þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Þessa vikuna er ég að leysa af í kennslu hérna í grunnskólanum. Helstu kennslugreinar eru tölvufræði í hinum ýmsustu bekkjum og danska og náttúrufræði í elstu bekkjunum. Tölvufræðin er allt í lagi, ekkert of flókið sem betur fer. Danskan hefur verið í lagi líka, það vill til að ég hef búið í Danmörkunni og sem betur fer hefur enginn krakkana dvalið langdvölum þar. Þá væri ég nú sjálfsagt í verri málum. Í náttúrufræðinni er ég að messa yfir 10. bekkingum um skriðdýr og froskdýr, á morgun eru það krókódílarnir. Hef aldrei verið mikið inn í þessum fræðum en hef góðar glærur. Þegar þau svo spyrja eitthvað út fyrir efnið vandast svo málið. Ég komst til að mynda að því að ég veit ósköp lítið um svefnvenjur bjarndýra og svipað lítið um svefntruflanir okkar mannanna.

En það tók hinsvegar að versna í því þegar ég var sett í það með litlum fyrirvara að kenna myndmennt í morgun. Eins og flestir þeir sem þekkja mig eitthvað að ráði þá hef ég ekki snefil af listrænum hæfileikum. Þetta var alltaf versta greinin mín í grunnskóla, ég gerði allt samviskusamlega eins og mín var von og vísa en þrátt fyrir alla mína samviskusemi og vandvirkni voru gæði verka minna almennt mjög léleg. Ég teikna enn eins og ég sé 10 ára gömul. Ég var því mjög passív í tímunum í morgun, ég sá að flest ef ekki öll gerðu betur en ég hefði getað gert. En þetta reddaðist.

Annars vitlaust veður hérna í dag. Áðan var alveg bálhvasst og rigndi eldi og brennisteini svo það buldi í gluggunum. Hef sjaldan eða aldrei séð svona mikið vatnsveður. Venjulega er lengra liðið á haustið þegar þetta gerist og úrkoman þá í formi snjós svo úr verður klassísk stórhríð. Þetta ætlar að verða leiðinlegt haust.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Er stödd á Akureyrinni í stuttri bókasafnsferð. Ferðinni er síðan heitið að ættaróðalinu á Melum seinni partinn í dag. Látum ekki leiðindaveður á okkur fá, verðum bara því meira inni við.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Athyglisverð grein hjá Hallgrími Helgasyni. Góðir punktar þótt á stundum taki hann nokkuð djúpt í árinni. Langar að sjá og skoða þessa nýju bók Friðþjófs Helgasonar, hef séð nokkuð af myndum eftir hann í gegnum Helga hafnarbúa og veit því að þetta er flott bók.

Ætla að standa upp frá tölvunni og lalla mér út í búð. Já, ég bý við þau forréttindi að geta labbað út í búð og verið þess fullviss að heilsa einhverjum á leiðinni eða í það minnsta á áfangastað. Samt bý ég ekki í fyrirheitnarlandinu 101 Reykjavík.
Tiltekt hér á blogginu. Ákvað að laga síðuna svo einhver texti sæist nú þegar farið er inn á síðuna. Bætti svo við tenglum og breytti templatinu fyrst ég var að þessu á annað borð.

Lítið að frétta annars, alltaf að lesa og skriftirnar miklu hefjast innan tíðar. Stefni svo á Danmerkurferð í október.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Komin þriðjudagur eftir langa helgi og leiðin liggur á amtið um leið og opnar. Ágætis helgi þrátt fyrir smá hikst hér og þar sbr. síðustu færslu en svona er lífið eins og þeir segja. Tanusinn á afmæli í dag, orðin fjögura ára skvísan. Man eins og það hafi gerst í gær þegar ég sá hana í fyrsta sinn um verslunarmannahelgina fyrir fjórum árum.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Kinki kekkinum í hálsinum. Tárin leka stjórnlaust niður kinnarnar. Tíðin er ekki góð.