þriðjudagur, apríl 13, 2004

Nafnið mitt
Ef ég eignast einhvern tímann dóttur þá verður fyrsti stafurinn í hennar nafni ekki Þ. Það er bölvað vesen nefnilega að heita Þóra í útlöndum. Fjórar útgáfur af nafninu mínu hafa verið í gangi síðan ég hélt út Danmerkur, Tora, Thora, Dora og Pora. Tora er það sem ég nota yfirleitt, ég er farin meira að segja farin að kynna mig þannig fremur en að nota Þ. Th-ið segi ég svo ef fólki er voða mikið í mun að komast sem næst því að segja nafnið rétt. En ég sé engan tilgang í því að nota það, ég heiti fjögura stafa nafni og ég er ekki amerísk. Dora er nafn sem bæði skólinn og húsnæðisfélagið gáfu mér áður en ég kom út. Það stóð í bréfinu sem ég fékk um að ég hefði komist inn í skólann og það stendur á póstkassanum mínum. Mér er einn að verst við þetta því Dóra er náttúrulega þekkt nafn í íslensku og ég heiti bara alls ekki Dóra. Auk þess hef ég aldrei verið sérstaklega hrifin af þessu nafni. Þeir þarna úti virðast hafa bara skellt næsta þekkta nafni á mig fyrst þeir könnuðust ekki við Þóru nafnið. Pora hljómar náttúrulega hræðilega en það er allavega viðleitni, sá stafur sem er líkastur þ-inu á dönsku lyklaborði.
Annað tengt nafninu mínu sem þessi flutningur hefur haft í för með sér að nú er ég yfirleitt fyrst á blaði hjá skrifstofunni yfir nemendurna í deildinni. Þeir fara náttúrulega eftir seinni nöfnum og Agustsdottir er því mjög framarlega. Þetta er algjör viðsnúningur því ég hef alltaf verið mjög aftarlega í stafrófinu og oft aftast. Þó hefur komið fyrir að Á-ið er gert að bollu A-i en ekki oft þó.
Ó, sei, sei, já, það er ekki alltaf tekið út með sældinni að búa í útlandinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home