fimmtudagur, janúar 27, 2005

Var að horfa á fyrsta þátt dönsku þáttaraðarinnar Örninn. Þar er um að ræða pan-norrænan þátt með eindæmum. Aðalsöguhetjan er hálfur Íslendingur að nafni Hallgrímur Hallgrímsson, ákaflega klár dönsk lögga sem talar auk dönsku og íslensku, rússnesku, þýsku, frönsku og arabísku. Hann er svo í einhverri krísu og sú krísa tengist að mér sýnist æsku hans á Íslandi, nánar til tekið í Vestmannaeyjum ef ég sá rétt. Til að gera þáttinn ekta pan-norrænan horfði ég á hann á norska eitt með norskum texta og svo var sænskur flugvallarstarfsmaður að nafni Frida sem talaði sænsku. Um miðbik þáttar fékk Hallgrim eða Hallgrímur símtal frá Fróni og brestur á með íslensku. Var ekki alveg að átta mig á að allt í einu gæti ég skilið allt vanræðalaust því maðurinn talaði með talsverðum hreim. En systir hans, á hinum endanum, talaði hins vegar afbragðs íslensku enda íslensk leikkona sem leikur hana. Í lok þáttarins eins og í byrjun var síðan flogið lágflugi yfir íslenska náttúru.

Þetta virtist allt í lagi þáttur þótt skúrkarnir rússnesku kæmust undan. En kannski er beint framhald í næsta þætti. Veit ekki hvort ég nenni að horfa en þetta er allavega ágætis dönsku/norsku og jafnvel sænsku kennsla. Svo gerðist þátturinn að miklu leyti á mínum ástkæra flugvelli þeirra Kaupinhafninga, Kastrup.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home