sunnudagur, júlí 30, 2006

Ég er íbúðareigandi. Reyndar hef ég ekki minnstu hugmynd um hvar þessi íbúð er, hvernig hún lítur út eða hvað hún kostaði. En Sparisjóðirnir sendu mér fallegan póst þar sem mér var óskað innlega til hamingju með íbúðarkaupin og boðið lán til innrétta hana smekklega. Og varla ljúga svona virðulegar stofnanir.

Eftir að hafa hlegið svolítið af þessu ákvað ég að hringja í þá og grenslast fyrir um afhverju ég hefði fengið þennan póst og á hvaða upplýsingum markaðsdeildin hefði byggt þessa sendingu sína. Maður fer nefnilega aldrei of varlega á þessum síðustu og verstu. Hver vissi nema einhver ósvífinn hvítflyppi væri búinn að ræna "identity-inu" mínu og versla sér íbúð, bíl og hver má vita hvað út á kennitöluna mína. Annað eins hefur nú gerst. Svo ég hringdi, var gefið samband nokkrum sinnum og lenti síðan á konu sem nennti að athuga þetta fyrir mig og hringdi meira segja í mig aftur seinna um daginn. Málið var semsagt að þetta var sent á mig vegna þess að ég flutti lögheimili mitt á árinu.

Mér finnst þetta "leim". Frekar mikið að ætla öllum sem skipta um lögheimili að þeir séu að kaupa íbúð. En kannski er þetta bara aldurinn, aldur minn þ.e. Að 27 ára einstaklingur sem flytji lögheimili sitt hljóti nú bara að vera að kaupa íbúð. Þá er það víst ég sem er "leim".

laugardagur, júlí 22, 2006

Þvílík gleði, þvílík hamingja, sumarið er komið. Brast á með 20 stiga hita á ströndinni í dag, loksins engin leiðinda hafgola. Er því búin að vera úti í mest allan dag, fyrst að mála með mömmu og bræðrum hennar niðri á Jaðri og svo úti á palli þar sem að sjálfsögðu var grillað og etið í tilefni dagsins. Núna er ég svo að hugsa um að fara út að labba með elsku i-podinn minn.

Setti á mig sólarvörn meira að segja....ahhhhhhhhhh....

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Er komin aftur í bankann eftir velheppnaða suðurreisu. Brúðkaupið tókst vel og ég held ég hafi komist nokkuð skammlaust frá veislustjórninni. Ég grenjaði ekkert við athöfnina enda hefði það verið stórslys eins stríðsmáluð og ég var í framan. Það var ansi þreytt ég sem fór að sofa á laugardagskvöldið eftir tvo daga við brúðkaup og brúðkaupsundirbúning hvers konar.

Nú bíður maður bara eftir næstu helgi. Spáin lítur enn sem komið er ansi vel út hérna á mínu svæði. Gæti reyndar orðið eitthvað svalt hér alveg við ströndina en þá kíkir maður bara eitthvað aðeins inn í land.
Mig langar svo í einn svona 20 stiga dag.

Þar til síðar.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Fór á Akureyrina í gær til að versla mér föt fyrir brúðkaupið næstu helgi. Tókst að finna og kaupa festlegan alklæðnað og skó í stíl á innan við klukkutíma, búin fyrir hádegi. Svona eiga verslunarferðir að vera, ekkert hangs og ekkert vesen. Það þarf ekki einu sinna að stytta eða laga neitt.