Skrítið að vera búin að slappa af í viku og ætla að halda því áfram. Það hefur bara aldrei gerst áður held ég. Ég tók í fyrsta skipti sumarfrí síðasta sumar og það var einmitt bara ein vika.

Síðasti dagurinn í vinnunni var skrítinn. Komst að því að ég var búin að sanka að mér ótrúlegasta drasli sem fór mest allt beint í ruslið.

Hrós dagsins og vikunnar fær bifvélaverkstæði KS á Sauðárkróki. Þeir voru ódýrari og skiluðu betra verki en okrarnir í Heklu.
Skammirnar fær engin. Ótrúlegt en satt þá dettur mér engin í hug. Lífið er bara alltof þægilegt og ljúft eins og er til þess að hugsa um svoleiðis.

föstudagur, ágúst 01, 2003

Gisti hjá afa og ömmu í Bólstaðarhlíðinni í nótt. Borðaði þvi hjá þeim í gærkvöldi og fékk kjúkling í fyrsta skipti hjá ömmu. Afi borðar nefnilega ekki kjúkling og hann neitaði staðfastlega að smakka á honum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ömmu til þess að fá hann til þess. Hann sagði það vera vanvirðingu við lambið að borða kjúkling. Hann var fjárbóndi í 50 ár. Fuglaætur er í hans huga eitthvað svipað og grænmetisætur, fólk sem borðar skrítin mat.
Síðar um kvöldið fékk ég svo eftirmat, nema hvað. Himnasæla nefndist hann og það voru orð að sönnu, marenge með rjóma og haug af jarðaberjum, bláberjum og kíví og ís með. Nammi, nammi, namm.
Hér í vesturbænum er megn skítalykt. Ég er ekki að tala um skítalykt í óeiginlegri merkingu heldur hefur einhver vesturbæingur greinilega ákveðið að dreifa skít um lóðina sína. Mér líður bara eins og ég sé komin í sveitina, ekki sveitina mína heldur svona alvöru sveit.
Jæja þá er síðasti dagurinn í vinnunni runninn upp og ég get ekki beðið eftir því að hann verði búinn.