fimmtudagur, september 18, 2003

Jæja þá er ég komin með nettengingu heim. Reyndar bara svona venjulega, ekki sítengingu, ég sé til með það. Og það sem meira er að ég setti þetta upp alveg sjálf, ótrúlegt en satt. Þetta var reyndar ekkert mál en ég er óttalegur tölvuauli. Ágætt að geta farið að skrifa íslensku stafina aftur.
Það er farið að ganga ágætlega hér í Danaríki. Skólinn er kominn á full og það er nóg að lesa. Í dag áttum við að mynda hópa sem er aðalatriðið í allri kennslu í Álaborgarháskóla. Mér tókst reyndar ekki að komast í endanlegan hóp en ég ætla hitta hinn danska Peter og hina rússnesku Lube á sunnudaginn og þá kemur í ljós hvort við erum að hugsa eitthvað svipað. Annars hefur mestur tími farið í það að vesenast. Ég keypti skrifborð og setti það saman, það tók mig reyndar næstum tvo tíma en ég gerði það alveg sjálf. Svo keypti ég sjónvarp og fór með það í strætó heim. Ég var ansi lúin eftir að hafa borið það í strætó, skipt um strætó niðri í bæ og borið það síðan heim úr strætó upp alla stigana. Ég fékk meira að segja strengi daginn eftir.
Í síðustu viku fór ég líka í danska herstöð. Ég hef aldrei komið í herstöð áður og þaðan af síður danska. En við í deildinni fórum semsagt á svona seminar í Aalborg airbase og gistum þar eina nótt. Þarna hlustuðum við á misskemmtilega fyrirlestra allan daginn um "world order" og borðuðum þess á milli. Það var alltaf verið að bera í okkur mat og við þurtfum ekki að borga krónu fyrir þetta allt saman nema náttúrulega bjórinn. Já nema hvað, á fimmtudagskvöldinu var bjór þjóraður af miklum krafti af bæði kennurum og nemendum. Ástand manna 9:30 daginn eftir þegar fyrirlestrar byrjuðu aftur var ansi misjafnt. Ég hélt mér þó á mottunni. Annars er merkilegt hvað fólk drekkur mikinn bjór hérna og reykir mikið. Það er bar í skólanum og fólk reykir í mötuneytinu.
Ég er aðeins byrjuð að tala dönskuna en verð samt að vera duglegri við það. Það er bara svo ansi hentugt að grípa í enskuna og svo er líka öll kennslan á ensku. En svona eftir þriggja vikna veru í Danaríki ætla ég að setja niður nokkra punkta galla og kosti þess að vera hér. Gallarnir koma fyrst:

-Allir þeir sem mér þykir vænst um eru í öðru landi eða löndum.
-Ég þarf að ferðast með strætó sem ég var búin að gleyma hvað er leiðinlegt.
-Ég bý upp á 4. hæð "með" fólki sem ég þekki ekki neitt.
-Danskt súkkulaði og kók er ekki nálægt því eins gott og það íslenska.
-Ég get ekki vanist því að þurfa að passa mig á hjólum þegar ég stíg út úr strætó.
-Ég fæ óhugnalega mikið af ruslpósti, meira en heima.

Og svo eru það kostirnir:

-Bjórinn er mun ódýrari en heima.
-Veðrið er mjög gott, allavega hingað til, sól og 20 stiga hiti næstum upp á hvern einasta dag.
-Skinkan er rosalega góð, niðurskorin hamborgarahryggur, og kostar voða lítið.
-Ég er með næstum 30 sjónvarpsstöðvar og á fimmtudagskvöldum kl. 10 er tvöfaldur Sex and the city í nýju seríunni.
-Ég er búin að kynnast skemmtilegu fólki en hingað til reyndar eiginlega bara Íslendingum.
-Ég með heimilislækni í fyrsta skipti á ævinni, hinn ábyggilega þýskættaða Frantz Vogel.

Jæja ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Ég hef aldrei skrifað svona mikið á bloggið. Það er svona þegar maður býr einn og nennir ekki að fara að sofa. Ætli ég verði ekki duglegri við þetta á næstunni en áður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home