föstudagur, maí 09, 2008

Einn átakanlegasti atburður æsku minnar var þegar ég, u.þ.b. 10 ára gömul, fór ég hina árlegu skólaskoðun og í ljós kom að ég var nærsýn og þurfti gleraugu. Ég var afskaplega reið og sár og grét mikið yfir þessum hræðilegu örlögum. Lífið var búið, ég yrði hræðilegur gleraugnaglámur það sem eftir væri ævinnar. Ég man að augnlæknirinn sagði við mig að ég gæti ekki búist við því að vakna einn daginn og sjónin hefði lagast, þó myndi sjálfsagt draga eitthvað úr nærsýninni eftir fimmtugt. Mér fannst þessi augnlæknir heimskur að halda að ég væri svo mikið barn að halda svona nokkuð. Hann var svona álíka gáfulegur og læknirinn á Blönduósi sem reyndi að hugga mig þegar ég fékk gat á hausinn um 5, 6 ára aldurinn með því að segja að plásturinn sem færi á hausinn á mér væri í mörgum litum. Eins og það skipti einhverju andsk.. máli.
En allavega, þessi augnlæknir gat náttúrulega ekki vitað hvernig tækninni átti eftir að fleygja fram því á laugardaginn síðasta vaknaði ég með nánast 100% sjón eftir laser aðgerðina frá deginum áður. Fór í tékk í morgun og allt lítur svona vel út og nú má ég fara að mála mig aftur um augun og fara í ræktina. Þetta er ótrúlega skrítið, stend mig að því að laga gleraugun og teygja mig eftir þeim þegar ég vakna. En þetta er frábært, algjört æði, ég er í raun og veru að skrifa þetta með berum augum.

Smá tuð að lokum, last mánaðarins (ef ekki misserisins) fær minn gamli atvinnurekandi Síminn. Ég er sjónvarpslaus (hlaut að vera fyst ég er að skrifa þetta) og sé fram á að vera það alla helgina vegna einhvers pikkles í kerfinu hjá þeim. En jæja nóg um það, sumarið er að koma, með sumarfríi, splunkunýju frændsystkini og fleiri skemmtilegheitum.

Þangað til næst.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Tók til fyrr í kvöld, ekki horfir maður á sjónvarp á þriðjudagskvöldi. Fann 74 evrur, 196 zloti, 50 cent, 92 danskar krónur og 63 sænskar. Ég er sjálfsagt sek um það að hafa tekið skortstöðu í ísl. krónunni.

laugardagur, nóvember 24, 2007

Smá tips hérna til þeirra sem hyggja á ferðalög til útlanda á næstunni:

  • Verið búin að útvega ykkur plastpoka með rennilás eða "zip-lock bag" eins og hann kallast á útlenskunni. Maður þarf jú að setja allan vökva ofan í svona poka fyrir öryggistékkið en þeir eru hættir að láta mann fá svona poka í tékkinu. Ég var semsagt send niður í 10/11 þar sem ég átti að kaupa svona poka en þar voru þeir búnir. Jamm, frekar heimskulegt.
  • Þeir sem fóru í gegnum Kastrup (alveg örugglega fjölfarnasti flugvöllur erlendis meðal Íslendinga) í sumar muna kannski eftir því að í vopnatékkinu var manni lofað að maður yrði ekki lengur en 7 mínútur í gegn og það sem meira var, það stóðst. En ekki lengur, ég stóð í röð í rúman hálftíma á fimmtudaginn. Og sé það lagt saman við tímann sem tekur að bíða í röðinni við "check-in" þá er þetta orðin fáranlega langur tími.

Malmö var annars fín og seminarið líka. Utanlandsferðum lokið að sinni.

Stal myndunum hér að neðan frá Birnunni.Systkinin heima á ströndinni
Atli og pabbi

Tanja og mamma

laugardagur, nóvember 17, 2007

Þetta er nú að verða hálf klént hérna, næ varla einni færslu á mánuði. Sit annars heima í sófa og horfi á Skógardýrið Húgó með Guðjóni nokkrum Dunbar. Þetta er mynd númer 2 um skógardýrið, erum búin með númer 1. Í dag hef ég líka farið í ræktina, horft á bókmenntaþáttinn Kiljuna, þrifið baðherbergið okkar, sett í tvær vélar og bráðum stend ég upp til að fara að elda kvöldmatinn. Jamm, þetta er alveg skelfilega heilbrigt allt saman. Það skal þó tekið fram svo engan fari að gruna að ég sé orðin settleg miðaldra húsmóðir fyrir aldur fram að ég djammaði um síðustu helgi, bæði kvöldin. Ó, sei, sei, já þetta var tekið á hörkunni, drukkið ofan í þynnkuna frá deginum áður. Hélt satt að segja að ég gæti þetta ekki lengur en maður kemur sjálfum sér stöðugt á óvart.

Á miðvikudaginn fer ég til Svíþjóðar, Malmö. Ég gisti bara eina nótt og verð bara tvo daga frá vinnu, hef aldrei farið í svona stutta ferð til útlanda. Spurning um að reyna að ná að kaupa einhverja jólagjafir.

Stelpurnar ætla út í kvöld, ég ætla svo ekki með þeim.

Þangað til í desember.

sunnudagur, október 14, 2007

Drykkja, þriðju helgina í röð. Öðruvísi mér áður brá. Fór í áttræðisafmæli til ömmu í gærkvöldi. Ofboðslega góður matur og mikil gleði. Vann í bingó, tvisvar sinnum. Heppin í spilum, óheppin í ástum... þið vitið. Sleppti desertnum og fór í teiti til góðra vina og svo í bæinn. Keypti mér líka bæði skó og jakka í Smáralindinni í gær.

Drykkfelld eyðslukló, hin nýja ég.

þriðjudagur, september 25, 2007

Poznan er falleg borg, gamli miðbærinn sérstaklega. En hótelið okkar er ekki svo fínt, ekki á mælikvarða hinna velmegandi norðurlandabúa allavega. Herbergið mitt er í svona "soviet style" eins og ég kýs að kalla það, hefur sjálfsagt verið ægilega fínt á 7. áratugnum. Þemað er brúni liturinn, allt er brúnt, líka ljóti panellinn á veggjunum. En svona er þetta, Pólverjarnir segja þetta vera fínt hótel.

Jæja, verð að haska mér, held kynningu um dásemdir Íslands eftir fimm.

laugardagur, september 22, 2007

Voðalega er maður orðinn latur við þetta. Er að fara til Poznan í Póllandi í fyrramálið, kem reyndar aðeins við í Köben á leiðinni út og heimsæki Þórunni og Helga í síðasta skipti í Danmörku. Skrítið. Enn skrítnara verður svo að fara og heimsækja þau hér á klakanum.

Ætlaði að segja eitthvað meira, vá hvað ég er löt við þetta. Ætla frekar að kveikja á sjónvarpinu...

adíós