þriðjudagur, júlí 31, 2007

Ég er í sumarfríi, eyddi viku á ströndinni og er nú í Eyjafirðinum hjá systur. Atli Þór er orðinn stórmyndalegur 10 mánaða gutti, ljóshærðari og frekari en stóra systir var á þeim aldri. Tanja sem verður 6 ára á fimmtudaginn byrjar í haust í stóra skólanum og er ekki búin að fá skólatösku. Hún talar mjög mikið og hefur orðið nokkuð fjölbreyttan orðaforða. Hún notar til dæmis ekki "afhverju..." þegar hún ber fram spurningu heldur "því...", dýpri endi sundlauga er ekki "djúpa lauginn" heldur fer hún á "dýpið" sem er mun dramatískara og hún skipar bróður sínum ekki að fara eitthvert "strax" heldur "undir eins".

Ég er alveg farin að sjá fyrir mér hvað ég ætla að gera þegar ég hætti að vinna. Ég fæ mér landspildu einhvers staðar, svona tvo hektara eða svo, og fæ mér góðan bústað eða kofa. Gróðurset tré í stórum stíl, rækta kartöflur, rófur og aðrar matjurtir, fæ mér nokkrar litskrúðugar landnámshænur, útikött og hund. Svo fjárfesti ég einni til tveimur fyrstu einkunnar merum, sem ég notabene borga einhverjum öðrum fyrir að sjá um, og reyni svo með ægilegum ættfræðipælingum að rækta úrvals gæðinga. Inn á milli les ég svo góðar bækur, hangi á netinu og horfi á bandarískar sjónvarpseríur. Þetta verður ljúft.

föstudagur, júlí 13, 2007

Ég get bara ekki vorkennt laxveiðimönnum. Ég skal vorkenna bændum þurrkinn en ekki þeim. Annars er vika í sumarfrí hjá mér, það verður ekkert smá ljúft. Planið er að vera sem minnst í Reykjavíkinni heldur fara út á land eins og Reykvíkingarnir segja. Ég fer nefnilega yfirleitt "ekki út á land" heldur segi ég hvert ég er að fara, norður eða suður í Borgarfjörð eða vestur á Ísafjörð ef því er að skipta.
Í ágúst eru svo planaðar tvær utanferðir, um miðjan mánuðinn fer ég til Danmerkur, Jótlandsins góða meira að segja, að heimsækja kollegana í Århus. Kannski að maður kíki aðeins á ættingjana í Horsens í leiðinni. Í lok mánaðarins fer ég svo til Ravoniemi sem er höfuðstaður norður Finnlands og heimkynni einhverrar útgáfu af jólasveininum. Á heimleiðinni kem ég svo við í Köben og ætla að eyða einni helgi með heiðursparinu Þórunni og Helga.

Sumarið er semsagt bara rétt að byrja.