miðvikudagur, mars 10, 2004

Skrítnar draumfarir í nótt. Fyrst vaknaði ég um fimm leytið og var þá nýbúin að lenda í skotárás. Eina vörnin sem við höfðum gegn árásarmönnunum var teppi sem ég var með og það virtist duga eitthvað. Þegar ég vaknaði var ég nýbúin að kyrkja einn af vondu körlunum. Eftir klósettferð fór ég aftur að sofa og mig hélt áfram að dreyma. Að þessu sinni var ég stödd í Noregi, nánar til tekið í norskri gúmímottuverksmiðju. Taka skal fram að ég hef aldrei komið til Noregs né í gúmíverksmiðju. Þetta var fyrsti dagurinn minn sem gúmímottugerðarmaður og verkstjórinn var að sýna mér hvernig maður bressaði munstrið í gúmíið með svona nokkurs konar heflara. Ótrúleg vitleysa.

Danska ríkið eða kommúnan í Álaborg fær stórt prik í dag. Ég fór í minn fyrsta dönskutíma og það verður bara að viðurkennast að þetta var bara gaman. Þarna sátum við ca. 10 ásamt kennaranum Tínu og töluðum um hin ýmsu efni eins og danska skólakerfið, jafnrétti kynjanna og fleira. Ég tjáði mig meira að segja svoldið og átti ekki í neinum vandræðum með að skilja dönskuna. Svo voru líka hinir nemendurnir athyglisverðir, Kóreubúi, Kínverji, Letti sem fannst voða gaman að tala, könsk húsmóðir og fleiri. Við hliðina á mér sat kona með kápuna sína hneppta upp í háls allan tímann og klút yfir hárinu. Svo kom í ljós að hún heitir Zara og er kúrdi frá Írak. Ég hef aldrei áður hitt einhvern frá hinu alræmda Írak og því síður kúrda. Hún hefur örugglega sögu að segja.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home