sunnudagur, maí 30, 2004

Er búin að vera að garfa svoldið í Íslendingabokinni á netinu í kvöld. Já, maður er orðin svo gamall að ættfræði áhuginn er farinn að láta á sér kræla. Ég var að skoða móðurættina mína, nánar til tekið ættir ömmu Betu á Jaðri. Amma hennar og langa, langa amma mín hét Sólbjörg Jóndóttir (reyndar Sólbjört skv. kirkjubók) og bjó lengst af á Syðri-Ey á Skagaströnd. Hún fæddist árið 1829 og eignaðist sitt fyrsta barn með manni sínum Finni Magnússyni árið 1854 eða 24 ára gömul. Næstu átján árin eignaðist hún samtals tólf börn, það síðasta 24. apríl árið 1872. Tólfta og síðsta barnið var langafi minn Frímann Finnsson. Hún Sólbjörg dó svo tæpum sex mánuðum eftir að hann fæddist þá 43 ára gömul. Ég get ekki betur séð skv. Íslendingabók að aðeins fimm af þessum tólf börnum hafi lifað fram á fullorðinsaldur.

Hann Frímann langafi minn kvæntist Kristínu Pálsdóttur og þau settust að Jaðri á Skagaströnd. Þau eignuðust alls fimm börn og þrjú þeirra lifðu. Næst yngst var amma mín Elísabet Sigríður. Frímann dó árið 1937 þá hefur amma verið 24 ára gömul.

Og svo er ég að kvarta og kveina.

Annað líka sem ég tek eftir þegar ég skoða þetta. Mamma var 27 ára þegar hún átti sitt fyrsta barn, mig. Amma á Jaðri var 29 ára þegar hún átti Sigga frænda og Kristín mamma hennar var 33 ára þegar hún átti sitt fyrsta. Og þær giftu sig um ári áður en þær byrjuðu að eignast börn. Nema reyndar mamma sem trúlofaði sig bara. Ergo, ég er bara "eðlileg", held uppi hefðinni. Það frekar systir mín sem er skrítin.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home