þriðjudagur, janúar 24, 2006

Allar fréttir af andláti þessarar síðu eru ótímabærar. Ég hef bara verið í smá bloggpásu vegna anna. Ég hélt nú í fávisku minni að mér ætti jafnvel eftir að leiðast hér á ströndinna í vetur, fásinnið og allt það út á landi þið vitið. En ég hef alveg nóg að gera og rúmlega það stundum og mér hefur ekki leiðst eina einustu mínútu held ég. Það er nefnilega hellings vinna að koma sér inn í kennarastarfið. Ég er líka í rúmlega fullri kennslu og svo eru það allir þessir fundir, undirbúningur o.s.frv. En þetta er ágætt, í raun mun ágætara en ég bjóst við fyrirfram. Mér finnst t.d. mun skárra að kenna ensku en mér fannst að læra hana, ég þoldi ekki ensku tíma í grunn- og menntaskóla þótt mér gengi svosem alltaf vel.

Það hafa líka verið nokkrar annir fyrir utan skólann. Ég hef til að mynda átt í nokkrum "deilum" við dönsk skattayfirvöld. Jamm, ég þarf víst eitthvert plagg fyrir LÍN frá skattstjóranum danska og hef ítrekað beðið um þetta en ekkert gerist þó alltaf sé lofað öllu fögru. Þá er nú skattstjórinn á Siglufirði áreiðanlegri. En þetta hefur semsagt þýtt að ég hef enn ekkert námslán fengið og ég hef ekki heldur fengið útborgað svo ég er enn í fátæka námsmanns stellingunum þótt formlega sé ég ekki lengur námsmaður. Það fer nú vonandi að birta til í þessum efnum fljótlega.

Annars hef ég það bara almennt fínt, meira að segja mjög fínt. Bý á hótel mömmu þar sem ég fæ hollan mat og góðan félagsskap. Og eitt já, gerði stóra uppgötvun um daginn. Áralöng andúð mín á fiski var byggð á hálfgerðum misskilningi, nú hef ég nefnilega uppgötvað þorskinn. Þorskurinn er nefnilega bragðgóður annað en helv... ýsan með sitt slorbragð.

Jæja, læt þetta duga að sinni. Viðtalstíminn búinn (enginn hringdi) og nú er það enska í 10. bekk. Verð duglegri að skrifa hér þó ekki megi búast við sömu skrifgleðinni og þegar ég var í Danmörkunni.