fimmtudagur, maí 08, 2003

Jæja þá er ég búin að kjósa. Fylgdi straumnum niður í kjallara hjá sýslumanninum í Reykjavík og greiddi gilt atkvæði. Konan sem "afgreiddi" mig vissi ekki að Skagaströnd og Höfðahreppur væri sami hluturinn. Greinilega ekki með landafræðina hreinu kerlingin sú.
Síðan þurfti ég að koma atkvæði mínu til skila svo ég tók krók á leiðinni aftur í vinnuna og kom við á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins. En ég kaus þá samt ekki, eða gerði ég það? Ég hef ákveðið að fara að fordæmi móður minnar og gefa aldrei upp hvað ég kýs. Í það minnsta þangað til ég eða minn framtíðar betri helmingur fer í framboð.

Annars er ég alltaf voðalega óviss um það hvað ég eigi að kjósa. Ég kýs að kenna fjölskyldu minni um þetta. Eins og áður sagði er veit engin hvað mamma kýs en pabbi hefur alltaf verið vinstri sinnaður og kaus Alþýðubandalagið hér í den. Hvað hann kýs nú veit ég svo sem ekki alveg en það er allavega á vinstri kanntinum. Móðurafi minn var harður sjálfstæðismaður af gamla skólanum, ekkert nýfrjálshyggjubull heldur átti hver að sjá fyrir sér og sínum og vera sjálfur sér nógur. Að vísu held ég að hann hafi verið farið að linast eitthvað í sannfæringu sinni í ellinni en þá sá hann að samhjálp, sem hann naut sem ellilífeyrisþegi á elliheimili, væri ekkert svo galið fyrirbæri. Það var víst oft fjör á Jaðri þegar pabbi og mamma bjuggu þar hjá afa og ömmu fyrstu tvö ár ævi minnar. Föðurafi minn er svo harður framsóknarmaður enda var hann bóndi í 50 ár og sat í stjórn kaupfélagsins o.s.frv. Innan um í systkinahóp foreldra minna eru svo einhverjir kratar.
Þetta er allt gott fólk og ég er sammála því flestu að einhverju leyti en þá stendur eftir hvað ætti ég að kjósa? Guði sé lof að ég þarf ekki að gera þetta aftur fyrr en eftir 4 ár.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home