sunnudagur, janúar 02, 2005

Búin að vera í góðri pásu, meira segja komið nýtt ár og allt. Gleðileg jól annars og farsælt komandi ár til ykkar sem rekast hingað inn. Þið ykkar sem áttuð jafnvel von á jólakorti, vonandi hafið þið ekki móðgast. Ég tek nefnilega ábyrgðarleysi mínu mjög alvarlega og sendi því engin jólakort þetta árið. Ég hugsaði hins vegar fallega til allra sem ég þekki og líkar vel við.

Farið að styttast all verulega í Danmerkurför. Verð að segja að ég hlakka ekki beint til. Það verður reyndar gaman að hitta aftur Þórunni og Helga og Dögg og svona en sömuleiðis leiðinlegt eins og alltaf að koma sér fyrir. Er heldur ekki alveg að nenna að fara að læra á fullu. Tveggja vikna verkefni fram undan úr lesefni síðustu annar svo vörn og þá masters ritgerðin. Tómt stuð. En ég þekki þó allavega staðinn og eitthvað fólk á staðnum, það er alltaf jákvætt.

Annars voru þessi jól og áramót með allra rólegasta móti. Veðrið setti mark sitt á þetta allt saman. Reyndum ekki einu sinni að skjóta upp flugeldunum á miðnætti. Skutum þeim upp í gærkvöldi í staðinn sem er alls ekki það sama.

Hvernig ár ætli 2005 verði? Einu sinni hafði ég þá kenningu að oddatöluár væru betri en slétt ár, veit reyndar ekki alveg á hverju ég byggði það. En ég er allavega orðin afhuga þeirri kenningu, 2004 var miklu skemmtilegra heldur en 2003.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home