föstudagur, apríl 27, 2007

Mér er illt í hendinni. Hingað kom Þjóðverji áðan sem spurði mig spjörunum úr um íslenskan vinnumarkað og horfurnar í efnhagsmálum. Ánægja hans með þjónustuna kom út á handabandinu í lok hins langa samtals og ég sit sár eftir. Verð að fara að veita verri þjónustu.

Ég er utan að landi og fer svosem ekki í felur með það. Áðan hneykslaði ég alla í vinnunni með því að segja að ég hefði leitað að og reyndar fundið Heiðmörk um daginn. Fyrir þann tíma hafði ég barasta aldrei komið í þessa útivistarparadís höfuðborgarbúa og bara haft óljósa hugmynd um staðsetningu hennar. Ég svaraði fyrir mig og spurði hversu margir rötuðu í Kálfshamarsvík sem er fallegur staður rétt utan við Ströndina. Engin vissi það. En reyndar hefur ekkert þeirra búið í einhver 4-5 ár á Skagaströnd eða í nágrenninu.

þriðjudagur, apríl 17, 2007


Ég er einn af þessum óákveðnu kjósendum sem langar svo að kjósa "rétt". Í fávisku minni hélt ég að þegar kosningar væru í nánd myndi rigna yfir mann loforðum og gylliboðum frá stjórnmálaflokkum sem vilja mitt dýrmæta atkvæði. Ég ætlaði semsagt að láta þá koma til mín, frekar en að ég þyrfti að afla mér upplýsinga sjálf. En nei, ekkert gerist. Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að hápumktur laugardagsins 12. maí n.k. væri Eurovision og kannski er það hápunkturinn, ekki bendir "kosningabaráttan" til annars. En skiptir þetta svosem einhverju máli, endar maður ekki hvort eð er ekki alltaf með því að kjósa Framsókn.
Smellti inn einni mynd af Atla Þór sem ég tók fyrir norðan um páskanna. Hann er bara sætastur.