sunnudagur, maí 23, 2004

Einhverjar pælingar í dag um það sem ég vil gera versus það sem ég ætti að gera. Það sem mig hreinskilnislega langar mest til að gera er að eignast Jaðar og búa þar, allavega hluta úr ári. Auðvitað geri ég þetta ekki því þetta er gjörsamlega óraunhæft. En manni má samt dreyma. Jaðar er húsið heima á Ströndinni sem afi og amma bjuggu, afi og amma á Jaðri, Bjössi og Beta. Það er nefnilega svo að ekkert nema góðar minningar tengjast þessu húsi. Hvernig sem ég leita í huga mínum kemur engin slæm eða leiðinleg minning upp. Jaðar minnir mig á heitar lummur, saltfisk, Vikuna og Æskuna, dívaninn inn í stofu, orgelið, vilko súpur, hellusteypun, kartöfluferðir á rauða fólksvagninum, skautasleðann, orf og ljá, vasahnífinn hans afa, svarthvíta sjónvarpið, lyktina af pípureyk...

Besta æskuminning mín átti sér stað á túninu við skúrinn hans afa, rétt hjá Jaðri. Þar var hann eitthvað að vinna á lítilli dráttarvél sem hann átti. Ég hef verið svona 6-7 ára held ég. Hann var að keyra dráttarvélina, setti hana í lægsta gír þannig að hún rétt lullaðist áfram og steig af henni. Dráttarvélin hélt auðvitað bara áfram og afi sagði mér að fara upp í stýra henni. Það gerði ég og keyrði um túnið alveg heillengi á kannski 5 km hraða. Þetta var æðislegt og ég hætti ekki fyrr en að mér var orðið svo kalt á tánum að ég hélt að þær myndu detta af. Þetta hefur því væntanlega verið um vetur eða haust. Stundum held ég að mér hafi dreymt þetta því að það meikar nú ekkert sérstaklega mikið sens að leyfa 6 ára krakka að keyra. En fyrst ég held að þetta hafi gerst þá gerðist þetta, allavega í huga mínum.

Ég held að þessar hugsanir komi upp núna vegna þess að mamma og bræður hennar eru smá saman að hreinsa dótið þeirra afa og ömmu út úr húsinu. Um daginn fann mamma bréf og m.a. bréf frá ömmu til vinkonu hennar sem hún sendi aldrei. Þar var minntist hún á mig og að hún væri að passa mig hálfan daginn. Svo bætti hún því við að ég væri gott barn. Sem ég að sjálfsögðu var og hef alla tíð verið.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Takk fyrir commentið Bjarkey og til hamingju með óléttuna. Ástæðan fyrir því að þetta er raunhæft hefur fyrst og fremst með peninga að gera. Ég sé ekki að ég geti keypt hús á Ströndinni og gert það upp og leigt eða keypt í Reykjavík á sama tíma. Og ég er heldur ekki að sjá að ég geti búið heima því þar er enga vinnu að fá fyrir mig. Verð bara að finna kall sem hefur nú þegar góðar tekjur og getur unnið hvar sem er. Svo förum við bara heim, kaupum Jaðar og búum til börn :) Gott plan finnst þér ekki.

1:13 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home