föstudagur, nóvember 21, 2003

Hálf sorglegur dagur eitthvað. Ég er reyndar að verða ansi leið á þessu upp og niður skapsveiflum mínum. Stundum langar mig bara að fara heim og hætta þessu skólaveseni en stundum er þetta bara fínt. Ég veit þetta er eðlilegt en þetta er að verða svoldið þreytandi. Stressið er líka aðeins farið að plaga mig aftur en ég reyni að hafa stjórn á þessu. Ég var alltof stressuð fyrir þetta blessaða próf og svo gekk það bara betur en nokkurn hefði grunað.
Í dag er líka akkúrat mánuður þangað til ég fer heim og í dag keypti ég síðasta strætókort þessa árs. Þetta er búið að vera ótrúlega fljótt að líða. En gvuð hvað ég hlakka til að fara heim. Jólin hafa líka áhrif á þetta. Ég er ekki bara að fara heim heldur er ég líka að fara heim í jólafrí. Ég verð bara meira og meira jólabarn eftir því sem ég verð eldri. Jólin í fyrra voru líka frábær í alla staði og núna fæ ég meira að segja lengra frí en þá. Það er reyndar svo margt sem mig langar að gera. Ég vil náttúrulega vera sem mest fyrir norðan en samt vil ég líka heimsækja alla vini mína og ættingja fyrir sunnan og svona. Þetta kemst ekki allt fyrir en ég geri mitt besta. Maður getur víst ekki gert mikið meira en það hvað sem verkefnið er. Úff Danmörk, eða öllu heldur fjarlægðin frá Íslandi, hefur gert mig mjúka og væmna. Ég á svo eftir að faðma alla þegar ég kem heim og eins og þeir vita sem þekkja mig þá er ég ekki beinlínis þessi "knús"-týpa. En þetta er það sem "einveran" í útlöndum gerir manni. Ég hef bara ekki faðmað neinn að viti síðan ég kom hingað. Reyndar hefur hinn "ligeglaði" danski Rene Larsen hópfélagi minn faðmað mig nokkrum sinnum en hann er einmitt þessi "faðma alla"- týpa. En það er bara ekki það sama. En nú er nóg komið af þessu bulli, ég ætla að fá mér að spisa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home