sunnudagur, apríl 16, 2006

Gerði góða reisu til höfuðborgarinnar um síðustu helgi. Heimsótti nokkra vel valda ættingja eins og Helgu frænku, afa og ömmu og vinkonurnar tvær. Var vel veitt í mat og drykk hvar sem ég kom. Fór hins vegar ekkert í IKEA, Rúmfatalagerinn eða Kringluna. Lét það nægja að taka stuttan rúnt í Smáralindinni og korters stopp í Bónus í Borgarnesi á leiðinni heim.

Hvað er þetta annars með vegakerfið í elsku höfuðborginni? Nú er svoldið síðan að ég hef keyrt eitthvað að ráði í Reykjavík og ég átti á stundum í vandræðum með að komast leiðar minnar. Eins og strætókerfið er nú ömurlegt þá þarf maður þar allavega vega ekki að hugsa um það hvernig maður kemst á leiðarenda heldur bara hversu langan tíma og hversu marga skiptingar milli vagna það tekur. Ég hef heldur aldrei verið hrifin af hringtorgum en það virðast skipulagsyfirvöld í Reykjavík vera, þetta helv... er alls staðar. Þegar ég var krakki og sá stórborgina í hyllingnum voru umferðaljós mikilvægur hluti aðdráttaraflsins, ekki hringtorg. Og svo ég haldi nú áfram að tuða, hvað er þetta með að geta ekki lengur treyst á áttaskynið? Ég man þegar ég var að "æra á Reykjavík". Já!! kom með reglulegu millibili. Bústaðarvegurinn er semsagt fyrir ofan Miklubrautina og svo kemur Kringlumýrabrautin þvert á.... En núna á ég að beygja til hægri í eitthvað hverfi sem ég veit alveg að er vinstra megin við mig. Beygja til vinstri af Snorrabrautinni þegar maður ætlar vestur í bæ?!? Keyrði líka nýju Hringbrautina. Hvað er málið?? Það er eins og maður sé skyndilega komin á einhverja ameríska hraðbraut eða risabílaplan, ljósastaurarnir eru meira að segja skrítnir. Þarna gefa allir í í smá stund og svo bara... gerist ekki neitt, allt verður eins og áður og maður andar léttar að vera komin í gamla vesturbæinn sinn en skilur enn minna í því en áður hvers vegna maður keyrði í smástund í Ameríku.

Og smá ábending fyrir ferðalögin í sumar. Mæli með því að stoppa í Víðihlíð frekar en Staðarskála ef leiðin liggur um Húnavatnssýslurnar. Víðihlíðarskálinn er síst subbulegri og hamborgararnir ódýrari, betur útilátnir og síðast ekki síst bragðbetri en brasið í Staðarskála. Líka færra fólk og svona.

Nóg komið af tuði, þarf að huga að því hvernig hryggnum líður í ofninum.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég held því fram að vegakerfið sjálft sé ekki vandamálið (er reyndar t.d. mjög ánægð með þessar breytingar á Hringbrautinni), heldur merkingaleysið! Það er e-ð pínulítið skilti rétt áður en maður kemur að gatnamótum sem sýnir hvert skal beygja. Ekki eins og erlendis, þar sem það getur ekki farið fram hjá manni hvert skal fara vegna góðra merkinga. Eftir að hafa keyrt aðeins um Króatíu, Ítalíu og Frakkland hef ég mikið spáð í þetta og Ísland er bara mjööög aftarlega á merinni þegar kemur að vegamerkingum, hvort sem er til að merkja leiðir, eða til að láta vita af gatnaframkvæmdum.

En hvað varð annars af gamla góða Brúarskálanum?

4:28 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Staðarskáli og Víðihlíð eru sömu subbukompurnar,

Brúarskáli rokkar

12:50 e.h.  
Blogger Þóra said...

Þetta mat mitt er fyrst og fremst byggt á hamborgaranum sem ég fékk mér, ekki salernisaðstöðu og fleira. Að sjálfsögðu er ég tryggur aðdáendi Brúarskála enda "hverfissjoppa" Mela. En ég geri ráð fyrir því að borgararnir þar séu jafn ólystugir og dýrir og í Staðarskála þar sem eigendurnir eru þeir sömu af báðum skálunum á þessum síðustu og verstu.

8:34 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home