föstudagur, febrúar 20, 2004

Sit hér og drekk Tuborg úr plastflösku fyrir framan Beverly Hills í sjónvarpinu. Svaka stuð. En annars er ég að fara í svokallað international foodparty í skólanum. Ég, algjörlega hugmyndasnauð að venju, bjó til rækjusalat eins og ég gerði við sama tækifæri á síðustu önn. Á morgun er það svo Arhus, ætla að heimsækja Þóru frænku, Danna og litlu Elísabet. Það kom að því að við myndum hittast og alveg týpískt að við myndum gera það fyrst í Danmörkunni. Við bjuggum í tíu mínútna göngufjarlægð frá hvorri annari heima á Íslandi í einhver tvö ár.

Í hádeginu í dag ákvað ég að fara í sund. Það er eins með bíómenninguna, sundmenning Dana er lítt þróuð. Í fyrsta lagi eru bara innilaugar hér en ég fyrirgef þeim það svosem því heita vatnið er dýrt. En það voru líka engir heitir pottar ekkert gert ráð fyrir því að maður vilji og geti slakað á. Í lauginni var svo náttúrulega fólk, krakkar að leika sér og fullorðnir að synda. Það var svo mikið óskipulag. Fólk synti ekki eftir brautum eða neitt svo nýtingin var afskaplega léleg. Einnig voru sundmennirnir sjálfir einkennilegir. Ég er nú ekki mikill sundmaður en mér leið eins og væri bara ólympíumeistari þarna í lauginni. Fólk synti bara bringusund með hausinn upp úr og alveg lúshægt. Og nú er ég ekki bara að tala um einhverja gamlingja heldur voru þarna drengir á mínum aldri sem syntu eins og þeir væru kerlingar á elliheimili.
En jæja ég ætla að hætta að úthúða Dönunum. Sumir hlutir eru alls ekki svo slæmir hér, bjór- og hjólamenningin er til að mynda mun betri en heima.
En jæja ég þarf að fara að gera mig sæta fyrir átið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home